Bandarískir hermenn á heimleið eftir að hafa þjónað í Írak.
Bandarískir hermenn á heimleið eftir að hafa þjónað í Írak. — AP
YFIRVOFANDI liðsflutningar á vegum Bandaríkjahers í Írak og í Afganistan eru þeir umfangsmestu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

YFIRVOFANDI liðsflutningar á vegum Bandaríkjahers í Írak og í Afganistan eru þeir umfangsmestu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Um 130 þúsund bandarískir hermenn, sem undanfarna mánuði hafa þjónað í Írak, halda heim á leið á næstu dögum og vikum og í þeirra stað koma um 110 þúsund nýir hermenn. Verkefnið er öllu umfangsminna í Afganistan, þar þarf "aðeins" að leysa af hólmi um ellefu þúsund bandaríska hermenn.

"Þetta er ótrúleg, söguleg aðgerð," segir Stephen M. Speakes, hershöfðingi í landher Bandaríkjanna, í samtali við Associated Press um liðsflutningana til og frá Írak en hann hefur yfirumsjón með þeim frá skrifstofu sinni í Arifjan-herstöðinni í Kúveit.

Verkefnið hljómar ekki flókið en framkvæmdin er þó alveg gífurlega umfangsmikil og kostar mikla skipulagningu; tugir skipa og flugvéla flytja hermenn og búnað þeirra til Kúveit og um fjögur þúsund flutningabílar aka síðan mönnum og búnaði yfir eyðimörkina og inn í Írak.

Einhvers staðar á leiðinni mæta hermennirnir síðan félögum sínum, sem staðið hafa vaktina í Írak undanfarið. Er gert ráð fyrir að liðsflutningunum verði að öllu leyti lokið snemma í maí.

Bolmagnið minna?

Um það bil einn af hverjum fimm hermönnum í Írak tilheyrir varaliðssveitum Bandaríkjahers eða þjóðvarðliðum hinna ýmsu ríkja Bandaríkjanna, að því er fram kom nýverið í The Economist. Þetta hlutfall mun hækka eftir liðsflutningana nú, að sögn blaðsins. Hafa því farið að heyrast þær raddir að hugsanlega sé tekið að reyna mjög á þanþol mannafla hersins.

"Það er hægt að telja fjölda bardagasveita sem landherinn hefur á sínu færi og þó að ég viti töluna ekki nákvæmlega þá tel ég að um 60% þeirra séu nú með einum eða öðrum hætti við störf er tengjast stríðinu gegn hryðjuverkum. Þessi tala kann reyndar hugsanlega að vera enn hærri. Þetta þýðir að menn hafa ekki bolmagn til að gera mikið annað annars staðar," segir t.a.m. Michael T. Corgan, dósent í alþjóðasamskiptum við Boston-háskóla, í samtali við Morgunblaðið.

Corgan segir að á Washington-svæðinu geti hermenn, sem sestir eru í helgan stein og eru 65 ára og eldri, ekki lengur notað sér þjónustu lækna Bandaríkjahers, þeir og makar þeirra þurfi nú að fara til borgaralegra lækna. "Skýringin er sú að Bandaríkjaher hefur næg önnur verkefni fyrir þessa lækna og mig grunar að þar sé um að ræða aðhlynningu særðra úr Íraksstríðinu.

Ég get líka nefnt þjóðvarðliðið í Massachusetts; margir liðsmenn þess sem þegar hafa þjónað í Írak skrá sig til frekari þjónustu. En það eru ekki nægilega margir nýir einstaklingar að skrá sig í þjóðvarðliðið. Það verður því fróðlegt að sjá hvaða áhrif yfirvofandi liðsflutningar hafa á varalið hersins og þjóðvarðlið hinna ýmsu ríkja, það er nefnilega þannig að á stríðstímum hefur styrkur Bandaríkjahers að miklu leyti oltið á þessum sveitum."

Segir Corgan að útilokað væri fyrir Bandaríkjaher á þessum tímapunkti að heyja annað stríð í líkingu við það sem háð var í Írak. "Ef eitthvað gerðist nú á Kóreuskaganum og við þyrftum að flytja þangað þúsundir hermanna þá fæ ég ekki séð að það yrði hægt nema með því að taka upp herskyldu á ný," sagði Corgan í samtali við Morgunblaðið.