Prentarar að störfum í dagblaðaprentsmiðju í Bagdad á  sunnudag.
Prentarar að störfum í dagblaðaprentsmiðju í Bagdad á sunnudag. — AP
Í ARABARÍKJUNUM eru alls staðar gefin út dagblöð sem lýsa má sem málgögnum stjórnvalda. Svoleiðis var það líka í Írak í valdatíð Saddams Husseins.

Í ARABARÍKJUNUM eru alls staðar gefin út dagblöð sem lýsa má sem málgögnum stjórnvalda. Svoleiðis var það líka í Írak í valdatíð Saddams Husseins. Nú er öldin hins vegar önnur, blaðamarkaðurinn er algerlega frjáls og valdhafar gefa ekki út sitt eigið málgagn, þó að vissulega líti margir Írakar svo á að Al-Sabah - sem nýtur fjárhagslegs stuðnings bandarísku bráðabirgðastjórnarinnar í Írak - gegni sama hlutverki og málgögn Saddams áður.

Í miðborg Bagdad hafa risið fjölmargir dagblaðastandar á síðustu mánuðum og í boði er fjöldinn allur af dagblöðum. Þróunin er til marks um þá sprengingu sem hefur orðið í blaðaútgáfu frá því að stjórn Saddams var felld af stalli í apríl á síðasta ári. Hvergi í arabaheiminum er eins mikil samkeppni og hvergi eru jafn mörg blöð í boði fyrir áhugasama lesendur.

Ritskoðun hefur verið útrýmt og engin lög hafa verið sett um rekstur fjölmiðla, markaðurinn hefur því sumpartinn breyst í frumskóg á skömmum tíma. Í staðinn fyrir að fimm dagblöð séu á boðstólum - nokkuð sem átti við í valdatíð Saddams - geta Írakar nú valið á milli allt að 170 blaða. Allir hópar í samfélaginu - hvort sem um er að ræða súnníta, sjíta eða Kúrda - geta fundið eitthvað við sitt hæfi; sumir blaðaútgefendur vilja hafa áhrif á stjórnmálaástandið í landinu, aðrir vonast fyrst og fremst eftir því að græða á öllu saman.

Eins og í öðrum arabalöndum reka flest stjórnmálaöfl semsé sitt eigið dagblað í Írak, margir fulltrúanna í íraska framkvæmdaráðinu hafa jafnvel sitt eigið málgagn. Útbreiðsla hvers blaðs er hins vegar tiltölulega lítil, stærsta blaðið, Al-Sabah, er aðeins prentað í 75 þúsund eintökum og ber að hafa í huga í því sambandi að 25 milljónir manna búa í Írak.

Óvissa um framhaldið

Það sem sameinar starfsfólk blaðanna er sú von að fjölmiðlaveislunni, sem svo má kalla, ljúki ekki í kjölfar þess að Bandaríkjamenn framselja völd í landinu í hendur heimamönnum 1. júlí nk. "Það er nokkuð sem við höfum áhyggjur af. Staðan í stjórnmálunum er svo óljós einmitt núna og enginn veit hvers konar stjórn tekur við," segir Nada Shoukat, ritstjóri á Azzaman, einu af stærstu dagblöðunum. "Það verður að setja einhverjar reglur um blaðamarkaðinn en það vill enginn að hlutirnir verði sem áður."

Einu hömlurnar sem gilda núna um blaðaútgáfu í Írak eru þau takmörk sem Bandaríkjamenn kunna að setja hverju sinni. Þannig lokuðu þeir blaðinu Al-Mustaqillah í júlí á síðasta ári eftir að þar var hvatt berum orðum til árása gegn bandarískum hermönnum. Alaa el Din Elsadr, Íraki sem sinnir samskiptum við íraska fjölmiðla fyrir hönd bandarísku bráðabirgðastjórnarinnar, segir að fyrr í þessum mánuði hafi forráðamönnum Al-Sa'ah einnig verið veitt viðvörun vegna greina sem Bandaríkjaher áleit að væru til þess fallnar að æsa til ofbeldis.

Al-Sa'ah er gefið út af bókstafstrúar-súnnítum og er eitt fárra blaða í Bagdad sem gagnrýnir Bandaríkjamenn harkalega á degi hverjum. Mikið rými er tekið undir fréttir af vafasömum gjörðum bandarískra hermanna og í nýlegum leiðara var Paul Bremer, bandaríska landstjóranum í Írak, líkt við Adolf Hitler.

Bein ástæða viðvörunarinnar voru hins vegar frásagnir í blaðinu um morð bandarískra hermanna á konum og börnum. Elsadr segir að um "hreinan tilbúning" hafi verið að ræða og að blaðinu verði lokað, haldi það áfram á sömu braut. "Svona fréttaflutningur hefur afleiðingar. Fólk les þetta. Ef Bandaríkjaher metur það svo að svona greinar stefni lífi hermanna í hættu þá mun blaðinu verða lokað."

Sagðir þola gagnrýni illa

Hugsanlegt er, að aðgerðir Bandaríkjamanna og Íraska framkvæmdaráðsins - sem nokkrum sinnum hefur refsað arabísku sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera fyrir fréttir sem þar hafa verið sagðar af störfum embættismanna ráðsins - stuðli að því að gagnrýni á störf valdhafa í landinu er ekki jafn áberandi og í dagblöðum í hinum arabaríkjunum. Sögur af ógnarstjórn Saddams eru enn í mestu uppáhaldi hjá flestum blöðunum í Írak.

Abdul-Sattar Samer, ritstjóri Al-Sa'ah, ver fréttastefnu blaðsins og segir að leiðréttingar hafi verið birtar vegna nokkurra umræddra frétta. Hann fullyrðir hins vegar einnig að Bandaríkjamenn hafi einfaldlega horn í síðu blaðsins vegna andstöðu þess við veru Bandaríkjahers í landinu. "Við erum þeirrar skoðunar að Írak sé hersetið land en að það eigi rétt á að ráða eigin málum," segir hann. "Bandarískir hermenn hafa drepið börn þar sem þeir hafa verið að reyna að ráða niðurlögum uppreisnarmanna. Og við flytjum fréttir af slíkum atburðum. Svo virðist sem þeim líki það ekki."

Bagdad. AP.