GERA má ráð fyrir að greiðslur almannatrygginga lækkuðu um rúmlega 300 milljónir króna eða að meðaltali um 20% vegna tíu söluhæstu lyfjanna ef þau kostuðu það sama hér á landi og í Danmörku.

GERA má ráð fyrir að greiðslur almannatrygginga lækkuðu um rúmlega 300 milljónir króna eða að meðaltali um 20% vegna tíu söluhæstu lyfjanna ef þau kostuðu það sama hér á landi og í Danmörku. Samtals námu greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins (TR) í fyrra vegna þessara lyfja hátt í 1,6 milljörðum króna, að því er kemur fram í frétt á vef TR.

TR greiddi nærri 265 milljónir fyrir söluhæsta lyfið, Nexium, sem er lyf gegn sársjúkdómi og maga- og vélindabakflæði en lyfið er 10,7% dýrara hér en í Danmörku. Tæplega 253 milljónir voru greiddar fyrir Seretide, lyfi gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi en það er nær 20% dýrara hér.

Þriðja og fjórða lyfið á listanum eru Zarator og Zocor sem eru blóðfitulækkandi lyf en Zarator er 21,6% dýrara hér en í Danmörku og Zocor 38,5% dýrara. Í sjötta sætinu er Sivacor, sem einnig er blóðfitulækkandi lyf en Zocor og Sivacor innihalda sama virka efnið. Zocor er frumlyf og Sivacor er samheitalyf framleitt á Íslandi. TR miðar greiðslu á Zocor við viðmiðunarverð, sem er það sama og smásöluverð lyfsins Sivacor eða 16.357 krónur en almannatryggingar í Danmörku miða sínar greiðslur fyrir lyfið Zocor við viðmiðunarverð sem er 2.542 kr. Íslenska viðmiðunarverðið fyrir Zocor er því yfir 500% hærra en það danska. Geðdeyfðarlyfið Efexor Depot er í fimmta sæti en verðið á því er litlu hærra hér en í Danmörku. Vioxx, sem er bólgueyðandi lyf og gigtarlyf, er sjöunda söluhæsta lyfið og er það 21,3% dýrara hér og það áttunda er geðlyfið Zyprexa en það er 16,6% dýrara hér en í Danmörku.