George W. Bush Bandaríkjaforseta er tamt að taka sér orðið frelsi í munn. Í fyrradag hélt hann engu að síður ræðu, þar sem hann hét því að beita sér fyrir því að stjórnarskrá Bandaríkjanna yrði breytt til að banna hjónaband samkynhneigðra.

George W. Bush Bandaríkjaforseta er tamt að taka sér orðið frelsi í munn. Í fyrradag hélt hann engu að síður ræðu, þar sem hann hét því að beita sér fyrir því að stjórnarskrá Bandaríkjanna yrði breytt til að banna hjónaband samkynhneigðra. Gengi slík breyting eftir, yrði þrengt að frelsi og mannréttindum bandarískra þegna.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna hefur löngum verið fyrirmynd annarra lýðræðisríkja, sem viljað hafa vernda frelsi og mannréttindi einstaklingsins. Til þess var hún ekki sízt hugsuð í upphafi og breytingar, sem gerðar hafa verið á henni síðan, hafa haft það að markmiði að efla frelsi og jafnrétti og treysta vernd mannréttinda. Almennt líta Vesturlandabúar svo á að mannréttindaákvæði í stjórnarskrá eigi að vernda réttindi minnihlutahópa. Nú leggur Bush forseti til að í fyrsta sinn verði sett í stjórnarskrána ákvæði, sem útilokar tiltekinn minnihlutahóp og þrengir að réttindum hans.

Bush forseti og fylgismenn hans réttlæta þessa tillögu með því að "helgi hjónabandsins" hafi verið í hættu. Þeir vísa m.a. til þess að hæstiréttur Massachusetts-ríkis hefur úrskurðað að bann við hjónaböndum samkynhneigðra brjóti gegn stjórnarskrá ríkisins og að borgarstjórn San Francisco hefur leyft samkynhneigðum að giftast. Staðreyndin er hins vegar auðvitað sú að ummæli Bush á þriðjudag eru fyrst og fremst pólitískt herbragð, til þess ætluð að treysta stuðning við Bush meðal íhaldssamra kjósenda, sem gjarnan segjast láta hefðbundin, kristin gildi ráða andstöðu sinni við hjónabönd samkynhneigðra. Að undanförnu hefur nokkuð borið á gagnrýni á Bush meðal íhaldssömustu kjósendanna vegna t.d. fjárlagahalla, aukinna útgjalda til heilbrigðismála og tillagna um frjálslegri innflytjendalöggjöf. Bush og ráðgjafar hans líta svo á að með því að taka harða afstöðu í miklu tilfinningamáli megi þjappa kjarna kjósenda repúblikana um Bush og jafnframt ná atkvæðum af demókrötum.

Það rennir stoðum undir þá skoðun að hér sé aðallega um pólitískt bragð að ræða, að ekkert bendir til að einstök ríki Bandaríkjanna ráði ekki við það, ef þeim sýnist svo, að hindra hjónabönd samkynhneigðra. Bush forseti vill nú koma í veg fyrir að ríkin fari eigin leiðir í þessu máli, þrátt fyrir að bæði hann og Dick Cheney varaforseti hafi lýst stuðningi við slíka lausn í kosningabaráttunni árið 2000.

Það er hins vegar harla langt gengið að vilja breyta sjálfri stjórnarskrá Bandaríkjanna til að þjóna pólitískum stundarhagsmunum. Skoðanakannanir sýna vissulega að meirihluti Bandaríkjamanna er andvígur hjónaböndum samkynhneigðra - a.m.k. undir því nafni. Í umræðum vestanhafs hefur hins vegar verið bent á að á sínum tíma var meirihluti Bandaríkjamanna andvígur hjónaböndum fólks af ólíkum kynþáttum; taldi þau ósiðleg og grafa undan samfélaginu. Hefði verið siðferðilega rétt á þeim tíma að banna slík hjónabönd í stjórnarskrá Bandaríkjanna?

Deilurnar um þetta mál snúast raunar ekki um trúarbrögð, þótt öðru sé gjarnan haldið fram. Þær snúast um virðingu fyrir mannréttindum, víðsýni og umburðarlyndi. Innan kristinna kirkjudeilda í Bandaríkjunum eru ólíkar skoðanir á hjónaböndum samkynhneigðra, rétt eins og innan íslam eru mismunandi skoðanir á jafnrétti kynjanna. Það ber að forðast að alhæfa um að trúarskoðanir ráði afstöðu fólks til mannréttindamála. Hitt er víst, að enginn þarf að hafa áhyggjur af því að helgi hjónabandsins sé ógnað, þótt samkynhneigðir fái að njóta hennar - og þeirra réttinda, sem fylgja hjónabandi - með gagnkynhneigðum. Það eru önnur öfl, sem grafa undan helgi hjónabandsins en þrá samkynhneigðra elskenda eftir því að samfélagið - og eftir atvikum almættið - leggi blessun sína yfir samband þeirra.