[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ákvörðun um að veiða dýrin innan hvalaskoðunarsvæða var tekin einhliða af starfsmönnum Hafró...

Í FRAMHALDI af grein Gísla Víkingssonar og Droplaugar Ólafsdóttur, starfsmanna Hafrannsóknastofnunar, "Hrefnurannsóknir og hvalaskoðun" sem birt var í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag vilja Hvalaskoðunarsamtök Íslands taka fram eftirfarandi:

Þegar stjórnvöld ákváðu að hefja hvalveiðar hér við land síðastliðið sumar var hvalaskoðunarfyrirtækjum gefið loforð um að veiðar á hrefnu myndu ekki fara fram innan hvalaskoðunarsvæða. Það loforð gaf sjávarútvegsráðherra og samskonar ummæli viðhafði Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró á fundi Rótarýklúbbs Reykjavíkur í júlí á síðasta ári. Bæði aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra og aðstoðarforstjóri Hafró báðust síðan afsökunar á framferði hrefnuveiðibátsins Njarðar þegar bent var á að hann væri að eltast við hrefnu innan auglýsts hvalaskoðunarsvæðis á Faxaflóa síðastliðið haust. Þessir menn fullyrtu einnig á sama fundi sem undirritaður átti með þeim í ráðuneytinu að ekki yrði veitt innan hvalaskoðunarsvæðanna.

Hvalaskoðunarfyrirtækin hafa um árabil auglýst helstu hvalaskoðunarsvæðin í bæklingum sínum og miðað við upplýsingar Hafró um veiðistaði liggur fyrir að fjölmargar hrefnur voru skotnar innan þessara svæða. Það sætir furðu að Gísli og Droplaug reyni að þræta fyrir þetta.

Við höfum hvergi haldið því fram að 1/3 dýranna hafi verið veiddur innan svæðanna eins og fullyrt er í grein Gísla og Droplaugar. Fjórðungur er nær lagi. Hvalaskoðunarsamtökin hafa lagt áherslu á að dýrin voru veidd innan hvalaskoðunarsvæða. Við erum ósammála fullyrðingu starfsmanna Hafró um að veiðarnar hafi farið fram í "góðu samkomulagi" við hvalaskoðunarfyrirtækin. Ákvörðun um að veiða dýrin innan hvalaskoðunarsvæða var tekin einhliða af starfsmönnum Hafró og getur því varla talist "gott samstarf"

Við vísum einnig á bug ummælum starfsmanna Hafró um að vöxtur í hvalaskoðun sé ekki mikið frábrugðinn hjá hvalveiðiþjóðum og þeim sem ekki stunda hvalveiðar. Benda má á að í Noregi hefur hvalaskoðun verið stunduð frá árinu 1989, en þar fóru einungis rúmlega 20.000 ferðamenn í hvalaskoðun á síðasta ári. Á Íslandi hófst hvalaskoðun 1995 og á síðasta ári fóru 72.000 ferðamenn í hvalaskoðun.

Kortið sýnir hvar hrefnur voru veiddar í haust (rauðu punktarnir) og um leið þau svæði sem hvalaskoðunarfyrirtækin fara um í leit að hvölum (lituð svæði). Kortið sýnir að fjórðungur dýranna var veiddur inni á auglýstum hvalaskoðunarsvæðum eða í næsta nágreni við þau þrátt fyrir að bæði sjávarútvegsráðherra og forstjóri Hafró hafi fullyrt að það yrði ekki gert!

Hvalaskoðunarsamtökin ítreka enn nauðsyn þess að gerð verði úttekt á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustuna, útflutningsgreinarnar og ímynd landsins áður en ákvörðun verður tekin um framhald hvalveiða hér við land. Það eru ýmis álitamál og spurningar sem tengjast skoðun á þessum málum, bæði vísindaleg, efnahagsleg og siðfræðileg, en fullyrða má að allt of mikið af umræðunni hefur markast af tilfinningahita. Og þar erum við Íslendingar ekkert frábrugðnir öðrum þjóðum, bara með öðrum formerkjum.

Ásbjörn Björgvinsson skrifar um hvalaskoðun og hvalveiðar

Höfundur er formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.