Slobodan Milosevic
Slobodan Milosevic
SAKSÓKNARAR í réttarhöldunum yfir Slobodan Milosevic, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í Hollandi, luku í gær málflutningi sínum, þrátt fyrir að þeir eigi skv. áætlunum enn eftir tvo daga til að kalla fyrir vitni.

SAKSÓKNARAR í réttarhöldunum yfir Slobodan Milosevic, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag í Hollandi, luku í gær málflutningi sínum, þrátt fyrir að þeir eigi skv. áætlunum enn eftir tvo daga til að kalla fyrir vitni. Ákvörðun þeirra, um að flýta fyrir málum með þessum hætti, er sögð tengjast veikindum sakbornings og þeirri staðreynd að yfirdómari í málinu, Richard May, lætur senn af embætti.

Tilkynning Florence Hartmann, saksóknara við stríðsglæpadómstólinn, kom nokkuð á óvart en gert er ráð fyrir að dómarar bregðist skjótt við henni. Samþykki þeir hana, sem líklegt þykir að þeir geri, mun réttarhöldunum verða frestað í þrjá mánuði og fengi Milosevic þann tíma til að undirbúa vörn sína.

Tilkynnt var um síðustu helgi að May dómari myndi láta af embætti 31. maí nk. vegna heilsubrests. Hartmann tók hins vegar fram í gær að brotthvarf hans hefði ekki skipt sköpum fyrir saksóknara. "Það eru allir að tala um brotthvarf eins dómara en það kemur annað til [...] eins og til dæmis ítrekuð fjarvera sakborningsins," sagði Hartmann í gær þegar hún tilkynnti um ákvörðun sækjenda. "Við viljum ekki að aðstæður Milosevics verði til að draga málið á langinn."

Nýr dómari í málinu mun þurfa, að því er fram kom á fréttasíðu BBC, fara yfir framburð allra vitna í málinu fram til þessa. Þykir því ljóst að brotthvarf Mays mun tefja fyrir því að dómur verði felldur í málinu. Er heldur ekki ósennilegt að brotthvarf hans skapi forsendur fyrir Milosevic til að fara fram á að réttarhöldin verði dæmd ómerk.

Réttarhöldin yfir Milosevic hófust í febrúar 2002. Hann hefur átt við hjartasjúkdóma og háan blóðþrýsting að stríða og hafa veikindi hans og fjarvera í réttarsal valdið því að réttarhöldin hafa dregist á langinn.

Haag. AFP.