Harðhent hárgreiðsludama? Það sést á andlitsdráttum stráksins að það er ekki tekið út með sældinni að leyfa notkun á hári sínu við æfingar á þemadögum. Ekki bætir það úr skák að þúsund augu fylgjast með úr hillunum.
Harðhent hárgreiðsludama? Það sést á andlitsdráttum stráksins að það er ekki tekið út með sældinni að leyfa notkun á hári sínu við æfingar á þemadögum. Ekki bætir það úr skák að þúsund augu fylgjast með úr hillunum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Keflavík | Hljómar og tímabilið sem hljómsveitin var sem vinsælust er efni þemadaga sem nú standa yfir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Viðfangsefnið tengist söngleiknum Bláu augun þín og byggist á sögu Hljóma sem nemendur skólans eru að undirbúa.

Keflavík | Hljómar og tímabilið sem hljómsveitin var sem vinsælust er efni þemadaga sem nú standa yfir í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Viðfangsefnið tengist söngleiknum Bláu augun þín og byggist á sögu Hljóma sem nemendur skólans eru að undirbúa. Verður söngleikurinn frumsýndur 19. mars næstkomandi.

Allir nemendur skólans skrá sig í hópa á þemadögunum en hóparnir eru alls tæplega fjörutíu. Allt var á fullu í gærmorgun þegar blaðamaður leit inn. Í einni stofunni voru ungir menn að smíða hluta af sviðsmynd söngleiksins. Í annarri var verið að hanna og smíða skartgripi af sama tilefni. Í þeirri þriðju var hárgreiðsla. Þar var hárgreiðslufólkið að æfa sig á leikurum úr söngleiknum og fleirum. Um allan skólann voru svona hópar að vinna að ýmsum viðfangsefnum sem tengjast Hljómum og tíðarandanum sem var á þeirra gullaldarárum.

Ekki er hefð fyrir því að setja upp leikrit í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en söngleikurinn um Hljóma á að vera upphafið að því að koma slíkri hefð á, að sögn Írisar Jónsdóttur kennara. Kveikjan var afmæli Hljóma og umræða um þennan tíma enda segir hún að fötin séu að komast aftur í tísku.

Þorsteinn Eggertsson var fenginn til að semja söngleikinn og leikstýra honum. Hann segir að ekki hafi verið mikið mál að skrifa söngleik um þetta efni enda hafi hann þekkt meðlimi hljómsveitarinnar frá blautu barnsbeini. Hann fór þá leið, til þess að hafa verkið ekki of annálskennt, að láta roskið par rifja upp feril hljómsveitarinnar og þennan tíma eins og það man hann. Að sjálfsögðu eru notuð gömul og ný Hljómalög og ýmis lög innlend og erlend frá 1963 til dagsins í dag.

Æfingar eru hafnar auk þess sem verið er að vinna í leikmynd og búningum. Undirbúningurinn er umfangsmikill, að sögn Kristínar Rúnarsdóttur sýningarstjóra. Og það er ekki nóg með að allur skólinn sé undirlagður í þessu verkefni, nemendurnir hafa beðið íbúa Suðurnesja að gá í geymslurnar og sjá hvort ekki sé til einhver fatnaður, skór og hljóðfæri frá þessum tíma. Kristín segir að ýmislegt vanti enn og væri vel þegið ef fólk vildi lána slíka muni í sýninguna.