Búast má við að Kornið fylli mælinn á sunnudaginn.
Búast má við að Kornið fylli mælinn á sunnudaginn.
FORSALA miða á tónleika rokksveitarinnar Korn í Laugardalshöllinni 30. maí hefst á sunnudaginn.

FORSALA miða á tónleika rokksveitarinnar Korn í Laugardalshöllinni 30. maí hefst á sunnudaginn.

Fer miðasalan fram í verslunum Skífunnar á Laugavegi, Kringlunni og Smáralind, Pennanum Akranesi, Hljóðhúsinu Selfossi og Pennanum - Eymundssyni, Glerártorgi Akureyri.

Alls staðar hefst miðasalan á slaginu kl. 21 nema á Akureyri þar sem hún hefst kl. 13. Áhugasamir af landsbyggðinni geta þá tryggt sér miða í síma 525 5040 frá kl. 21.

Miðaverð er kr. 4.500 í stæði en 5.500 í stúku. Aldurstakmark er 13 ár, nema í fylgd með fullorðnum forráðamanni. Hver einstaklingur má mest kaupa sex miða.

Þá vilja tónleikahaldarar beina þeim tilmælum til áhugasamra að stilla sér ekki upp í raðir við verslun Skífunnar í Kringlunni fyrr en kl. 17 á miðasöludegi og við verslun Skífunnar í Smáralind fyrr en kl. 18.

Þessi vinsamlegu tilmæli séu sett fram af tillitssemi við verslun og þjónustu í Kringlunni og Smáralind.

Í öðrum fréttum af Korn var það tilkynnt á dögunum að sveitin muni fara í tónleikaferð um Bandaríkin ásamt Linkin Park og Snoop Doggy Dogg. Tónleikaferðin mun bera yfirskriftina The Projekt Revolution. Snoop hefur sett saman sína hljómsveit vegna ferðarinnar sem heitir Snoopadelics og segist hann vona að sveitirnar þrjár eigi eftir að gera eitthvað saman á sviðinu.

Þá hefur nýtt myndband við lag Korn "Y'all Want A Single" valdið deilum en í því ráðast þeir Korn-liðar með barefli inn í plötubúð og rústa henni.

Þykir myndbandið ekkert sérlega MTV-vænt og mun eigendum stóru plötubúðakeðjanna eitthvað misboðið.