Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Ljóst er að fjármunir fara forgörðum í heilbrigðisþjónustunni vegna stefnuleysis stjórnvalda.

GRUNDVALLARATRIÐI til þess að byggja upp markvissa heilbrigðisþjónustu er að taka á skipulagsvandanum. Það þarf að skilgreina þjónustuþörf og kostnaðargreina einstaka þætti innan heilbrigðisþjónustunnar, auk þess sem veita á þjónustuna þar sem hún er hagkvæmust og setja reglur um hámarksbið eftir aðgerð. Aldrei má missa sjónar á því meginmarkmiði að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni óháð efnahag. Þannig fær fólkið skilvirka og góða þjónustu, sem jafnframt er hagkvæmust fyrir skattgreiðendur. Ljóst er að fjármunir fara forgörðum í heilbrigðisþjónustunni vegna stefnuleysis stjórnvalda. Samfylkingin hefur sett heilbrigðismálin í forgang, en markvisst og skipulega er nú unnið að mótun heilbrigðisstefnu innan flokksins. Einn liður í því er heimsókn allra þingmanna flokksins þessa vikuna á allar deildir og þjónustustöðvar á vegum Landsspítala - háskólasjúkrahúss.

Heilsugæslan og bráðaþjónustan

Margt hefur borið á góma í þessum heimsóknum og þar er augljós sá skipulagsvandi sem heilbrigðiskerfið býr við. Af mörgu er að taka en hér skulu aðeins tekin fáein dæmi. Áætlað er að tuttugu þúsund manns í Reykjavík séu án heimilislæknis. Uppbygging þessarar grunnþjónustu á Reykjavíkursvæðinu hefur ekki verið í neinu samræmi við fólksfjölgun og orðið til þess að gera heilbrigðisþjónustuna miklu dýrari en ella. Það birtist m.a. í því að af 66 þúsund komum á slysa- og bráðamóttöku Landspítala - háskólasjúkrahús á sl. ári hefði verið hægt að sinna um 13 þúsund þeirra eða um 20% með viðunandi hætti hjá heimilislækni, sem er margfalt ódýrara. Stjórnvöld bera ábyrgð á að fólk þarf að leita í dýrari þjónustu en ella, sem er kostnaðarmeira bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Hægt að spara mikla fjármuni

Sami skipulagsvandinn er í málefnum aldraðra. Þar má spara án þess að það komi niður á þjónustu við aldraða. Þvert á móti má bæta hana með ódýrara og breyttu skipulagi. Á annað hundrað aldraðir sem dvelja nú á Landspítala - háskólasjúkrahúsi bíða eftir hjúkrunarrýmum. Mismunurinn á kostnaði við dvöl aldraðra, annars vegar á sjúkrahúsinu og hins vegar í hjúkrunarrými, er nálægt 10 þúsund krónum á dag. Þannig mætti spara um 300 milljónir á ári ef til væru hjúkrunarrými fyrir aldraða sem nú dvelja á sjúkrahúsunum í Reykjavík og bíða þar eftir plássi á hjúkrunarheimilum.

Byggjum upp heimahjúkrun og heimaþjónustu

Með meiri og samþættari heimahjúkrun og heimaþjónustu sem skipulögð væri á kvöldin og um helgar má líka fækka í hópi þeirra 400-500 aldraðra sem bíða eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík og á Reykjanesi. Með því væri öldruðum gert kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Fjárfesting í heimahjúkrun og heimaþjónustu og samþætting þjónustunnar er því sparnaður. Það er þó engu líkara en stjórnvöld hafi engan skilning á þessu og reyni fremur að brjóta þá þjónustu niður en byggja upp með því að standa í langvarandi deilum við starfsfólk heimahjúkrunar. Þessi störf eru mikils metin hjá þeim fjölda aldraðra sem þeirra njóta, en stórlega vanmetin af stjórnvöldum, enda stefnir í að tugir starfsmanna heimahjúkrunar í Reykjavík leggi niður störf um nk. mánaðamót. Þá mun skapast neyðarástand hjá mörgum öldruðum og öryrkjum. Stjórnvöld ættu fremur að snúa sér að því að gera þessi störf eftirsóknarverð en að standa í sífelldum deilum við illa launað starfsfólk heimahjúkrunar.

Jóhanna Sigurðardóttir skrifar um heilbrigðiskerfið

Höfundur er alþingismaður.