ÁSMUNDUR Stefánsson ríkissáttasemjari segist í samtali við Morgunblaðið geta staðfest það mat samningsaðila að góður gangur sé í viðræðum Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins, þær gangi hratt og vel fyrir sig.

ÁSMUNDUR Stefánsson ríkissáttasemjari segist í samtali við Morgunblaðið geta staðfest það mat samningsaðila að góður gangur sé í viðræðum Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins, þær gangi hratt og vel fyrir sig. Viðræðunum var vísað til sáttasemjara í síðustu viku og síðan þá hafa verið daglegir fundir í húsakynnum hans við Borgartún.

Ásmundur segir að vel hafi gengið að vinna úr ýmsum flóknum atriðum í sérkjarasamningum. Ekki sé allt komið á endastöð en það eigi eftir að koma í ljós hvert framhaldið verði. Hann segir vel geta komið til einhvers ágreinings þegar samningsaðilar fari að ræða um stóru málin svonefndu, þó vonist allir til að svo verði ekki. Gangurinn til þessa gefi ekki tilefni til að halda að alvarlegur ágreiningur eigi eftir að koma upp, þó að erfitt sé að segja til um það fyrirfram.

Segist Ásmundur ómögulega geta spáð því hvenær skrifað verði undir samninga. Núna sé að minnsta kosti vel unnið og ötullega beggja vegna borðsins, þannig hafi viðræður staðið yfir fram á kvöld á þriðjudag og í gærkvöldi.

Fjögurra ára samningstími

Á vef Eflingar - stéttarfélags, sem tilheyrir Flóabandalaginu svonefnda, segir að sérkjarasamningar nú séu flóknari en áður þar sem samhliða sérkröfum í ýmsum samningum sé verið að máta alla helstu sérkjarasamninga við nýtt launakerfi. Þetta sé tímafrek vinna, ekki síst þar sem að auki sé verið að taka upp og undirbúa ýmsar breytingar á vinnufyrirkomulagi í nokkrum fyrirtækjum.

Segja Eflingarmenn ennfremur að viðræður um aðalkröfur, s.s. launaliði, lífeyrismál og fræðslumál, séu komnar á fullt skrið. Aðilar samninganna hafi gengið út frá fjögurra ára samningstíma þannig að um mitt tímabil verði samningsforsendur til skoðunar að nýju. Launaþáttur sérkjarasamninga miðist einnig við þetta fyrirkomulag og skiptist þannig í tvo áfanga.