Vladímír Pútín Rússlandsforseti kom á óvart í fyrradag, er hann leysti Míkhaíl Kasjanov forsætisráðherra og ríkisstjórn hans frá störfum.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti kom á óvart í fyrradag, er hann leysti Míkhaíl Kasjanov forsætisráðherra og ríkisstjórn hans frá störfum. Raunar hafði lengi verið vitað að staða Kasjanovs væri ótrygg, en búist var við því að Pútín myndi bíða með að skipta honum út þar til eftir forsetakosningarnar 14. mars.

Víst þykir að brottvikning Kasjanovs sé liður í valdabaráttu Pútíns við klíkuna sem myndaðist í kringum forvera hans á forsetastóli, Borís Jeltsín, en forsætisráðherrann var síðasti meðlimur hennar sem gegndi enn einu af mikilvægustu embættum landsins. Jeltsínklíkan tengist einnig ýmsum af ólígörkunum svonefndu, sem komust yfir gríðarleg auðæfi í skjóli Jeltsíns á síðasta áratug, en Pútín hefur lagt áherslu á að sporna við áhrifum þeirra.

Forsetinn er sagður hafa haft horn í síðu Kasjanovs um langt skeið, bæði vegna tengsla hans við Jeltsín og hægagangs við framkvæmd efnahagsumbóta. Upp úr sauð svo síðastliðið haust, er Pútín og Kasjanov tókust á opinberlega vegna handtöku auðjöfursins Míkhaíls Khodorkovskís, sem sakaður er um skattsvik og fjármálamisferli, en ýmsir töldu hana runna undan rifjum forsetans.

Samkvæmt stjórnarskránni var Pútín ekki fært að víkja Kasjanov úr embætti án þess að leysa alla ríkisstjórnina frá störfum og búist er við að flestir ráðherranna haldi embættum sínum. En brottvikning Kasjanovs er af mörgum jafnframt túlkuð sem viðvörun til annarra um að sýna forsetanum fulla hollustu.

Pútín hefur að mörgu leyti náð ágætum árangri í forsetaembættinu, fyrst og fremst í því að tryggja meiri stöðugleika í rússneskum stjórnmálum en forvera hans var unnt. Völd forsetaembættisins hafa verið aukin töluvert í tíð Pútíns og hann styrkti stöðu sína enn í þingkosningunum í desember, þegar stuðningsmenn hans í flokknum Sameinað Rússland hlutu nær 40% atkvæða. En ýmsir frjálslyndir umbótaflokkar töpuðu fylgi í kosningunum, og það er áhyggjuefni hversu staða stjórnarandstöðunnar er veik.

Lýðræðið hefur ekki enn slitið barnsskónum í Rússlandi. Því stendur meðal annars ógn af uppgangi ólígarkanna, sem komist hafa yfir mikil auðæfi með vafasömum hætti og reynt hafa að skapa sér stöðu sem hálfgerðir kóngar í ríki sínu. Pútín hefur gefið þeim skýr skilaboð um að völdin í landinu eigi heima í höndum kjörinna stjórnvalda. Barátta forsetans gegn uppivöðslusemi fjármálafurstanna er nauðsynleg til að viðhalda pólitískum stöðugleika í Rússlandi. En hættan er sú að hann grafi undan lýðræðinu í leiðinni.