Hagyrðingar skiptust á skotum í bundnu máli: Árni Bjarnason frá Uppsölum, Óskar Pétursson frá Álftagerði, Kristján Stefánsson frá Gilhaga og Sigurður Hansen frá Flugumýri.
Hagyrðingar skiptust á skotum í bundnu máli: Árni Bjarnason frá Uppsölum, Óskar Pétursson frá Álftagerði, Kristján Stefánsson frá Gilhaga og Sigurður Hansen frá Flugumýri. — Morgunblaðið/Björn Jóhann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LÉTTUR andi sveif yfir vötnum á Broadway í Reykjavík um síðustu helgi þegar Karlakórinn Heimir efndi til þorrablóts þar sem skagfirskt hráefni var haft í hávegum.

LÉTTUR andi sveif yfir vötnum á Broadway í Reykjavík um síðustu helgi þegar Karlakórinn Heimir efndi til þorrablóts þar sem skagfirskt hráefni var haft í hávegum. Nóg var af matnum, súrum og ósúrum, reyktum og kæstum, og enn meira af fjörinu sem fylgdi í kjölfar borðhaldsins. Í húsinu voru 400-500 manns, fjölmargir burtfluttir Skagfirðingar, og skemmtu allir sér hið besta. Veislustjóri var Óskar Pétursson frá Álftagerði, sem tók einnig lagið með kórnum, ásamt fleiri góðum einsöngvurum.

Kvöldið áður hafði Heimir sungið í Njarðvíkurkirkju fyrir fullu húsi. Létu tónleikagestir sig ekki muna um að bíða í klukkutíma eftir kórnum, sem tafðist í umferðinni suður yfir heiðar.

Hagyrðingar úr karlakórnum létu einnig ljós sitt skína á Broadway og meðal þeirra var Kristján Stefánsson frá Gilhaga. Hann notaði m.a. tækifærið og minnti viðstadda blótsgesti á helstu kosti Heimismanna:

Það er eins satt, og sem ég hérna stend

og sögur eru það um víða á sveimi;

að feimni eða minnimáttarkennd

muni ekki vera til í Heimi.

Kristján mátti svo til með að skjóta létt á veislustjórann og þá Álftagerðisbræður, sem gjarnan hafa heillað konur af eldri kynslóðinni:

Frétt um þessa söngvasveina káta

sífellt hefur vakið eftirtekt.

En að láta gamlar konur gráta

getur varla talist skemmtilegt.