Sigurður T. Sigurðsson
Sigurður T. Sigurðsson
Þennan uppsafnaða vanda verða stjórnvöld að leysa ...

ÖLL innvinnsla lífeyris hjá launafólki hérlendis ætti í grundvallaratriðum að vera eins, hvort sem viðkomandi er alþingismaður, hæstaréttardómari, opinber starfsmaður, verkamaður, iðnaðarmaður eða sjómaður. Því miður er það ekki svo. Hér er launafólki gróflega mismunað eftir því hvort það er í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands eða í félögum opinberra starfsmanna. Ríkið greiðir helmingi hærri lífeyri til opinberra starfsmanna heldur en launafólks innan ASÍ og bætir síðan gráu ofan á svart með því að velta kostnaðinum sem af því leiðir yfir á allan almenning í landinu.

Misjafn lífeyrir

Mestu og bestu eftirlaunaréttindin hafa alþingismenn og ráðherrar. Lögð er áhersla á að þeir fái það góðan lífeyri að þeir geti hætt að vinna um sextugt og lifað áhyggjulausu lífi það sem eftir er ævinnar við að skrifa æviminningar sínar, þar sem þeir hæla sjálfum sér fyrir dugnaðinn. Tekjur þeirra hækka jafnvel við það eitt að hætta að vinna. Til þess að kóróna misréttið eru eftirlaun þessara fulltrúa fólksins ríkistryggð og hækka í takt við þær launahækkanir sem vinir þeirra í Kjaradómi veita þeim.

Næstir koma opinberir starfsmenn en ríkið greiðir 11,5% mótframlag í þeirra lífeyrissjóði gegn 4% framlagi starfsmanna. Þessi lífeyrir er ríkistryggður.

Síðast er svo allt launafólk á almennum vinnumarkaði og þeir ríkisstarfsmenn sem eru innan ASÍ. Þessu fólki greiða atvinnurekendur og ríkið 6% mótframlag gegn 4% iðgjaldi.

Eins og sjá má af fyrrgreindum samanburði er hér er um hróplegt ranglæti að ræða sem ekki er hægt að réttlæta á einn eða neinn hátt. Það sem er þó siðlausast í þessu öllu saman er það að launafólk á almennum vinnumarkaði, sem er með lélegustu lífeyrisréttindin og lægsta kaupið, er látið borga lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna með hærri sköttum án þess að fá sjálft að njóta sömu réttinda.

Þennan ójöfnuð verður að jafna. Það gengur ekki lengur að stjórnvöld dragi þjóðina í dilka þannig að svokallaðir opinberir starfsmenn hafi góðan ríkistryggðan lífeyri meðan lífeyrir verkafólks er rýr og háður gengi á stopulum verð- og hlutabréfamörkuðum. Þetta vita stjórnvöld en láta eins og þeim komi málið ekkert við.

Misréttið eykst

Eins og áður segir eru lífeyrisréttindi landsmanna óheyrilega misjöfn eftir því hvort viðkomandi launamaður vinnur hjá ríkinu og er í félagi opinberra starfsmanna eða bara verkamaður í vinnu á almennum markaði. Þarna munar svo miklu að lengur verður ekki við unað, sérstaklega vegna þess að mismunurinn fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Í stað þess að reyna að minnka óréttlætið og jafna kjörin hafa þingmenn allra flokka lagt sig fram við að auka það, nú síðast með sérhönnuðu eftirlaunafrumvarpi fyrir Davíð Oddsson forsætisráðherra. Það er engu líkara en meirihluti þingmanna telji sjálfsagt og eðlilegt að gróft misrétti eigi að ríkja í lífeyrismálum Íslendinga, það sýndi mikill og almennur stuðningur þeirra við eftirlaunafrumvarpið hans Davíðs. Það eina sem kom í veg fyrir að yfir 90% alþingismanna styddu frumvarpið voru harkaleg viðbrögð almennings og skelegg mótmæli verkalýðshreyfingarinnar gegn þessu ranglæti.

Ábyrgð stjórnvalda

Nú er málum svo komið að það tekur langan tíma að jafna þann mikla mun sem er innbyrðis á lífeyrisréttindum Íslendinga og vegna mikils kostnaðar verður það ekki gert nema í áföngum á lengri tíma. Mikið mega alþingismenn skammast sín fyrir þann þátt sem þeir eiga í að skipta þjóðinni í þessa tvo misjöfnu hópa, á annan veginn ríkisstarfsmenn sem fá góðan ríkistryggðan lífeyri og á hinn veginn almennt launafólk sem fær helmingi lægri lífeyri, sem háður er sveiflum á verð- og hlutabréfamörkuðum.

Þennan uppsafnaða vanda verða stjórnvöld að leysa, því það er í þeirra verkahring að stíga fyrsta skrefið til jöfnunar lífeyrisréttinda allra landsmanna og bæta þannig fyrir það misrétti sem þau hrundu af stað. T.d. mætti hugsa sér að ríkissjóður tæki að sér að greiða almennu lífeyrissjóðunum þann kostnað sem sjóðirnir bera af greiðslu örorkulífeyris. Slíkt myndi bæta greiðslustöðu sjóðanna verulega og gera þeim kleift að hækka eftirlaunalífeyririnn og jafna þannig að hluta til núverandi misrétti.

Sigurður T. Sigurðsson skrifar um lífeyrismál

Höfundur er starfsmaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.