Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
GUÐNI Ágústsson landbúnaðarráðherra vakti, í upphafi þingfundar á Alþingi í gær, athygli þingheims á þeim alvarlegu dýrasjúkdómum sem hafa gert vart við sig víðsvegar um heim á undanförnum vikum og misserum.

GUÐNI Ágústsson landbúnaðarráðherra vakti, í upphafi þingfundar á Alþingi í gær, athygli þingheims á þeim alvarlegu dýrasjúkdómum sem hafa gert vart við sig víðsvegar um heim á undanförnum vikum og misserum. Hann sagði að sérstök ástæða væri til að varast þá dýrasjúkdóma sem borist gætu í menn í gegnum snertingu við dýr og neyslu matvæla. Landbúnaðarráðuneytið birti í gær auglýsingu um bann við innflutningi á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Bandaríkjum Norður-Ameríku vegna hænsnapestar. Ráðuneytið birti í lok janúar auglýsingu um sams konar innflutningsbann frá löndum Asíu. Ráðherra minnti á þessar auglýsingar í upphafi þingfundar í gær.

"Nú herjar mjög skæð fuglaflensa á mörg lönd í Asíu með alvarlegum afleiðingum fyrir líf og heilsu manna og dýra," sagði hann. "Sjúkdómar sem þessir geta hæglega dreifst með milliríkjaviðskiptum og er full ástæða til að grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja líf og heilsu íslenskra neytenda og gæta jafnframt hagsmuna íslensks landbúnaðar á þessu ári."

Síðan sagði ráðherra: "Í síðustu viku stóð yfir mikil matarveisla hér í borginni, Food and Fun, framtak sem hefur vakið gríðarlega athygli. Hinir fjölmörgu erlendu gestir, sem sótt hafa þessa hátíð, hafa óspart lofað þann landbúnað sem hér er stundaður - fjölskyldubúskapinn þar sem velferð dýra og heilnæmi afurðanna er í fyrirrúmi. Reynslan hefur því miður sýnt að með auknum ferðum fólks og sífellt vaxandi flutningi afurða milli landa geta smitsjúkdómar komið upp nánast hvar sem er. Því er full ástæða til að ferðafólk og fyrirtæki í milliríkjaviðskiptum kynni sér gaumgæfilega þær hættur sem steðjað geta að vegna dýrasjúkdóma erlendis og leitist við að haga ferðum sínum og ekki síður viðskiptum í samræmi við þá mikilvægu þjóðarhagsmuni sem hreinleiki íslensks landbúnaðar er fyrir fólkið í landinu."

Í kjölfar þessara orða ráðherra komu þingmenn annarra flokka upp í pontu og fögnuðu því að ráðherrann hefði birt fyrrgreindar auglýsingar um innflutningsbann. Sögðu þeir m.a. mikilvægt að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir að fuglaflensan eða aðrir dýrasjúkdómar berist hingað til lands.