Frá verðlaunaafhendingunni. Guðmundur Haraldsson (l.t.v.), Erla Evensen, Jófríður Jónsdóttir, Ásta Þórisdóttir og Nína Margrét Pálmadóttir.
Frá verðlaunaafhendingunni. Guðmundur Haraldsson (l.t.v.), Erla Evensen, Jófríður Jónsdóttir, Ásta Þórisdóttir og Nína Margrét Pálmadóttir. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Blönduós | "Jafnrétti snýst um að tryggja hag allra í samfélaginu á öllum sviðum samfélagsins óháð kynferði," sagði Jófríður Jónsdóttir, formaður jafnréttisnefndar Blönduóss, þegar hún afhenti eigendum kaffihússins "Við árbakkann",...

Blönduós | "Jafnrétti snýst um að tryggja hag allra í samfélaginu á öllum sviðum samfélagsins óháð kynferði," sagði Jófríður Jónsdóttir, formaður jafnréttisnefndar Blönduóss, þegar hún afhenti eigendum kaffihússins "Við árbakkann", þeim Erlu Evensen og Guðmundi Haraldssyni, jafnréttisverðlaun Blönduósbæjar fyrir árið 2003. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Blönduósbær veitir þessa viðurkenningu.

Kaffihúsið við Árbakkann verður 5 ára nú í júní sagði Jófríður Jónsdóttir og hefur starfsemin vaxið og blómstrað á þessum tíma og veltan aukist öll árin. Guðmundur og Erla hafa stjórnað rekstrinum á samhentan hátt frá stofnun og sýnt mikla gestrisni í hvívetna og samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf. Það kom fram í máli Jófríðar að kaffihúsið "Við árbakkann" fékk á sínum tíma styrk frá hinu opinbera, úr sjóði sem er ætlað að jafna aðgengi kvenna að ýmsu fjármagni, til að setja upp myndlistarsýningar kvenna og auka þannig fjölbreytileika og stuðla að aukinni breidd myndlistar og menningarstarfsemi á Blönduósi. "Þetta hefur svo sannarlega tekist og njóta bæjarbúar og aðrir gestir fallegra sýninga þegar kaffihúsið er heimsótt. Menning er einn hornsteina samfélagsins og því er samfélaginu mikið í mun að jafnréttissjónarmiða sé þar gætt. Jafnrétti og auknir möguleikar kvenna á menningarsviðinu er því samfélaginu mjög mikilvægt. Kaffihúsið "Við árbakkann" er dæmi um fyrirtæki þar sem samheldnir einstaklingar koma saman og vinna að sameiginlegu markmiði sínu án þess að þættir eins og kynferði skipti þar máli og er vel að jafnréttisverðlaunum Blönduósbæjar 2003 komið. Framsýni ekki þröngsýni er sýn þess fyrirtækis," sagði Jófríður Jónsdóttir að lokum.