Mikill er máttur Ástþórs Magnússonar ef hann heldur að hann geti einhliða ákveðið að flytja starfsemi höfuðstöðva friðargæslusveita SÞ til Íslands!

Ástþór Magnússon, sem lýst hefur því yfir að hann hyggist bjóða sig fram í forsetakosningum í sumar, ræddi í Kastljósinu á sunnudag um þær hugmyndir sínar að á Íslandi rísi "stjórnstöð alþjóðlegs friðargæsluliðs er geri einstökum þjóðum mögulegt að leggja niður heri sína og gera varnarsamninga við hið alþjóðlega friðargæslulið" (sbr. vefsíðu sem hann heldur úti, www.forsetakosningar.net).

Ástþór lýsti m.a. þeirri skoðun að óheppilegt væri að stjórnstöð friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna væri staðsett í Bandaríkjunum og virtist af orðum hans mega ráða að hugmyndir hans geri ekki ráð fyrir því að settar verði á laggirnar nýjar alþjóðlegar friðargæslusveitir, heldur einfaldlega að SÞ flytji þessa tilteknu starfsemi sína til Íslands.

Í þessu sambandi má nefna að við ofurlitla eftirgrennslan mína kom í ljós að í árslok 2003 voru tæplega 46 þúsund friðargæsluliðar við störf á vegum SÞ víðs vegar í heiminum. Starfsfólk stjórnstöðvar friðargæsludeildar SÞ (Department of Peacekeeping Operations) í New York er að vísu talið í tugum, ekki hundruðum eða þúsundum, en það sinnir hins vegar því mikilvæga verkefni að halda utan um starfsemi friðargæslusveitanna, huga að stefnumótun og halda uppi tengslum við bæði öryggisráð SÞ og allsherjarþing samtakanna.

Á fjárhagsárinu 1. júlí 2003 - 30. júní 2004 hefur friðargæsludeild SÞ til umráða um það bil 2,81 milljarð Bandaríkjadala, tæplega 200 milljarða ísl. króna, og það má því með sanni segja að eftir nokkru væri að slægjast fyrir Íslendinga; sannarlega myndu skapast störf hér á landi við þennan flutning sem ættu að vega upp á móti brottför Bandaríkjahers frá Keflavík.

En hér kemur spurning mín til Ástþórs Magnússonar: Hefur hann eitthvað rætt þessar metnaðarfullu hugmyndir sínar við Kofi Annan, framkvæmdastjóra SÞ, eða Jean-Marie Guéhenno, aðstoðarframkvæmdastjóra SÞ og yfirmann friðargæsludeildar SÞ? Er hann hugsanlega þegar búinn að ná samningum við þessa mætu menn, að ekki sé talað um aðildarríki öryggisráðsins sem væntanlega þyrftu að leggja blessun sína yfir þennan flutning?

Ég leyfi mér að efast um að svo sé. Sjálfur fylgist ég eins og kostur er með starfsemi SÞ í New York og því miður hef ég bara ekki orðið var við að þessi hugmynd sé til umræðu þar (svo!).

Mikill er máttur Ástþórs Magnússonar ef hann heldur að hann geti einhliða ákveðið að flytja starfsemi höfuðstöðva friðargæslusveita SÞ til Íslands!

Rétt er að rifja upp að þegar Ástþór bauð sig fram í forsetakosningunum 1996 höfðu samtökin Friður 2000 verið áberandi um nokkurt skeið. Samtökin flugu til dæmis með gjafir til stríðshrjáðra landa og einhverju sinni tók Ástþór sig til, klæddi sig í jólasveinabúning og færði íröskum börnum síðan gjafir.

Erfitt er hins vegar að greina að samtökin hafi haldið úti nokkurri starfsemi af þessari tegund undanfarin ár og það er auðvitað miður. Ástþór notaði þó tækifærið nýverið og klæddist aftur í jólasveinabúninginn, mætti svo þannig í réttarsal, eins og frægt er orðið. Hann kom að mínu mati ekki fram sem boðberi friðar við það tækifæri, raunar lét hann býsna ófriðlega.

Það er einmitt athyglisverð þversögn fólgin í því að friðarpostulinn sjálfur skuli aldrei geta verið til friðs.

Eins og fram hefur komið heldur Ástþór nú úti vefnum www.forsetakosningar.net og þar kennir sannarlega ýmissa grasa. Mesta athygli mína vöktu þó "linkar" á ýmsar aðrar vefsíður sem virðast í eigu Friðar 2000.

Þar má nefna www.officeportal.net, www.peacetrust.net, www.netkall.com, www.telelot.com, www.islandus.com, www.peacecall.org, www.peacegram.org, www.birthdaylottery.org, www.earthchild.us, www.peace2000.org, www.peacetv.net og www.althing.org.

Flestar þessara síðna virðast tengjast fjáröflun ýmiss konar, að því er ég fæ best séð; sbr. t.d. www.birthdaylottery.org sem virðist vera eins konar netrekið lottó. Ekki er að sjá að það tengist fjáröflun fyrir Manchester United eða Wolves (Ástþór hefur sagt að hann reki nú ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í "notkun tækni til fjáröflunar yfir Internetið og notkun kreditkorta á Netinu fyrir nokkur af stærstu líknar- og fótboltafélögum Bretlands"), raunar er eftirfarandi klausu að finna í neðanmálinu: "Hafi menn ekki leyst út vinninga sína innan sex mánaða verða þeir fluttir á reikning Friðar 2000." (Á ensku: "Any unclaimed prizes or prize cheques not banked after 6 months, will be transferred to the Peace 2000 Institute.")

Mesta athygli mína vakti vefsíðan www.flightwatch.net. Þar er fyrirsögnin: "Are you booked on a doomed flight?" sem mætti þýða svona: "Ert þú bókaður í flug yfir móðuna miklu?"

Á eftir fylgir texti sem ég held að forsvarsmenn Atlanta ættu að kynna sér (og raunar einnig Flugleiða) en þar er m.a. varað við því að menn fljúgi með flugfélögum er nota sér þjónustu Atlanta (Atlanta flýgur víða undir fánum annarra flugfélaga, skaffar hins vegar flugvélina og áhöfn hennar).

Fram kemur neðst á síðunni að aðstandendur hennar hafi leitað eftir lögfræðiáliti vegna þeirra sjónarmiða sem þar eru sett fram. "Þetta eru skoðanir Friðar 2000 og þeirra lögmanna sem við höfum ráðfært okkur við. Við ráðleggjum yður að ráðfæra yður einnig við lögmenn," segir þar.

Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is