Silvio Meissner, leikmaður Stuttgart, og Eiður Smári Guðjohnsen eigast við í leik liðanna í Meistaradeildinni í gærkvöldi.
Silvio Meissner, leikmaður Stuttgart, og Eiður Smári Guðjohnsen eigast við í leik liðanna í Meistaradeildinni í gærkvöldi. — Reuters
CHELSEA náði frábærum úrslitum í Meistaradeildinni í gærkvöldi þegar liðið heimsótti Stuttgart í Þýskalandi og sigraði, 1:0. Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Chelsea og átti ágætan leik en honum var skipt út af fyrir Jimmy Floyd Hasselbaink á 76. mínútu. Leikmenn Chelsea mæta því með góða stöðu í síðari leikinn eftir tvær vikur.

Það má segja að Chelseamenn hafi verið stálheppnir í gærkvöldi því heimamenn sóttu mun meira og fengu nokkur ákjósanleg færi í fyrri hálfleik á meðan gestirnir áttu í miklum erfiðleikum og komust vart fram fyrir miðju. Eiður Smári fékk reyndar dauðafæri á 31. mínútu en skaut hátt yfir einn á móti markverði. Hann lék með ágætum í fyrri hálfleiknum.

Chelsea átti líka sókn á 12. mínútu þegar Glen Johnson átti fína sendingu frá hægri kanti fyrir markið. Varnarmaðurinn Fernando Meira var fyrir framan Hernan Crespo, teygði sig í knöttinn og það tókst ekki betur til en svo að hann sendi boltann í bláhornið.

"Við byrjuðum illa, strákarnir virtust taugaveiklaðir og við lékum hreinlega illa," sagði Claudio Ranieri stjóri Chelsea. Samkvæmt tölfræði leiksins átti Chelsea ekki eitt einasta skot sem hitti á mark mótherjanna. Heimamenn fengu hins vegar nokkur færi en tókst ekki að skora. "Við börðumst eins og við gátum en því miður dugði það ekki til," sagði Kevin Kuranyi, sóknarmaður Stuttgart.

Það sem vantaði hjá Stuttgart er nákvæmlega það sama og hefur vantað hjá liðinu í deildinni, að skora mörk og telja margir að ef liðinu hefði gengið betur upp við markið í vetur væri það með betri stöðu en raun ber vitni, en liðið er sem stendur í þriðja sæti og hefur aðeins gert 27 mörk.

"Við lékum vel en það vantaði að skora eins og svo oft áður hjá okkur í vetur. Ljósið í myrkrinu er að Chelsea hefur leikið verr á heimavelli í vetur en útivelli þannig að við teljum okkur enn eiga möguleika," sagði Felix Magath, þjálfari Stuttgart.