Þórarinn Tyrfingsson
Þórarinn Tyrfingsson
Að manni læðist sá grunur að ráðgjafarnir séu bilaðir eða þingmennirnir komnir í fílabeinsturn.

FYRIR Alþingi Íslendinga liggja nú ekki færri en þrjár þingsályktunartillögur um meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga og með tillögu sem lögð var fyrir þingið fyrir um 2 árum hafa alþingismenn úr öllum flokkum staðið að ályktunum um þessi mál á stuttum tíma. Greinargerðirnar með þessum tillögum og umræðan sem fram fór á Alþingi í síðustu viku voru vitlausar en dæmigerðar fyrir þá miklu kreppu sem alþingismenn eru í þegar kemur að heilbrigðismálunum.

Kreppan lýsir sér í því að alþingismenn virðast ekki geta nýtt sér þær upplýsingar sem fyrir hendi eru um málefnið hér innanlands og virðist um leið fyrirmunað að hafa að leiðarljósi þekkingu þeirra sem í heilbrigðisþjónustunni vinna og bera þar faglega ábyrgð.

Með umræðunni í liðinni viku gerðu þingmenn sig því seka um að lítilsvirða það fólk sem í málaflokknum vinnur og ber hitann og þungann af vandanum í sínum daglegu störfum á Sjúkrahúsinu Vogi og Landspítalanum.

Þetta mál er alvarlegra en ella þar sem að málinu koma þungavigtarmenn og konur úr öllum stjórnmálaflokkum og vinnubrögðin og umræðurnar eiga sér margar og góðar hliðstæður úr fortíðinni. Í greinargerðum með tillögunum er ítrekað vísað í gamla skýrslu sem amerískur sálfræðikennari erlendur vann í þriggja daga heimsókn til Íslands árið 1996 þar sem hann heimsótti meðferðarstofnanir sem margar hverjar eru aflagðar. Ekki er vitað til þess að hann hafi unnið við eða stjórnað fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu eða kynnt sér íslenskar sjúkratryggingar. Auk þessa er ítrekað vísað í nafngreindan mann, ómenntaðan í heilbrigðisfræðum sem aldrei hefur unnið að meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga. Hvergi er að sjá að vísað sé til nýlegra upplýsinga í málaflokknum eða þeirra sem í málaflokknum vinna hér á landi. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð alþingismanna nú um stundir í heilbrigðismálum.

Umræðan sem í kjölfarið fór lýsti því vel að þingmennirnir eru gjörsamlega steinrunnir og ekki í neinum tengslum við það sem gerst hefur á Íslandi í vímuefnamálum. Stórkostlegar breytingar á vímuefnaneyslu landsmanna undanfarin ár og þær miklu breytingar sem orðið hafa á starfsemi meðferðarstofnana virðast hafa farið fram hjá þeim. Að manni læðist sá grunur að ráðgjafarnir séu bilaðir eða þingmennirnir komnir í fílabeinsturn.

Er nú ekki kominn tími til að þessari vitleysu linni og alþingismenn, ráðuneytismenn og embættismenn í heilbrigðismálum verði málefnalegri og vandaðri í umræðum sínum. Það er ekki lengur hægt að bjóða okkur upp á endalausar fréttir af óeirðum og sífelldum breytingum í heilbrigðisþjónustunni. Málflutningur stjórnar og stjórnarandstöðu ber þess merki að stjórnmálamenn og embættismenn eru ekki í nokkrum tengslum við atvinnufyrirtækin í heilbrigðisþjónustunni og hafa enga heildarsýn eða framtíðarsýn. Ástæðan er augljós, þeir gera ekki fólkið sem vinnur í málaflokknum að bandamönnum sínum í lausn vandans. Þeir skapa fyrirtækjunum í heilbrigðisþjónustunni geðveikan rekstrargrunn og efna sífellt til óeirða og er svarað í sömu mynt líkt og þessi grein ber með sér.

Þórarinn Tyrfingsson skrifar um heilbrigðismál

Höfundur hefur borið ábyrgð í heilbrigðisrekstri í 28 ár.