JÓN Arnar Magnússon, fjölþrautarmaður úr Breiðabliki, verður á meðal keppenda í sjöþraut á heimsmeistaramótinu innanhúss í frjálsíþróttum sem fram fer í Búdapest í ungverjalandi 5.-7. mars nk.

JÓN Arnar Magnússon, fjölþrautarmaður úr Breiðabliki, verður á meðal keppenda í sjöþraut á heimsmeistaramótinu innanhúss í frjálsíþróttum sem fram fer í Búdapest í ungverjalandi 5.-7. mars nk. Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, staðfesti þetta við Frjálsíþróttasamband Íslands í gær, en IAAF býður aðeins átta keppendum til þess að spreyta sig í sjöþrautarkeppni mótsins.

Þar með er ljóst að a.m.k. tveir Íslendingar taka þátt í mótinu því nokkuð er síðan Þórey Edda Elísdóttir, stangarstökkvari úr FH, tryggði sér keppnisrétt með því að lyfta sér yfir 4,35 metra, en það er lágmarkshæð til þess að vinna sér inn keppnisrétt á mótinu.

"Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með að þátttökurétturinn er í höfn eftir að hafa verið á tæpasta vaði," sagði Jón Arnar í gær. "Ég er í fínum málum um þessar mundir, er í fínu líkamlegu formi og miðað við árangur minn á Meistaramóti Íslands á dögunum á ég að geta gert mikið, náð mikið betri þraut á HM en ég náði í Tallin á dögunum," sagði Jón Arnar. Þetta verður í sjöunda sinn sem Jón Arnar tekur þátt í HM innanhúss, þar af í fimmta skipti í sjöþraut en á fyrsta heimsmeistaramótinu sem hann tók þátt í árið 1995 var hann á meðal keppenda í langstökki. Jón hefur tvisvar sinnum unnið til verðlauna í sjöþraut á HM, árið 1997 vann hann brons í París og síðan silfurverðlaun í Lissabon árið 2001. Hann setti hins vegar Norðurlandamet sitt, 6.293 stig, á HM í Japan 1999 en það nægði honum samt aðeins til 5. sætis í sterkustu sjöþrautarkeppni sögunnar.