SVALA Thorlacius hæstaréttarlögmaður segir engan vafa leika á því að skilnuðum hafi farið fjölgandi síðustu ár. Hún segir færast í aukana að ungt fólk sæki um skilnað og telur hún að mikill skuldaklafi sé vaxandi þáttur í fjölgun skilnaða.

SVALA Thorlacius hæstaréttarlögmaður segir engan vafa leika á því að skilnuðum hafi farið fjölgandi síðustu ár. Hún segir færast í aukana að ungt fólk sæki um skilnað og telur hún að mikill skuldaklafi sé vaxandi þáttur í fjölgun skilnaða.

"Ég hef verið í lögmannsstarfi síðan árið 1976 og mér finnst ég sjá marktækar breytingar á afstöðu fólks til skilnaðar. Hjónaskilnaður eða slit á óvígðri sambúð er mun algengari en áður meðal yngra fólks. Mér finnst fólk líka taka mun léttar á þessu en áður og þá á ég við að minna þurfi til að fólk ákveði að skilja. Áður reyndi fólk, vegna ungra barna, að halda hjónabandinu gangandi, en nú virðist sem fólk ákveði skilnað jafnvel þótt það eigi mörg ung börn," segir Svala.

Hún segir að oftast séu margar samverkandi ástæður fyrir skilnaði, t.d. ofneysla áfengis og framhjáhald auk fjárhagsvandræða. Það síðastnefnda eigi sívaxandi þátt í upplausn fjölskyldna og oft megi rekja rót annarra vandamála til erfiðleika í fjármálum. "Oft er maður hreinlega gáttaður á því hvað ungt fólk er skuldum vafið. Það hefur fjárfest í húsnæði, innbúi og bílum, stundum allt á lánum. Það er ekki lítið álag fyrir ungar manneskjur með mikla vinnu og lítil börn að fá í sífellu gluggaumslög í póstkassann," segir Svala.

"Mín skoðun er sú að brýna nauðsyn beri til að taka upp í grunnskólum leiðbeiningar um fjármál heimila. Slíkt gæti áreiðanlega orðið til góðs og komið í veg fyrir þann fjárhagsvanda sem eyðileggur mörg íslensk heimili í dag," segir Svala.

Aðspurð segist hún telja að hjónabandið sé einnig að styttast. "Það er mín tilfinning að fólk vinni kannski ekki jafn mikið í hjónabandinu og áður. Fólk fer til hjúskaparráðgjafa, það getur oft bjargað málunum, en manni finnst það oft sorglegt þegar fjölskyldur með mörg lítil börn leysast upp," segir Svala.

Hún telur að breytt staða konunnar eigi sinn þátt í því að skilnaðartíðni hafi aukist, þar sem konur voru áður fyrr gjarnan háðar framfærslu eiginmannsins, sem er sjaldgæfara í dag. "Þær höfðu minni menntun og minni starfsreynslu og hreinlega treystu sér ekki út á vinnumarkaðinn. Þó þær væru kannski í óhamingjusömu hjónabandi urðu þær að sætta sig við það."