Nokkrir leikmanna KS frá Siglufirði heilsuðu upp á Nonna í Nonnahúsinu á Goðamótinu á Akureyri í fyrra.
Nokkrir leikmanna KS frá Siglufirði heilsuðu upp á Nonna í Nonnahúsinu á Goðamótinu á Akureyri í fyrra.
Flautað verður til leiks á árlegu Goðamóti Þórs á Akureyri næsta föstudag, 27. febrúar, þegar leikmenn 3., 4. og 5. flokks stúlkna víðs vegar að af landinu koma saman í Boganum, knattspyrnuhúsinu við Hamar, félagsheimili Þórs í Glerárhverfi.

Flautað verður til leiks á árlegu Goðamóti Þórs á Akureyri næsta föstudag, 27. febrúar, þegar leikmenn 3., 4. og 5. flokks stúlkna víðs vegar að af landinu koma saman í Boganum, knattspyrnuhúsinu við Hamar, félagsheimili Þórs í Glerárhverfi. Þetta fyrsta mót stendur yfir fram á sunnudag.

Unglingaráð knattspyrnudeildar Þórs hleypti mótaröð þessari af stokkunum í fyrravetur, fyrir yngstu flokka drengja. Prýðilega þótti takast til með Goðamótin, sem unnið er að með Norðlenska, að því er segir í frétt.

"Nú er sem sagt komið að framhaldinu og fullvíst má telja að mótin hafi fest sig í sessi til frambúðar. Goðamótin verða raunar þrjú í vetur, fyrir 5. og 6. flokk drengja eins og í fyrra og nú bætist við mót fyrir 3., 4. og 5. flokk stúlkna, sem verður það fyrsta í röðinni eins og áður segir."

Keppni hefst í hvert skipti kl. 15 á föstudegi og lýkur síðdegis á sunnudegi. Hálfum mánuði eftir stúlknamótið verður komið að 5. flokki drengja, það mót verður 12. til 14. mars og 6. flokkur rekur lestina, 26. til 28. mars.

Ljóst er að þátttaka verður mjög góð í ár og keppendur alls rúmlega 1100. Þegar er nánast orðið fullt í tvö fyrstu mótin en eitthvað enn laust í það síðasta í lok mars. Keppendur eru flestir af Norðurlandi, en í fyrra tóku einnig þátt nokkur lið af Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu og svo er einnig nú. Fjölnismenn úr Grafarvogi verða líklega fjölmennastir aðkomumanna að þessu sinni, þeir verða um 100 í 5. flokki og a.m.k. 50 í 6. flokki, auk þess sem Fjölnir sendir einnig stúlknalið til keppni, eins og HK í Kópavogi. Vitað er af fjölda foreldra sem kemur með börnunum til Akureyrar í tilefni Goðamótanna þannig að ljóst er að samtals fjölgar í bænum um nokkur þúsund manns þessar þrjár helgar.

Á Goðamótinu eru sjö leikmenn í hverju liði og keppt í A-, B-, C- og D-liði.