Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Það er í meira lagi napurt þegar norskir fræðimenn hafa betri skilning á sögunni en íslenskir ráðherrar.

Í UMRÆÐUM á Alþingi á þriðjudaginn kom glöggt fram að í utanríkisráðuneytinu velta menn því fyrir sér að láta enn einu sinni undan óbilgjörnum kröfum Norðmanna um aukna hlutdeild úr norsk-íslenska síldarstofninum. Í svari við ræðu minni var erfitt að komast hjá því að álykta að af hálfu Halldórs Ásgrímssonar sé ekki útilokað að gefa eftir 3-5000 tonn af hlut Íslendinga til að friða Norðmenn. Það kemur að mínu viti ekki til greina. Það voru ekki veiðar Íslendinga á stórsíld sem gjöreyddu norsk-íslenska stofninum heldur gríðarleg rányrkja Norðmanna á ungsíld.

Árin 1950-1965 veiddu Norðmenn á hverju einasta ári í kringum 100 þúsund tonn af seiðum innan við tveggja ára aldur. Sum árin veiddu þeir miklu meira. Árið 1961 drápu þeir skv. uppgefnum aflatölum um 300 þús. tonn af slíkum smáseiðum og áratug síðar fast að 250 þúsund tonnum. Norska rányrkjan keyrði loks um þverbak 1965 og 1966 þegar aðeins 0,1 prósent - eitt prómill - náði fjögurra ára aldri. Í reynd voru árgangarnir frá 1965 og fram að falli stofnsins veiddir svo látlaust að nýliðun í stórsíldarstofninn varð engin. Seiðin voru einfaldlega öll drepin áður.

Það verður að segja norskum fiskifræðingum til hróss að þeir hafa ekki reynt að fela hlut Norðmanna í þessum grimmilega hildarleik. Fremstu vísindamenn þeirra á sviði síldarfræða birtu árið 1980 yfirlitsgrein um þróun og hrun stofnsins. Þetta voru heiðursmennirnir Olav Dragesund, Johannes Hamre og Öyvind Ulltang. Meðal niðurstaðna þeirra var eftirfarandi staðreynd: "Eina takmörkunin sem þurfti til að koma í veg fyrir eyðingu stofnsins var að setja á árunum fyrir 1960 reglur um lágmarksstærð síldar í afla, sem vernduðu 0- og 1-árganginn."

Það er í meira lagi napurt þegar norskir fræðimenn hafa betri skilning á sögunni en íslenskir ráðherrar. Það hefði nægt að vernda seiðin - sem í dag þætti glæpur að veiða - til að bjarga norsk-íslenska stofninum. Norðmenn eiga sannarlega góða vináttu okkar skilda sem góðir frændur. Í ljósi óverjandi umgengni þeirra við stofninn er hins vegar fáránlegt að fallast á aukinn hlut þeirra. Halldór Ásgrímsson verður að skilja það. Hann gerði vondan samning árið 1996 sem batnar ekki með því að gera annan verri núna. Enn ein eftirgjöf verður aldrei samþykkt af Samfylkingunni. Í þessu máli verður hann að standa í lappirnar þótt seint sé.

Össur Skarphéðinsson skrifar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar og gamall síldarsjómaður.