Davíð Oddsson
Davíð Oddsson
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra lagði blómsveig að minnisvarða um fórnarlömb hungursneyðarinnar í Úkraínu á árunum 1932-33 í gærmorgun, en þriggja daga opinberri heimsókn hans til landsins lauk um hádegisbil í gær.

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra lagði blómsveig að minnisvarða um fórnarlömb hungursneyðarinnar í Úkraínu á árunum 1932-33 í gærmorgun, en þriggja daga opinberri heimsókn hans til landsins lauk um hádegisbil í gær. "Það var mjög táknrænt að fá að leggja blómsveig að þessu minnismerki. Oft er það nú minnismerki um hinn óþekkta hermann, eða þess háttar, þarna voru margir óþekktir hermenn í þessu falli," segir Davíð.

Aðspurður segir hann að sér hafi þótt áhrifaríkt að koma að þessu minnismerki og heyra frásagnir af því hvað Úkraínumenn hafi þurft að ganga í gegnum. "Það létust um átta milljónir manna í heimatilbúinni hungursneyð af völdum kommúnismans og Stalíns," segir Davíð og bætir við að þetta hafi í raun verið nokkurs konar móðuharðindi af mannavöldum, en tilgangurinn var að brjóta niður íbúa Úkraínu og þjóðernisvitund meðal þeirra.

"Þetta var afar stutt heimsókn og mjög þétt dagskrá. Maður er rétt að melta þetta," segir Davíð þegar hann er inntur eftir því hvað honum sé efst í huga við lok heimsóknarinnar. "Maður átti kost á viðræðum við helstu aðila á skömmum tíma og svo var þetta athyglisverð skoðunarferð í [gær]morgun, í gamlar kirkjur og söfn. Þetta er eftirminnileg ferð fyrir þær sakir að Úkraína er á ákveðnum vegamótum um þessar mundir. Það er fróðlegt að fá að eiga viðræður við þessa menn, koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hlusta á þá. Það er mjög athyglisvert," segir Davíð.