Lið Menntaskólans í Reykjavík/Latínuskólans: Oddur Ástráðsson, Snæbjörn Guðmundsson og Atli Freyr Steinþórsson.
Lið Menntaskólans í Reykjavík/Latínuskólans: Oddur Ástráðsson, Snæbjörn Guðmundsson og Atli Freyr Steinþórsson. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Já, það verður æsispennandi að fylgjast með spurningakeppninni Gettu betur í kvöld í sjónvarpinu, þar sem lið Menntaskólans í Hamrahlíð mætir liði Menntaskólans í Reykjavík.

Já, það verður æsispennandi að fylgjast með spurningakeppninni Gettu betur í kvöld í sjónvarpinu, þar sem lið Menntaskólans í Hamrahlíð mætir liði Menntaskólans í Reykjavík. Einn af liðsmönnum MR-liðsins, Atli Freyr Steinþórsson, segist ekki vilja kalla skólann sinn annað en Latínuskólann og að þar verði stunduð fornfræði og málvísindi. Atli Freyr er ekki alveg hlutlaus í því að stefna að þessari breytingu, þar sem hann er í fornmáladeild og nemur latínu og er mikill aðdáandi hennar. "En ég og fleiri viljum þetta líka út af því að skólinn hefur fengið á sig orð fyrir að vera stærðfræðiskóli og þeim misskilningi viljum við eyða." Annars segir Atli Freyr að hann og hinir tveir félagar hans sem mynda keppnisliðið, þeir Oddur Ástráðsson og Snæbjörn Guðmundsson, séu mjög slakir fyrir keppnina, enda eru þeir að keppa saman í þriðja sinn í röð í Gettu betur og því sjóaðir í bransanum. "Við höfum eiginlega runnið saman í eina spurningasál og þekkjumst orðið ansi vel. En við erum ekkert endilega vissir um að vinna þótt Latínuskólinn hafi unnið mörg ár í röð. Við gerum bara okkar besta og höfum gaman af þessu meðan á því stendur." Þeir þremenningarnir fóru strax að undirbúa sig í haust þegar skólinn byrjaði og hittust þá einu sinni í viku. "En það þéttist þegar nær dregur," segir Atli Freyr og vill ekki gangast við því að Latínuskólinn sé karlrembuskóli í ljósi þess að aðeins einu sinni hafi skólinn skartað kvenkyns veru í keppnisliðinu. "Við höfum einmitt hvatt stelpurnar til að taka þátt í forprófinu sem alltaf er haldið til að velja í liðið, en ég hef enga skýringu á hógværð þeirra." Þeir félagarnir hafa lagt áherslu á slökun á keppnisdaginn. "Eiginlega er það orðin hefð hjá okkur að fara í sund og gufu og fá okkur bakkelsi á eftir, áður en við förum í upptöku. Við ætlum okkur ekki að láta það klikka í dag frekar en hin tvö árin á undan."

Skiptir máli að líða vel

Krakkarnir sem skipa lið Menntaskólans í Hamrahlíð, þau María Helga Guðmundsdóttir, Andri Egilsson og Jónas Örn Helgason, segjast hvorki vera með hnút í maga né þandar taugar, þótt þau séu að fara að takast á við sigurvegara til ellefu ára í keppninni. "Reyndar er mjög gott að fá að takast á við MR því þá er ekki ætlast til eins mikils af okkur. Það er minni skandall að tapa fyrir þeim en einhverjum öðrum. En við stefnum auðvitað að sigri, engin spurning," segir Andri, sem er fulltrúi liðsins. "Við erum líka svo heppin að keppa núna einmitt þegar þemadagarnir eru í skólanum hjá okkur og kallast Lagningardagar. Þá er engin kennsla, mikið um lifandi tónlist og alls konar fræðslu og fyrirlestra og stemningin í skólanum mjög notaleg. Þá erum við slök og ekkert lærdómsálag, sem skiptir miklu máli. Og svo er árshátíðin líka til að hlakka til daginn eftir keppni." Andri segir það skemmtilega tilviljun að MH hafi líka keppt í fyrra í Gettu betur á miðjum Lagningardögum en þá unnu þau Versló, svo allt eykur þetta trú þeirra á velgengni.

Stelpurnar í MH hafa verið ófeimnar við að taka þátt í keppninni og Andri segist stoltur af því að síðastliðin fjögur ár hafi liðið þeirra ævinlega skartað stelpu. "Þetta snýst líka um fjölbreytni því stelpurnar vita sumt betur en strákar. Og auðvitað gefur stelpa liðinu ákveðinn lit. Það er svo einhæft að hafa bara stráka í þessu." Andri segir þau þríeykið taka upptökustundinni sem nálgast eins og þegar þau fara í próf. "Við lesum ekkert á keppnisdaginn, heldur slökum á, því það snýst ekki síst um að vera vel stemmdur, hvíldur og líða almennt vel. Ef við erum of stressuð getur verið erfitt að kalla fram það sem við vitum, og það er svo svekkjandi," segir Andri og bætir við að þau ætli í sund og elda góðan mat á keppnisdaginn.

Bæði liðin segja það skipta öllu máli að hafa góðan stuðning úr salnum og treysta á sitt fólk í þeim efnum.

Gettu betur er í kvöld í Sjónvarpi allra landsmanna kl. 20:10.

khk@mbl.is