Námskeiðið Frá trú til trúar - yfirlit yfir trúarbrögð heimsins hefst 2. mars nk. hjá Háskóla Íslands.
Námskeiðið Frá trú til trúar - yfirlit yfir trúarbrögð heimsins hefst 2. mars nk. hjá Háskóla Íslands. Á námskeiðinu "Frá trú til trúar" er varpað ljósi á hvað átrúnaður og trúarbrögð eru, gefið stutt yfirlit yfir forn trúarbrögð á borð við fornegypskan átrúnað, Zaraþústratrú, forngrískan, fornrómanskan, fornnorrænan og fornkeltneskan átrúnað. Þá er gefið stutt yfirlit yfir hindúisma, jainisma, búddisma, shikisma, kínversk og japönsk trúarbrögð.

Kennari á námskeiðinu er Haukur Ingi Jónasson, guðfræðingur og sálgreinir. Frekari upplýsingar er að finna á vef Endurmenntunar www.endurmenntun.is.

Íslandsmeistarakeppni hjá Naglaskólanum í Kópavogi, undir vörumerkinu Professionails, verður haldin að Hjallabrekku 1 í Kópavogi laugardaginn 28 febrúar.

Keppt verður í tveimur flokkum, naglaásetningu, sem byrjar kl. 10, dæming og sýning kl. 12-13, og naglaskreytingu sem byrjar kl. 13.30, dæming og sýning kl. 16. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin.

Fræðslufundur um sölu á ljósmyndum verður haldinn í Gerðubergi laugardaginn 28. febrúar kl. 14. Yfirskrift fundarins er: Gerðu mat úr þínum myndum.

Athyglinni verður einkum beint að því hvað þurfi til að selja myndir. Hvernig myndir seljast, hverjir kaupa myndir, hvernig á að verðleggja myndir, hvað þarf viðkomandi að eiga mikið af myndum, hvernig á að skipuleggja safnið o.fl.

Fyrirlesarar eru þeir Pálmi Guðmundsson, sem rekur Íslensku ljósmyndaþjónustuna, auk þess að vera umsjónarmaður vefsíðunnar www.ljosmyndari.is og námskeiðshaldari, og Kjartan Dagbjartsson, sölustjóri hjá Nordic Photos.

Þátttökugjald er 3.000 kr. og gengur sú upphæð sem greiðsla upp í ljósmyndanámskeið á vegum www.ljosmyndari.is (ath. ekki er tekið á móti greiðslukortum).

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni www.ljosmyndari.is.

Útstillingar í Garðyrkjuskólanum. Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi heldur námskeið í útstillingum fimmtudaginn 4. og föstudaginn 5. mars. Námskeiðið er ætlað starfsfólki í blómaverslunum og verður haldið í húsakynnum skólans. Námskeiðið verður bæði bóklegt og verklegt. Leiðbeinendur verða Þórlaug Hildibrandsdóttir og Ylfa Pétursdóttir en þær eru báðar útstillingahönnuðir. Fjöldi þátttakenda takmarkast við 15. Skráning og nánari upplýsingar um námskeiðið fást á skrifstofu skólans eða á heimasíðu hans, www. reykir.is.