SKILNAÐIR eru algengari í stærstu löndunum í kringum okkur en hér á landi, ef skoðaðar eru hagtölur um giftingar og lögskilnaði á Norðurlöndunum á árunum 1990-2002, frá Hagstofu Íslands.

SKILNAÐIR eru algengari í stærstu löndunum í kringum okkur en hér á landi, ef skoðaðar eru hagtölur um giftingar og lögskilnaði á Norðurlöndunum á árunum 1990-2002, frá Hagstofu Íslands. Svo virðist sem íbúar eyja séu því hamingjusamari í hnappheldunni, hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir því.

Út frá tölum um hjónaskilnaði má ætla að Færeyingar séu hamingjusamastir Norðurlandabúa í sínum hjónaböndum, en meðalskilnaðartíðni þar var á tímabilinu 1 á hverja 1.000 íbúa og var meðalfjöldi giftinga 5,1. Næst á eftir koma Álandseyjar, þar sem 1,8 af 1.000 íbúum skildu að meðaltali og 4,3 gengu í hjónaband.

Ísland kemur fast á hæla Álandseyja, tíðni skilnaða hér á landi var á tímabilinu 1,9. Hlutfallið fór hæst hér á landi í 2,1 árið 1991 og var lægst árið 1999, eða 1,7. Hæsta gildið hér á landi er lægra en meðaltíðni skilnaða í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð á tímabilinu. Meðaltíðni giftinga hér var 5,2, fór hæst í 6,3 árið 2000, en lægst í 4,5 árið 1990.

Skilnaðartíðnin er aftur á móti mest í Finnlandi, þar sem hún mældist 2,6 að meðaltali. Giftingartíðni í Finnlandi er í lægri kantinum í þessum samanburði, eða 4,8. Lægst er giftingatíðnin í Svíþjóð, þar sem 4 af hverjum 1.000 íbúum gengu í hjónaband að meðaltali. Tíðni þess að fólk láti pússa sig saman er hæst í Danmörku, eða 6,6 fyrir hverja 1.000 íbúa og er skilnaðartíðnin næstmest þar. Þar skildu 2,6 íbúar á hverja 1.000 á tímabilinu. Skilnaðartíðnin í Svíþjóð var 2,4 á tímabilinu og í Noregi 2,3.