Ráðhúsið | Um nokkra hríð hefur verið í athugun hjá bæjarstjórn Austur-Héraðs að flytja bæjarskrifstofur sínar úr óhentugu húsnæði í iðngörðum við Lyngás í betra húsnæði.

Ráðhúsið | Um nokkra hríð hefur verið í athugun hjá bæjarstjórn Austur-Héraðs að flytja bæjarskrifstofur sínar úr óhentugu húsnæði í iðngörðum við Lyngás í betra húsnæði. Um tíma var hugmyndin sú að Nýsir byggði stjórnsýsluhús á miðbæjarreit Egilsstaða og leigði bænum þar aðstöðu, en því var drepið á dreif þegar kostnaður hafði verið gaumgæfður. Gerðist þá ekkert um hríð. Nú virðast húsnæðismál sveitarfélagsins enn komin til umræðu, þar sem bæjarstjóri lét í fyrradag bóka samþykkt á bæjarráðsfundi um að taka þyrfti málið til skoðunar. Var það í kjölfar þess að Sverrir Hermannsson, eigandi Hótels Valaskjálfar á Egilsstöðum, hefur boðið bænum aðstöðu fyrir skrifstofur sínar á neðstu hæð 5500 fm húsnæðis sem hann hyggst fljótlega byggja við hótelið.

Eiríkur Bj. Björgvinsson bæjarstjóri sagði í samtali við Morgunblaðið að viðræður við Nýsi um stjórnsýsluhús í miðbænum væru enn í gangi. "Nú vilja menn jafnvel bjóða fleiri aðilum að bjóða í okkur, ef hægt er að orða það þannig." Eiríkur segir aðila sem hyggjast reisa skrifstofuhúsnæði á Fagradalsbraut 15 einnig inni í myndinni og því séu þessir þrír möguleikar hugsanlega til skoðunar fyrir bæjarskrifstofurnar. Eiríkur segist reikna með að ræða við Nýsi, Valaskjálf og húsbyggjendur á Fagradalsbraut 15 á næstunni og sé málið þannig eingöngu á umræðustigi enn sem komið er.