Ásta R. Jóhannesdóttir
Ásta R. Jóhannesdóttir
Stjórnvöld hafa veigrað sér við því að móta skýra stefnu í málaflokknum. Í þeirri vinnu er Samfylkingin nú.

ÞESSA viku hafa þingmenn Samfylkingarinnar heimsótt Landspítala - háskólasjúkrahús til að kynna sér stöðu mála þar og heyra í starfsfólkinu og þeim sem njóta þar þjónustu. Samfylkingin gengst nú fyrir heildarstefnumótun í heilbrigðismálum með það að markmiði að tryggja Íslendingum heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða, auka skilvirkni og bæta þjónustu. Heimsóknir okkar á sjúkrahúsið eru mjög mikilvægar fyrir þessa vinnu. Þannig kynnast þingmennirnir betur starfi, aðstöðu og viðhorfi fólksins í heilbrigðisþjónustunni.

Eins og menn þekkja hafa þær sparnaðar- og aðhaldsaðgerðir, sem stjórnendur Landspítala hafa kynnt, komið illa við marga. Þær koma í kjölfar þess að fjárþörf spítalans er ekki mætt, þannig að ekki er unnt að veita óbreytta þjónustu miðað við síðasta ár. Þar vantar 1.400 milljónir króna upp á.

Þetta bitnar á um 550 starfsmönnum, sem ýmist þurfa að finna sér annað starf eða taka á sig launaskerðingu.

Samdrátturinn bitnar á minni máttar

Allt það umrót sem þessar sparnaðaraðgerðir hafa í för með sér bitnar ekki síst á sjúklingum, sem munu fá skerta þjónustu eða jafnvel enga ef ekki rætist úr. Sérstaklega geri ég hér að umtalsefni þá sem hafa notið þjónustu endurhæfingarinnar í Kópavogi, sem áformað er að leggja niður.

Þjónustan þar er mjög sértæk við mjög fatlaða einstaklinga sem eru sannarlega minni máttar. Þeir eru fjölfatlaðir, geta lítið hreyft sig og tjáð sig með orðum. Því er hreyfingin óskaplega mikilvæg fyrir líðan þeirra og lífsgæði. Starfsfólkið þarna býr yfir ómetanlegri sérþekkingu, sem mikil verðmæti eru fólgin í.

Búið er að segja upp starfsfólki á deildinni og eru lykilmenn jafnvel á förum annað. Mikilvægt og dýrmætt atgervi er að tapast út af stofnuninni frá því fólki sem þarfnast þjónustu. Þetta er mjög alvarleg staða fyrir þá fjölfötluðu einstaklinga sem þarna fá þjónustu sem ekki fæst annars staðar. Starfsmönnum var sagt upp áður en farið var að huga að þjónustu fyrir þetta fólk sem er algjörlega ófært um að berjast fyrir rétti sínum. Þetta eru mjög gagnrýnisverð vinnubrögð. Ráðherra hefur sett nefnd í málið eftir utanaðkomandi þrýsting. Hún verður að vinna hratt ef þjónusta við þessa sjúklinga á ekki að fara forgörðum.

Krabbameinsendurhæfingin virðist einnig vera í uppnámi ef marka má fréttir og hafa krabbameinssjúklingar sem þar hafa notið þjónustu lýst því yfir að það væri alvarlegt slys ef hún legðist af í núverandi mynd. Slíkur stuðningur er þjónusta við sjúklingana og aðstandendur þeirra og vísa ég hér í viðtal við Ómar Jóhannesson í DV mánudaginn 16. febrúar sl. Eftir að hafa heimsótt endurhæfingu Landspítala á Grensási, sem býr við ótrúleg þrengsli í þjálfuninni, er ekki að sjá að hún geti tekið við endurhæfingu krabbameinssjúkra, eins og áformað er, nema með ærnum tilkostnaði.

Samfylkingin vill breytt vinnubrögð

Dæmin hér að ofan sýna að stjórnvöld axla ekki þá ábyrgð sem þeim er falin. Ábyrgðinni er varpað yfir á embættismenn í heilbrigðiskerfinu. Þegar ákveðið er að draga úr þjónustu eru þær ákvarðanir ekki undirbúnar. Þetta eru skyndiákvarðanir án forgangsröðunar. Þær bitna því á þeim sem síst skyldi. Telja menn það forsvaranlegt að samdráttur í þjónustu bitni á þeim sjúklingum sem dæmi eru tekin af hér að ofan? Það teljum við ekki. Þau mál eru nú sem betur fer í ákveðnum farvegi vegna þess að fulltrúar Samfylkingarinnar hófu afskipti af málinu. Svona vinnubrögð eru ólíðandi. Við viljum bætt vinnubrögð í heilbrigðisþjónustunni. Stjórnvöld hafa veigrað sé við því að móta skýra stefnu í málaflokknum. Í þeirri vinnu er Samfylkingin nú. Áhugafólk er hvatt til að kynna sér þetta starf á vefnum www.samfylking.is. Þar er einnig hægt að skrá sig og taka þátt í framtíðarstefnumótun í þessum mikilvæga málaflokki.

Ásta R. Jóhannesdóttir skrifar um heilbrigðisþjónustuna

Höfundur er alþingismaður.