Augnlæknarnir Guðmundur Viggósson, María Soffía Gottfreðsdóttir og Þórður Sverrisson.
Augnlæknarnir Guðmundur Viggósson, María Soffía Gottfreðsdóttir og Þórður Sverrisson. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STARFSEMI augnlæknastöðvarinnar við Öldugötuna hefur nú verið flutt að Hamrahlíð 17 í um 400 fermetra aðstöðu á annarri hæð í húsi Blindrafélagsins.

STARFSEMI augnlæknastöðvarinnar við Öldugötuna hefur nú verið flutt að Hamrahlíð 17 í um 400 fermetra aðstöðu á annarri hæð í húsi Blindrafélagsins. Þarna er rekin langstærsta og fullkomnasta auglæknamiðstöð landsins að sögn talsmanna hennar en þar starfa níu sérfræðingar.

Saga auglæknastöðvarinnar spannar orðið meira en þrjá áratugi, en hana má rekja aftur til ársins 1973 en þá hóf göngudeild augndeildar Landakotsspítala starfsemi á Öldugötu 17 í kjölfar landssöfnunar Lions-hreyfingarinnar á Rauðu fjöðrinni.

Upphafið að sjónvernd innan augnlæknisfræðinnar

Augnlæknarnir Guðmundur Viggósson, María Soffía Gottfreðsdóttir og Þórður Sverrisson segja mega rekja upphaf starfseminnar til hugmynda um forvarnarstarf innan augnlæknisfræðinnar, s.s. glákueftirlit og sjónvernd barna. Sérfræðingarnir á Landakoti hafi lagt grunninn að því í samvinnu við Lions-hreyfinguna um og eftir 1970. "Þarna störfuðu menn sem voru lifandi goðsagnir eins og t.d. Kristján Sveinsson, Guðmundur Björnsson og Úlfar Þórðarson. Þetta voru hreystimenni og vinnufíklar; Kristján dó við að skúra stofuna á tíræðisaldri. Hann vann yfirleitt til hálfellefu á kvöldin og endaði þá yfirleitt með því að skúra sjálfur því hann kunni ekki við að láta stúlkuna koma svona seint. Þessir menn minnkuðu glákublindu á Íslandi um 90% og fæstir helga sig starfi sínu jafn algerlega og þeir." Þau Guðmundur, María Soffía og Þórður segja starfsemina hafa verið tryggða enn frekar þegar tvær gamlar konur hafi arfleitt augndeildina að aleigu sinni og deildin hafi eignast húsnæðið á Öldugötunni en þegar Landakot hafi sameinast ríkisspítölunum hafi augnlæknarnir tekið yfir rekstur stöðvarinnar en legudeildin hafi flust á Landspítalann.

Þurftum nýja aðstöðu við verkefni nýrra tíma

"Við gerðum okkur grein fyrir að starfsemin gæti ekki vaxið þarna á Öldugötunni og við sinnt okkar metnaði og til þess að takast á við verkefni nýrra tíma fluttum við starfsemina hingað í Hamrahlíðina. Húsið á Öldugötunni er á fjórum hæðum og við gátum ekki verið með öll okkar tæki á fyrstu hæðinni og húsnæðið þar hentaði því ekki nógu vel, hvorki fyrir okkur né sjúklinga okkar. En staðreyndin er auðvitað sú að í vitund margra Reykvíkinga er eða var þetta þannig að ef eitthvað var að mönnum í augunum þótti eðlilegt að koma á Öldugötuna. En nú er þessi starfsemi sem sagt komin hingað í Hamrahlíðina. Og hér erum við í mun stærra húsnæði og á einni hæð og hér er einnig gleraugnaverslun á fyrstu hæðinni og svo Sjónstöðin fyrir ofan okkur. Við erum raunar töluvert betur tækjavædd en venjulegar augnlæknastöðvar og raunar er annar leysirinn hér sá eini sinnar tegundar á landinu og sparar fólki því ferðir til útlanda. Þannig að stöðin hér er að vissu leyti eins og göngudeild frekar en venjuleg augnlæknastöð. Og með samvinnu stórs hóps sérfræðinga, eins og starfar hér, höfum við bolmagn til þess að kaupa dýr lækningatæki á borð við leysitækin. Þetta er því langstærsta og langtækjavæddasta augnlæknastöð landsins. Við vorum með meira en ellefu þúsund komur í fyrra og reiknum með að þær verði um fimmtán þúsund hér í Hamrahlíðinni. Við höfum auðvitað ákveðna sýn fyrir starfsemina hér og það má kannski segja að hún sé tímaútgáfa af þeirri sýn sem gilti fyrir Öldugötuna á sínum tíma, þ.e. að ef eitthvað er að sjóninni eða augunum í fólki, óháð því hvað það er, geti það leitað hingað. Það að svona margir sérfræðingar starfa hér gerir okkur að miklu öflugri einingu en um leið er líka skemmtilegra og meira gefandi að starfa í slíkum hópi í stað þess að vera einn með stofu úti í bæ."