Innréttingar snikkaðar: Sigfús Ingólfsson og Guðgeir Guðmundsson, starfsmenn hjá Brúnás.
Innréttingar snikkaðar: Sigfús Ingólfsson og Guðgeir Guðmundsson, starfsmenn hjá Brúnás. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Egilsstaðir | Brúnás-innréttingar á Egilsstöðum hafa nú á milli 10 og 15% markaðshlutdeild í innréttingasölu í landinu. Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin og er það með fullskipaðan verkefnalista út þetta ár.

Egilsstaðir | Brúnás-innréttingar á Egilsstöðum hafa nú á milli 10 og 15% markaðshlutdeild í innréttingasölu í landinu. Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu árin og er það með fullskipaðan verkefnalista út þetta ár.

Guðlaugur Erlingsson er framkvæmdastjóri Brúnáss.

"Brúnás fór í vöruþróunarverkefni um 1988 og í samstarf við innanhússarkitektana Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarson," segir Guðlaugur. "Þá komu fram nýjar innréttingalínur og við fórum í miklar breytingar á verslun okkar í Ármúla 17 í Reykjavík, en þar hefur lengi verið rekin söludeild. Við erum enn í farsælu samstarfi við Guðrúnu og Oddgeir með allar breytingar og nýjungar sem eru gerðar hjá okkur í hönnun.

Fyrirtækið Miðás var svo stofnað árið 1990 á Egilsstöðum og keypti þá innréttingafabrikkuna af Brúnási, sem hafði rekið hér verksmiðju lengi. Þá komu nýir menn inn og síðan hefur þetta gengið á svipaðan hátt og stofnað var til í upphafi."

Sala til verktaka helmingur af veltu

Guðlaugur segir fyrirtækið einbeita sér að innréttingum til heimila. "Síðustu árin hefur Brúnás haft yfrið nóg að gera í heimilisinnréttingum. Breytingin seinni ár er kannski sú að við erum sífellt meira að selja til verktaka, áður var þetta mest allt til einstaklinga. Sala til verktaka er yfir helmingur af veltunni."

Brúnás hefur skapað sér nafn í innréttingum á Íslandi og telur Guðlaugur markaðshlutdeild fyrirtækisins á innréttingamarkaði vera á bilinu 10-15%. Þó sé erfitt að segja um slíkt af nokkurri nákvæmni. Heildarvelta fyrirtækisins í fyrra nam 220 milljónum króna og myndaðist hún að níu tíundu hlutum vegna sölu á höfuðborgarsvæðinu. Vöxtur er um 5% á milli ára og hagnaður sagður mjög viðunandi. Mestur hluti vélakosts fyrirtækisins var nýlega endurnýjaður og þykir nú mjög fullkominn.

Hjá fyrirtækinu starfa nú 19 manns, þar af fjórir í söludeild í Reykjavík. 5-10 manns starfa að jafnaði sem undirverktakar við uppsetningu innréttinga.

Öll framleiðsla fer fram á Egilsstöðum og er seld á innanlandsmarkaði. Brúnássmenn flytja mestallt sitt hráefni inn sjálfir. Það er svo keyrt austur og 90% framleiðslunnar ekið suður aftur. Hvað flutninginn varðar vísar Guðlaugur því á bug að kostnaður sem af honum leiðir sé þungur baggi á fyrirtækinu. Aldrei hafi komið til tals að flytja fyrirtækið suður. "Fyrirtækið var stofnað til að vera á Egilsstöðum. Við erum með mjög góða verkefnastöðu, hún nær mjög langt fram á árið og er svipuð og var í fyrra."

Ekkert upphlaup þrátt fyrir fjölda nýbygginga eystra

Brúnás afgreiddi á síðasta ári innréttingar beint til verktaka í um 300 íbúðir og 100 innréttingar til einstaklinga. Að auki slæðist ýmislegt fleira með í framleiðsluna, svo sem sólbekkir, borðplötur o.fl.

Guðlaugur segir Austfirðinga kaupa töluvert af innréttingum hjá sér og ekki þurfi að kvarta yfir því. "Það hefur náttúrulega ekki mikið verið að gerast hér eystra til skamms tíma," segir hann. "Auðvitað alltaf eitthvað verið byggt á Egilsstöðum og einhver endurnýjun á fjörðunum. Það á eftir að koma í ljós hver okkar staða verður í allri þeirri uppbyggingu sem er að fara í gang hér. Við munum þó halda áfram að einbeita okkur að markaðinum fyrir sunnan." Íslenskir aðalverktakar eru meðal viðskiptavina Brúnáss, en þeir eru nú að byggja töluvert af nýju húsnæði á Austurlandi.

Brúnás gengur vel og engin áform eru uppi um stækkun fyrirtækisins. Húsa- og vélakostur er nú fullnýttur og Guðlaugur segir að með stækkun yrði að byggja annað hús og fjölga mannskap, fyrir utan að yfirbyggingin í fyrirtækinu, sem núna er í lágmarki, myndi vaxa. "Þetta er í einhverjum ballans núna sem virðist geta gengið ágætlega," segir Guðlaugur.