LYFJASTOFNUN og heilbrigðisráðuneytið höfðu ekki lagaheimild til að synja beiðni fyrirtækis um innflutning á jurtaefni. Byggðist niðurstaða Lyfjastofnunar á því áliti ríkislögreglustjóra að efnið væri áfengi og félli því undir áfengislöggjöfina.

LYFJASTOFNUN og heilbrigðisráðuneytið höfðu ekki lagaheimild til að synja beiðni fyrirtækis um innflutning á jurtaefni. Byggðist niðurstaða Lyfjastofnunar á því áliti ríkislögreglustjóra að efnið væri áfengi og félli því undir áfengislöggjöfina. Kvartaði innflytjandinn yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins, sem staðfesti bann Lyfjastofnunar. Beinir umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að hlutast til um að upplýsingagjöf Lyfjastofnunar um lagalega umgjörð og valdheimildir varðandi fæðubótarvörur og náttúrunefni verði bætt.

Samkvæmt upplýsingum frá innflytjandanum innihélt varan svonefnt jurtaextrakt í alkóhóllausn. Umboðsmaður bendir á að ekki sé í lyfjalögum kveðið á um heimild til þess að binda framleiðslu, innflutning eða markaðssetningu almennrar vöru því skilyrði að aflað sé leyfis eða samþykkis Lyfjastofnunar. Með hliðsjón af því verði að ætla að þegar fyrir liggur að vara teljist ekki lyf sé það ekki í verkahring Lyfjastofnunar að segja fyrir um hvort innflutningur eða dreifing viðkomandi vöru sé leyfileg eða ekki.

Umboðsmaður minnir á þá meginreglu íslensks réttar að valdheimildir stjórnvalda byggist á heimildum í lögum. Stjórnvöld geti því að jafnaði ekki tekið ákvarðanir um réttarstöðu borgaranna nema lagaheimild standi til þess. Það var niðurstaða umboðsmanns að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Lyfjastofnun hefðu ekki haft heimild að lögum til að synja beiðni innflytjandans á grundvelli þess að varan félli, að mati embættis ríkislögreglustjóra, undir ákvæði áfengislaga nr. 75/1998, enda færi Lyfjastofnun eða ráðuneytið ekki með neinar valdheimildir á grundvelli þeirra laga. Taldi umboðsmaður því að niðurstaða Lyfjastofnunar í málinu, sem staðfest var með úrskurði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, hefði verið reist á röngum lagagrundvelli. Í því ljósi taldi umboðsmaður ennfremur að engin þörf hefði verið á því að óska umsagnar embættis ríkislögreglustjóra um það hvort varan teldist áfengi.

Beinir umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki málið fyrir á ný, komi fram ósk um það frá innflytjandandum, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti hans.