ELDSPRENGJU var í fyrrakvöld kastað í veitingastað í Mílanó á Ítalíu en Christian Vieri, sóknarmaður knattspyrnuliðs Inter, er einn af eigendum staðarins. Sprengjan olli nokkrum skemmdum á vegg og auglýsingaskiltum.

ELDSPRENGJU var í fyrrakvöld kastað í veitingastað í Mílanó á Ítalíu en Christian Vieri, sóknarmaður knattspyrnuliðs Inter, er einn af eigendum staðarins. Sprengjan olli nokkrum skemmdum á vegg og auglýsingaskiltum. Svipað atvik átti sér stað við annan veitingastað í borginni í gær en annar leikmanna Inter, Fabio Cannavaro, á hlut í honum.

Árásinni á stað Vieris fylgdi hótunarbréf með eftirfarandi orðum:

"Vieri, þolinmæðin er þrotin, þú ert ekki verðugur þess að leika með Inter. Þú verðskuldar ekki stuðning frá borginni okkar því þú kærir þig ekkert um okkur. Við skömmumst okkar fyrir þig. Nú byrjar þú að borga," stóð í bréfinu.

Árásin var fordæmd á vef Inter í gær. "Við lítum ekki á þetta sem verknað sannra stuðningsmanna Inter. Við erum mjög leiðir yfir þessum ódæðisverkum gagnvart leikmönnum okkar og við verðum að sjá til þess að þeir njóti fullkomins öryggis," sagði í tilkynningu frá félaginu.

Inter tapaði, 3:2, fyrir nágrönnunum í AC Milan í ítölsku 1. deildinni um helgina, eftir að hafa komist í 2:0.