Greg Hopkins mun blása af list á Kaffi List í kvöld.
Greg Hopkins mun blása af list á Kaffi List í kvöld.
HANN kennir trompetleik við hinn virta Berklee-tónlistarháskóla í Boston og lék um árabil með stórsveit Buddy Rich.

HANN kennir trompetleik við hinn virta Berklee-tónlistarháskóla í Boston og lék um árabil með stórsveit Buddy Rich. Á fjörutíu ára ferli hefur hann einnig blásið fyrir eins ólíka listamenn og Dizzie Gillespie, Frank Sinatra, Tony Bennett, Burt Bacharach, Stevie Wonder, The Supremes, Woody Herman og Lenu Horne og í kvöld munu bætast í meðspilarahóp hans þeir Agnar Már Magnússon píanóleikari og Tómas R. Einarsson.

Greg Hopkins heitir maðurinn, kemur frá Detroit og tríóið sem leikur í á Kaffi List í kvöld er kennt við hann. Hopkins er staddur hér á landi til að vinna með Stórsveit Reykjavíkur en á sínum tíma með stórsveit Rich samdi hann og útsetti mikið fyrir sveitina.

Þegar Hopkins er ekki á þeysingi um heiminn til að blása í trompetið kennir hann djasstrompetleik, útsetningar og samspil við Berklee-skóla og hefur gert síðan 1974.

Á laugardaginn leikur svo á Kaffi List Djasskvartettinn Kompa en hann er skipaður Sigurði Þór Rögnvaldssyni gítarleikara, Steinari Sigurðarsyni saxófónleikara, Pétri Sigurðssyni bassaleikara og Kristmundi Guðmundssyni trommuleikara en þeir eru allir komnir langt í námi við Tónlistarskóla F.Í.H.

Tónleikarnir á Kaffi List hefjast um kl. 21.30 og standa fram til miðnættis. Aðgangseyrir er 500 kr.