STJÓRNVÖLD í Ísrael ætla að breyta áformum sínum um aðskilnaðarmúr umhverfis heimastjórnarsvæði Palestínumanna þannig að hann verði 80 km styttri en ráðgert var.

STJÓRNVÖLD í Ísrael ætla að breyta áformum sínum um aðskilnaðarmúr umhverfis heimastjórnarsvæði Palestínumanna þannig að hann verði 80 km styttri en ráðgert var. Heimildarmenn í Ísraelsher skýrðu frá þessu í gær þegar málflutningi vegna deilunnar um múrinn lauk fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.

Heimildarmennirnir sögðu að eftir breytingarnar yrðu aðskilnaðarmúrinn og aðrar hindranir á Vesturbakkanum alls um 640 km að lengd.

Ísraelskir hermenn hafa þegar byrjað að rífa niður átta kílómetra múr umhverfis palestínska bæinn Baka al-Sharkiya. Heimildarmennirnir sögðu að herinn hygðist m.a. fjarlægja kílómetra langan múr austan við Qalqilia á Vesturbakkanum og hætt yrði við 20 kílómetra múr sem átti að reisa milli þorpanna Al-Mutilla og Taysir.

Jerúsalem. AFP.