VEIGAR Páll Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu úr KR, gengur að öllu óbreyttu frá þriggja ára samningi við norska félagið Stabæk í næstu viku. Veigar Páll hefur komist að samkomulagi við Norðmennina og fer til móts við liðið á laugardag en það dvelur í æfingabúðum á La Manga á Spáni.

Þetta er nánast frágengið og ég fer til La Manga til að sýna að ég sé með tvo fætur og í góðri æfingu. Samningurinn er tilbúinn og ég reikna með því að það verði skrifað undir hann mjög fljótlega. Það á reyndar eftir að greiða úr málum gagnvart KR, ég var búinn að skrifa undir samning við KR-inga en ekki undir KSÍ-samning, þannig að það þarf að finna lausn á því. En ég held að það verði allt gert á góðum nótum, enda hef ég átt hreint frábæran tíma í KR undanfarin tvö ár," sagði Veigar Páll við Morgunblaðið í gær. Stabæk hefur einnig samið við danska miðjumanninn Mads Jörgensen sem kemur frá Ancona á Ítalíu og félagið ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili. Liðið varð í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar í fyrra, leikur í UEFA-bikarnum í ár og í nýju Norðurlandadeildinni sem hleypt verður af stokkunum næsta vetur.

"Þetta er eitt af þremur bestu liðum Noregs og spilar mjög skemmtilegan fótbolta, ekki þessa dæmigerðu norsku knattspyrnu, og íslensku leikmennirnir sem hafa spilað með Stabæk bera félaginu mjög vel söguna," sagði Veigar.

Hann lék með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni árið 2001 en hafði fram að því spilað með Stjörnunni. Veigar hefur orðið meistari með KR undanfarin tvö ár, hefur leikið lykilhlutverk hjá Vesturbæjarliðinu og skoraði 14 mörk í 30 deildaleikjum. Hann á fimm A-landsleiki að baki, þrjá þeirra á síðasta ári.