* RÓBERT Gunnarsson , landsliðsmaður í handknattleik, skoraði 9 mörk fyrir Århus GF og Þorvarður Tjörvi Ólafsson tvö gegn AaB í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld.

* RÓBERT Gunnarsson , landsliðsmaður í handknattleik, skoraði 9 mörk fyrir Århus GF og Þorvarður Tjörvi Ólafsson tvö gegn AaB í dönsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Lið þeirra beið þó lægri hlut á heimavelli, 32:34, en siglir lygnan sjó í níunda sæti deildarinnar.

* GÍSLI Kristjánsson og félagar í Fredericia náðu óvæntu jafntefli, 26:26, gegn toppliðinu Kolding og skoraði Gísli 3 mörk í leiknum. Fredericia er í 7. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.

* RÓBERT Hlöðversson, leikmaður Stjörnunnar í blaki karla, mun taka út eins leiks bann þegar Stjarnan mætir ÍS á laugardaginn. Róbert var rekinn af velli í leik Stjörnunnar og HK í síðustu viku.

* BRYNJAR Björn Gunnarsson lék fyrri hálfleikinn með Nottingham Forest sem gerði markalaust jafntefli við Gillingham á heimavelli í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í gærkvöld. Forest er þar með áfram í fallsæti deildarinnar.

* JÓHANNES Harðarson sat á varamannabekk Groningen allan tímann þegar lið hans gerði jafntefli, 1:1, við Breda á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

* PABLO Cavallero , markvörður spænska knattspyrnuliðsins Celta Vigo , gekkst undir aðgerð á nefi í gær. Cavallero nefbrotnaði í árekstri við Edu , leikmann Arsenal , í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld, í sömu andrá og Edu skoraði fyrsta mark leiksins. Gert var fjögurra mínútna hlé á leiknum til að gera að sárum markvarðarins en Cavallero sýndi af sér mikla hörku og spilaði leikinn á enda.

* GRIT Jurack frá Þýskalandi er orðin langdýrasta handknattleikskona heims. Viborg í Danmörku hefur fest kaup á henni frá Leipzig fyrir 18,5 milljónir íslenskra króna.