Læknaráð HSA hefur áhyggjur af vaxandi kostnaði vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda: Pétur Heimisson, læknir og formaður læknaráðs, og Roberto Velo hjá Impregilo S.p.A. rabba um heilsugæslumálin við Kárahnjúka.
Læknaráð HSA hefur áhyggjur af vaxandi kostnaði vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda: Pétur Heimisson, læknir og formaður læknaráðs, og Roberto Velo hjá Impregilo S.p.A. rabba um heilsugæslumálin við Kárahnjúka. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Egilsstaðir | Læknaráð Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA hefur sent eftirfarandi ályktun til Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra: "Vegna þenslu í þjóðfélaginu hafa yfirvöld ákveðið að skera niður í heilbrigðisþjónustu á...

Egilsstaðir | Læknaráð Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA hefur sent eftirfarandi ályktun til Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra:

"Vegna þenslu í þjóðfélaginu hafa yfirvöld ákveðið að skera niður í heilbrigðisþjónustu á landsvísu. Læknaráð HSA álítur að það sé algjörlega á skjön við raunveruleikann, að skera niður á aðalþenslusvæði landsins, þar sem nú eiga sér stað stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar."

Í greinargerð sem fylgir ályktuninni segir að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á svæði HSA sé að stórum hluta til kominn vegna launa lækna. Þegar sé undirmönnun á svæðinu og nýir læknar fáist ekki þrátt fyrir auglýsingar.

Ljóst sé að ekki náist tilætlaður sparnaður nema með því að draga úr læknisþjónustu og kostnaði. Þegar sé orðin mikil mannfjölgun á svæðinu vegna virkjanaframkvæmda, þar sem slys og óhöpp eru tíð. Enn meiri fjölgun sé í vændum vegna áframhaldandi virkjanaframkvæmda, álversbyggingar og jarðgangagerðar.

Á Austurlandi er stór hluti heilbrigðisþjónustunnar grunnþjónusta, sem ekki er hægt að skerða meira en orðið er. Það er því ljóst að frekar ætti að auka framlög til heilbrigðismála á svæðinu en að skera niður, segir jafnframt í greinargerð.

Ályktunin var samþykkt á fundi læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Austurlands hinn 19. febrúar sl.