Helgi Sæmundsson fæddist í Baldurshaga á Stokkseyri 17. júlí 1920. Hann lést á Landspítala í Fossvogi 18. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Ástríður Helgadóttir, húsmóðir, f. 28.8. 1883, d. 30.11. 1970, og Sæmundur Benediktsson, sjómaður, f. 6.12. 1879, d. 5. sept. 1955. Helgi var næstyngstur níu systkina. Þau eru: Benedikt Elías, vélstjóri, f. 7.10. 1907; Guðrún, húsmóðir, f. 19.2. 1909, d. 24.4. 1993; Anna, húsmóðir, f. 21.2. 1909, d. 26.3. 1998; Ástmundur, bóndi, f. 23.10.1910, d. 28.7. 1985; Þorvaldur, kennari, f. 20.9. 1918 og Ástbjartur, skrifstofumaður, f. 7.2. 1926. Tvö systkini Helga, Þorgerður og Ágúst, dóu í frumbernsku.

Helgi kvæntist 23. október 1943 eftirlifandi eiginkonu sinni, Valnýju Bárðardóttur, f. 24. október 1917. Valný er dóttir Guðlaugar Pétursdóttur, húsmóður, f. 13.8. 1895, d. 16.2. 1986, og Bárðar Jónassonar, sjómanns, f. 13.6. 1894, d. 25.7. 1964.

Helgi og Valný eignuðust níu syni. Þeir eru: 1) Helgi Elías, f. 31.5. 1944, eiginkona Ásdís Ásmundsdóttir, f. 1946. Synir þeirra eru: a) Ásmundur, f. 1969, í sambúð með Sigurborgu S. Guðmundsdóttur, og eiga þau þrjú börn: Líneyju, Helga Guðmund og Ásdísi Emblu; b) Helgi Sæmundur, f. 1975; c) Bárður Ingi, f. 1984. 2) Óskírður drengur (tvíburi) f. 31.5. 1944, d. sama dag. 3) Gunnar, f. 20.6. 1946, d. 6.1. 1947. 4) Gísli Már, f. 14.11. 1947. 5) Sæmundur, f. 5.7. 1949, d. 21.11. 1973. 6) Gunnar Hans, f. 4.5. 1951, eiginkona Sigrún Þórðardóttir, f. 1948. Börn þeirra eru: a) Þórður Viðar, f. 1975; b) Steinunn, f. 1978, í sambúð með Birgi Steini Björnssyni. Dóttir Steinunnar er Sigrún Ísgerður; c) Gunnar Ingi, f. 1987. 7) Óttar, f.5.5. 1953, d. 2.9. 1996, eiginkona Ásdís Stefánsdóttir, f. 1952. Dætur þeirra eru: a) Unnur Helga, f. 1970, gift Ólafi Ingvari Arnarsyni, þau eiga tvö börn, Örnu Dís og nýfæddan óskírðan son; b) Valný, f. 1975, í sambúð með Antoni Sigurðssyni. Þau eiga tvö börn: Birtu Mjöll og Óttar. 8) Sigurður Helgason, f. 1.10. 1954, eiginkona Anna B. Ólafsdóttir, f. 1951. Börn þeirra eru: a) Stefán Ólafur, f. 1978; b) Alma, f. 1981; c) Sigríður, f. 1983. 9) Bárður, f. 30.7. 1961, eiginkona Svanhildur Jónsdóttir, f. 1961. Börn þeirra eru: a) Ragnheiður, f. 1987; b) Helgi, f. 1990.

Helgi stundaði nám við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum 1936-1939 og lauk prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1940. Blaðamaður við Alþýðublaðið 1943-1952, ritstjóri Alþýðublaðsins 1952-1959. Starfsmaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1959-1990. Ritstjóri tímaritsins Andvara 1960-1972. Í menntamálaráði 1956-1971, form. ráðsins 1956-1967 og varaform. 1967-1971. Átti sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1952-1978 og oft formaður. Fulltrúi Íslands í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1961-1972. Helgi sendi frá sér sjö ljóðabækur. Þær eru: Sól yfir sundum, 1940 (æskuljóð); Sunnan í móti, 1975, 2. prentun 1984 (ljóð 1935-1975); Fjallasýn, 1977; Tíundir, 1979, (ljóð); Kertaljósið granna, 1981; Vefurinn sífelldi, 1987; Streymandi lindir, 1997 (ljóð).

Önnur ritverk: Sjá þann hinn mikla flokk, 1956 (palladómar undir dulnefninu Lúpus); Í minningarskyni, 1967, (greinar); Íslenskt skáldatal I og II, 1973 - 1976 (ásamt Hannesi Péturssyni). Auk þess þýddi Helgi margar bækur og eftir hann liggur fjöldi greina og ritgerða sem hann skrifaði í blöð og tímarit, einkum um bókmenntir og menningarmál. Þá bjó hann til prentunar ljóðasöfnin Rósir í mjöll eftir Vihjálm frá Skáholti, 1992, og Sóldagar eftir Guðmund Inga Kristjánsson, 1993. Helgi hóf ungur þátttöku í félagsmálum. Á skólaárum sínum var hann formaður Sambands bindindisfélaga í skólum. Hann átti sæti í stjórn Sambands ungra jafnaðarmanna og í miðstjórn Alþýðuflokksins. Hann var heiðursfélagi Karlakórsins Fóstbræðra. Einnig var hann heiðursfélagi í félaginu Akóges í Reykjavík.

Viðurkenningar: Móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar, 1956; verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, 1977.

Útför Helga verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

"Ætlarðu að taka við mig ævisagnaviðtal? Nei, fjandakornið! Ég er svo ungur enn. Hins vegar skal ég spjalla við þig um kveðskap, bæði minn og annarra; ég er hvort eð er á kafi í honum. Og ef eitthvað verður úr þessu vil ég fá að lesa próförk sjálfur, elskan mín. Ég þoli ekki prentvillur eins og þú veist; þær eru mesti sóðaskapur sem ég þekki; þær eru eins og óværa á fallegum kvenmanni..."

Þessi ummæli Helga Sæmundssonar rifjast upp fyrir mér, þegar ég blaða í fjörugu viðtali við hann sem birtist þegar hann var á sjötugsaldri. Helgi var einn af þeim öfundsverðu mönnum sem eru hafnir yfir allan aldur; hann breyttist bókstaflega ekkert þau rúmlega fjörutíu ár sem við þekktumst; var ævinlega snöfurmannlegur í framgöngu, hress í tali og skeleggur, fyndinn og málsnjall.

Ég get ekki stillt mig um að minnast Helga fáeinum orðum við fráfall hans í þakklætisskyni fyrir uppörvandi leiðsögn um ólgusjó blaðamennsku og skáldskapar. Hann var lærimeistari minn og örlagavaldur hvað ritstörf varðar; réð mig ungan prófarkalesara og síðan blaðamann við Alþýðublaðið, og æ síðan voru samskipti okkar náin og skemmtileg.

"Þú ert réttlátur, elskan mín," sagði hann gjarnan við þá, sem hann hafði velþóknun á, og ég var svo lánsamur að fylla flokk þeirra.

Helgi Sæmundsson var fæddur á Stokkseyri, en fluttist búferlum til Vestmannaeyja fimmtán ára gamall ásamt foreldrum sínum, Sæmundi Benediktssyni, sjómanni og verkamanni, og konu hans, Ástríði Helgadóttur. Hann hélt til Reykjavíkur og settist í Samvinnuskólann um það bil sem heimsstyrjöldin síðari var að hefjast. Sama árið og hann útskrifaðist þaðan sendi hann frá sér ljóðabókina Sól yfir sundum (1940), og henni var vel tekið, enda voru kvæði í þá daga lesin betur og af fleirum en nú; almenningur fjallaði um þau og skipti sér af þeim.

Í Eyjum hafði Helgi skrifað blaðagreinar og kunni því örlítið til verka á því sviði. Af þeim sökum hljóp hann í skarðið fyrir æskuvin sinn, Jón Helgason, sem þá var orðinn blaðamaður við Tímann. Einn góðan veðurdag árið 1943 var Helga svo boðin vinna við Alþýðublaðið og frá því sagði hann í áðurnefndu viðtali á þessa leið: "Fyrsta daginn átti ég að annast útlendar fréttir og fylla heila síðu. Mér var ekki leiðbeint hið minnsta; ég var bara lokaður inni í kamesi og sagt að hlusta á útvarpsstöðina BBC. Nú, mér tókst að skila því sem til var ætlast dag frá degi. Síðan fékk ég að spreyta mig á fleiri sviðum blaðamennskunnar - og á endanum varð ég ritstjóri blaðsins."

Helgi vann við Alþýðublaðið í sautján ár og var ritstjóri um helming þess tíma, eða 1952-1960. Stjórnmál og bókmenntir voru þeir málaflokkar, sem hann skrifaði mest um, og lét að sér kveða á báðum sviðum svo að eftir var tekið. Á veltiárum hernáms og tímum kalda stríðsins, þegar viðhorf til menningarmála gjörbreyttust, var hann einn áhrifamesti bókmenntagagnrýnandi landsins. Íslensk ljóðagerð stendur í þakkarskuld við hann, því að hann varð einna fyrstur manna til að viðurkenna formbyltingu ungra skálda. "Já, ég tók upp hanskann fyrir atómskáldin," sagði hann. "Þau sættu fordómum og ósanngirni og lentu í alveg einstaklega illvígri og fáránlegri styrjöld. Það var barið á þeim ómjúkum höndum, svo að vægt sé til orða tekið, og það hlaut að kalla fram gagnaðgerðir. Allt þetta tal um búning, rím og stuðla og slíkt, það voru deilur um keisarans skegg að mínum dómi." Um hlutverk sitt sem gagnrýnanda komst hann svo að orði: "Sumir tala illa um gagnrýnendur, eins og allir vita. Ég má náttúrlega ekki gera það, því að ég hef gamlan glæp á samviskunni. En nú orðið sé ég minnst eftir gagnrýninni af því sem ég gerði hér áður fyrr og veitti mér gleði og fullnægju. Það er ekki að öllu leyti hollt að fást við gagnrýni, sérstaklega ekki fyrir ungan mann sem ætlar sér sjálfur að verða skáld."

Svo fjölhæfur og slyngur var Helgi Sæm. að mestar vinsældir meðal landsmanna hlaut hann ekki fyrir opinber skrif um stjórnmál og skáldskap, heldur hliðarspor sín á þeim sviðum.

Árið 1955 tók hann þátt í útvarpsþætti Sveins Ásgeirssonar og botnaði vísur ásamt þrem öðrum stórsnillingum: Steini Steinarr, Karli Ísfeld og Guðmundi Sigurðssyni. Þeir félagar voru skemmtikraftar síns tíma; þjóðin öll fylgdist með þáttum þeirra, lærði utan að smellnustu vísurnar og hafði ærið gaman af. Þótt hraðinn skipti mestu máli í slíkum vísnaþáttum gátu stökur þeirra fjórmenninga verið dýrt kveðnar og vandaðar. Í þætti, sem haldinn var á heimaslóð Helga í samkomuhúsinu í Vestmannaeyjum, var svohljóðandi fyrriparti varpað fram.

Margur hrósar maður drós,

meðan ljósin skína.

Og Helgi botnaði um hæl:

Lampinn ósar út við fjós,

ertu að frjósa, Stína?

Í sama þætti áttu snillingarnir að glíma við vísuhelming sem var á þessa leið:

Oft hefur heimsins forsjón fín

fært mér gleði í raunum.

Helgi reyndist hraðkvæðastur eins og svo oft áður og mælti:

Það er meiri mæða en grín

að miðla skáldalaunum.

Þessi botn hefur áreiðanlega komið beint frá hjartanu, því að Helgi gegndi því vanþakkláta starfi um árabil að sitja í úthlutunarnefnd listamannalauna. Einnig var hann annar tveggja fulltrúa Íslands í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1961-1972, og síðast en ekki síst átti hann lengi sæti í Menntamálaráði Íslands, var tvívegis formaður þess, 1956-1959 og 1959-1967 en varaformaður 1967-1971. Er þá aðeins fátt eitt talið af þeim trúnaðarstörfum sem hann gegndi á sviði menningarmála.

Hitt hliðarsporið er palladómar um alþingismenn, sem Helgi skrifaði undir dulnefninu Lúpus og frægir hafa orðið; þeir birtust fyrst í blöðum en síðan ritinu Sjá þann hinn mikla flokk (1956). Þetta er listileg bók sem staðist hefur vel tímans tönn; fleytifull af litríkum mannlýsingum og óvæntum athugasemdum. Um Einar Olgeirsson sagði Lúpus meðal annars: "Honum lætur sýnu betur að bregða sér í háloftsflug hugsjónageimsins ofar rósrauðum skýjum en klöngrast um hrjósturlönd staðreyndanna." Og Ólafur Thors fékk þennan dóm: "Ef íslenskri stjórnmálabaráttu er líkt við tafl, þá er Ólafur Thors skákmeistarinn, hvort sem mönnum líkar betur eða verr."

Að loknu löngu starfi fyrir Alþýðublaðið gerðist Helgi starfsmaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs og var ómetanleg hjálparhella skáldum og fræðimönnum við útgáfu verka þeirra; einnig var hann ritstjóri Andvara 1960-1972. Í einkalífi sínu var hann gæfumaður; kvæntist hinn 23. október 1943 mikilli öndvegiskonu, Valnýju Bárðardóttur, sjómanns og verkamanns á Hellissandi Jónassonar - og þau eignuðust átta syni.

Enn er ótalinn sá þáttur í ævistarfi Helga sem honum sjálfum þótti mestu varða. Þrátt fyrir tímafreka blaðamennsku, umfangsmikil bókmenntaskrif og önnur afskipti af pólitík og menningarmálum vék ljóðagyðjan sjaldan langt frá honum fremur en öðrum sem ánetjast henni ungir. Hann birti öðru hverju kvæði í tímaritum, og árið 1975 valdi hann úr syrpu sinni og gaf út bókina Sunnan í móti, ljóð 1937-1975. Þegar ísinn hafði verið brotinn sigldi hver bókin í kjölfar annarrar: Fjallasýn (1977), Tíundir (1979), Kertaljósið granna (1981), Vefurinn sífelldi (1987) og Streymandi lindir (1997). Ef litið er yfir safnið kemur í ljós að ljóðin eru fjölbreytileg bæði að efni og ytri gerð. Helgi yrkir jöfnum höndum hefðbundið og frjálst og gerir ýmiss konar formtilraunir. Mest ber á náttúrustemmningum og tilfinningaljóðum, sem einkennast af vönduðu og fáguðu orðfæri, en víða nýtur sín einnig fljúgandi mælska hans og landsþekkt kímni.

Við tvenns konar aðstæður þótti mér persónuleiki Helga njóta sín sérstaklega vel. Annars vegar á veitingahúsum í hópi "réttlátra" vina, þegar samræðan hóf sig til flugs fyrir hans tilverknað, og hins vegar á ferð um landið þar sem hann lýsti náttúruundrum og sögustöðum í lifandi svipleiftrum. Dæmi um hið síðarnefnda er að finna í kvæðinu Við Skjálfanda sem lýkur þannig:

Héruð þessi hæfa tröllum

hömrum girt í djúpum sæ.

Fiskur vakir í fljótum öllum

og framsóknarmaður á hverjum bæ!

Sannarlega er skarð fyrir skildi og tilveran fátæklegri þegar Helgi Sæmundsson hefur horfið til nýrra heimkynna. Hans verður sárt saknað. Ég votta Valnýju, sonunum og öðrum aðstandendum innilegustu samúð og kveð minn kæra vin með tilvitnum í kvæði hans Vegurinn heim:

Senn er leiðin á enda,

sumarið horfin tíð.

Mun þó helkuldann lifa

minningin skær og blíð.

Gylfi Gröndal.

Látinn er í Reykjavík Helgi Sæmundsson, tengdafaðir minn, 83 ára að aldri.

Tengdafaðir minn var einstakur maður. Það sem einkenndi hann öðru fremur var lífsgleði. Hann kunni að njóta lífsins hvort sem var í góðum félagsskap vina og kunningja eða hin síðari ár meira í hópi fjölskyldu, barnabarna og barnabarnabarna. Alls staðar varð hann miðpunktur. Með hnyttnum tilsvörum og persónutöfrum hreif hann alla með sér. Sögumaður var hann mikill.

Ótrúleg þekking hans á mörgum sviðum var brunnur sem alltaf mátti sækja í. Engum hef ég kynnst, sem þekkt hefur jafn marga menn, lífs og liðna. Hvort sem það var bóndakona úr Flóanum, persóna úr Njálu eða rithöfundur frá Danmörku, aldrei var komið að tómum kofunum.

Annað sem mér þótti einkenna Helga var hlýja og kurteisi. Öll þau ár sem við höfum átt samleið féll aldrei styggðaryrði okkar á milli. Ef mig vantaði bók að láni úr bókasafni bókamannsins Helga var ekkert sjálfsagðara. Þess nutu líka barnabörnin. Þau leituðu óspart í fróðleikskistu afa síns þegar þau þurftu á að halda vegna skólanáms eða annars.

Helgi var samvinnuskólamenntaður, en ritstörf og bókmenntir urðu starfsvettvangur hans. Hið mikla bókasafn Helga var hans heilögu vé. Þangað dró hann sig í hlé frá erli dagsins. Og þá vildi Helgi gjarnan vera einn. Kannski var hann stundum að yrkja. Yfirleitt talaði hann ekki mikið um ljóðin sín. Allt í einu var bara komin bók.

Ræðusnillingur var hann og virtist alltaf tala átakalaust, en einu sinni trúði hann mér fyrir því að hann færi aldrei óundirbúinn í ræðupúlt. Slík var virðing hans fyrir hinu talaða orði.

Ég þekkti Helga best sem fjölskyldumann og afa. Barnabörnum sínum var hann afar kær og það var gagnkvæmt. Allir í fjölskyldunni nutu þess að heimsækja afa og ömmu á Miklubrautinni þar sem alltaf var glatt á hjalla og mikið spjallað. "Helgaklúbburinn" kveður foringja sinn og fjölskyldan kveður og saknar yndislegs manns.

Ásdís Ásmundsdóttir.

Margar góðar minningar leita fram í hugann er ég minnist tengdaföður míns Helga Sæm, nú á kveðjustundu.

Eitt af því fyrsta sem leitar fram í hugann er frásagnargleði hans, af bæði mönnum og málefnum. Ragnheiður dóttir mín heillaðist mjög af "snúðasögunni" hans þegar hún var barn að aldri, en sagan er á þann veg að Helgi, þá barn að aldri, var sendur til að kaupa nokkra snúða með kaffinu. Hann sneri hins vegar til baka með 40 snúða. Þetta þótti þeirri stuttu algjör snilld og skráði þessa sögu hjá sér.

Eftir að sonur minn fæddist gaf Helgi honum nafnið Kolur, enda strákurinn dökkur yfirlitum. Til þess að nafnið festist ekki við strákinn var hann færður til skírnar og gefið nafnið Helgi. Þetta þótti tengdaföður mínum afar vænt um og urðu þeir nafnar miklir mátar alla tíð. Ekki spillti heldur að sá stutti var KR-ingur eins og afinn, en tengdafaðir minn fylgdist vel með fótboltanum og fór á leiki þegar vel viðraði og heilsan leyfði. Hann hefur líka alltaf fylgst vel og náið með nafna sínum og langaði að lifa það að sjá strákinn fermast, sem því miður verður ekki.

Helgi hafði mikla ánægju af ferðalögum og var fullur tilhlökkunar fyrir allar ferðir. Ófáar ferðir fór hann með fjölskyldu, bræðrum og vinum sínum á æskuslóðirnar á Stokkseyri. Hann hafði í þeim ferðum frá mörgu að segja eins og venjulega. Ekki spillti það ánægjunni að enda ferðina á veitingastaðnum Við Fjöruborðið og fá sér humarsúpu.

Eina mjög eftirminnilega ferð fór ég með tengdaforeldrum mínum, en það var til Mallorka á Spáni. Þar fór tengdafaðir minn á kostum, fór með ljóð eftir þjóðskáldin okkar og gerði það bæði á hrífandi og áhrifaríkan hátt með sinni sérstöku röddu.

Í lokin langar mig að kveðja tengdaföður minn með ljóðinu hans Spánarmyndir, sem urðu honum að yrkisefni í þessari ferð okkar saman.

Sóldagana sé ég ennþá

sindra einsog litríkt vor.

Aldrei hverfur hugarsjónum

haustið mitt á Cala d'Or.

Húsaröð í brattri brekku

brosir við mér lángan dag,

þó mun eyjan yndislegust

undir gullið sólarlag.

Ölduleiðir bátar bruna,

bliki slær á sand og grjót.

Hláturmildar heimasætur

hraða sér á stefnumót.

Spænskir dansar duna léttir,

drottníng verður sérhver mær.

Loksins þegar ljósið dvínar

leikur um mig svalur blær.

Myndir þessar hug og hjarta

hressa eins og fagurt ljóð.

Sindrar enn um sálu mína

sólskinið á Spánarslóð.

Hvíl í friði.

Svanhildur Jónsdóttir.

Þegar ég íhuga þau einkenni sem helst prýddu hann afa kemur ýmislegt upp í hugann. Margir myndu vafalaust nefna lífsgleðina og húmorinn. Af þessu átti hann nóg eins og allir vita sem til hans þekktu eða fylgdust með þjóðlífi um og eftir miðbik síðustu aldar. Afi átti sér að vísu einnig bæði alvarlegri og rómantískari hlið svo sem kveðskapur hans vitnar um. Þessari hlið hélt hann alltaf að mestu út af fyrir sig. En afi var einnig frábær sagnamaður. Hann lifði bókstaflega fyrir að segja frá. Staðreyndir skiptu þá ekki meginmáli heldur fyrst og fremst frásagnargleðin. Það var einkum þetta þrennt, lífsgleðin, húmorinn og frásagnargleðin, sem fléttaðist saman í afa og gerði hann að því sem hann var. Erfitt er að taka einhvern einn þátt út án þess um leið að benda á annan. Þó verð ég að segja að það orð sem mér finnst lýsa afa betur en nokkurt annað er orðið kátur, hann var alltaf kátur.

Ekki er ólíklegt að hjartagallinn sem hrjáði afa framan af ævi og hann fékk raunar ekki bót á fyrr en árið 1965 hafi átt mikinn þátt í að móta þennan mikla sagnaáhuga. Veikindin gerðu það að verkum að hann gat ekki leikið sér eins og önnur börn. Í stað þess sökkti hann sér ofan í sögur og ljóð og bækur urðu hans bestu vinir.

Hann var alltaf afar félagslyndur og hafði unun af því að vera innan um fólk, ekki síst ungt fólk. Í raun og veru var afi síungur. Eftirminnilegar eru ferðirnar austur fyrir fjall. Þá var afi í essinu sínu og hver þúfa varð tilefni frásagnar. Við gátum alltaf rætt saman um allt milli himins og jarðar, Íslendingasögur, fótbolta, kveðskap, skák, pólitík og sögu. Alltaf var hann jafn einlægur og tilgerðarlaus í þessum samræðum. Það var alltaf jafn gaman að koma við á Miklubrautinni og fá að njóta þessarar dásamlegu frásagnargleði. Og ekki spillti fyrir ef amma skellti í pönnsur og afi dró fram smátár! Það er einkennilegt til þess að hugsa að þessar samræður verða nú ekki fleiri. Afi var mér fyrst og síðast kær vinur. Skarð er höggvið í "Helgaklúbbinn", sjálfur leiðtoginn genginn. Hvíli hann í friði.

Helgi Sæmundur Helgason.

Elsku afi minn.

Húmar hefur að kveldi,

hábjartur dagur hefur runnið sitt skeið.

Logandi ljómar stjörnuveldi,

lít ég yfir daginn sem leið.

Dagur er kominn að kveldi og þegar ég lít upp í himininn sé ég stjörnurnar vaka yfir mér.

Það rifjast upp ófáar stundirnar með þér þegar ég lít til baka. Allar ferðirnar í Sunnubúðina, á Miklatún, heima hjá ykkur ömmu á Miklubrautinni að teikna, tefla, spila kana eða hlusta á þig segja sögur. Þú hafðir að geyma mikinn fróðleik og kunnir heilan hafsjó af sögum. Maður gat alltaf gleymt sér við að hlusta á þig segja frá. Uppáhaldssagan mín er sagan af því þegar þú fórst út í búð til að kaupa snúðana. Henni mun ég aldrei gleyma. Ég hef alltaf verið mjög grobbin af því að þú sért afi minn. Þú ortir falleg ljóð og stóðst alltaf á skoðunum þínum, sama hver átti í hlut. Þú kenndir mér margt sem hefur gagnast mér vel í lífinu. Ég man þegar ég kom til þín fyrir nokkrum árum og spurði þig hvað þér þætti um lífið og þú sagðir einfaldlega: ,,Það er betra að lifa því en deyja." En nú er kominn tími til að kveðja, elsku afi minn, svo þú getir hafið ferð þína yfir á betri stað og vakað yfir okkur með hinum stjörnunum.

Kemur napur að norðan

næðíngur éli líkur

hverri sem lokar leið.

Allt sem vordísir vöktu

vonglaða sólskinsdaga

endar sitt aldursskeið.

Dauðann óttast ég ekki

óðum þó birta dvíni

að þegar feigð mín fer.

Horfinna vina hendur

handanvið myrkur grafar

taka á móti mér.

(Helgi Sæmundsson.)

Guð blessi þig.

Ragnheiður.

Mér er harmur í hug

þó að hlýni og birti.

Og ég reyni ekki að rekja

rætur sem liggja djúpt.

Allt sýnist eins og var

nema aðeins þetta

sem ég óttaðist einhvernveginn

alla tíð frá í haust.

Enn veit ég vor í nánd

því vetur er senn liðinn,

en gamalt tré í garði

grænkar aldrei á ný.

(Helgi Sæmundsson.)

Með sorg í hjarta kveðjum við afa okkar, Helga Sæmundsson. Við minnumst hlýju hans og góðvildar. Afi hafði alltaf brennandi áhuga á því sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur enda var á ferðinni maður sem var vel heima í öllu. Sterkur persónuleiki, gáfur og ofurminni hans kom okkur oft að góðum notum því að afi átti svör við flestu. Við ritgerðarsmíðar var ætíð hægt að leita andagiftar og upplýsinga hjá afa en bókasafn hans taldi nokkur þúsund bækur og allar þaullesnar. Þá lagði hann ávallt mikla áherslu á að við töluðum rétt og gott íslenskt mál. Efst í huga okkar er þó skopskyn hans og hnyttni og skemmtileg sýn á samferðafólkið og lífið yfirleitt. Hann var hafinn yfir þessa hversdagslegu grámyglu samtímans. Afi var fremur dulur á tilfinningar sínar en ljóðin hans eru til vitnis um tilfinningadýpt og mikla andagift. Megi hann hvíla í friði!

Alma, Sigríður og

Ólafur Sigurðarbörn.

Hann Helgi afi var mikill vinur minn. Við vorum saman í "Helgaklúbbnum", en þar eru allir nafnar ættarinnar. Afi tefldi stundum við mig og sagði sniðugar sögur.

Hann gaf mér ljóðið Barnshlátur, þegar ég var yngri og kveð ég afa minn með því ljóði með þökk fyrir allt.

Ég hélt að veröldin væri

vesælan mig að hugga,

neisti úr bálinu bjarta

brynni hér á glugga,

og feginn vildi ég, vorsól,

vonglaður heilsa þér,

en hrakinn af vetrarveðri

veit ég að þetta er,

blessuð - sem betur fer -

barn sem hlær við mér.

Helgi Bárðarson.

Ég sakna afa míns. Ekki er langt síðan við sátum og spjölluðum um fótbolta, daginn og veginn eða þá eitthvað sem hann hafði upplifað á sinni farsælu ævi. Þegar ég heyrði þessa frétt að hann væri horfinn yfir móðuna miklu fór ég að rifja upp fjölda augnablika frá æsku minni þegar ég var í pössun á Miklubrautinni. Ósjaldan gengum við þá saman út í Sunnubúð með innkaupalista sem hann og amma höfðu útbúið og hann gekk svo hratt og með svo löngum skrefum að ég þurfti að hlaupa til þess að halda í við hann. Þessi skref voru full af lífi, lífi sem nú er horfið, nema í formi minninga og ljóða sem hann skilur eftir sig. Hann var alltaf svo hress og kátur og grínið aldrei langt undan. Glettnar spurningar eins og "ert þú kommúnisti?" og ýmislegt fleira heyrði maður þegar maður gekk inn um dyrnar á Miklubrautinni án þess að maður vissi nokkuð hvað kommúnisti væri. En alltaf var hann barngóður og náði góðu sambandi við yngri meðlimi fjölskyldurinnar þó að aldursmunur væri mikill.

Nú er hann horfinn í faðm Guðs almáttugs þar sem hann á örugglega góða heimkomu. Megi Guð blessa ömmu og aðra í fjölskyldunni.

Bárður Ingi.

Ástkær afi minn og langafi er dáinn.

Afi hafði verið lagður inn á spítala daginn áður en hann dó. Um nóttina fékk hann hjartaáfall og sólarhring síðar var hann allur. Ég vildi ekki trúa því að afi væri dáinn, þegar pabbi hringdi og tilkynnti mér andlát hans. Afi og amma voru óaðskiljanleg, í orðsins fyllstu merkingu, og voru þau búin að vera gift í 60 ár.

Þegar ég sagði Sigrúnu "second" eins og afi kallaði hana í gríni að langafi væri dáinn, spurði hún hvað yrði nú um hann. Ég útskýrði fyrir henni að nú liði langafa vel hjá Guði þar sem allir englarnir myndu passa hann. Spurði þá Sigrún hver myndi þá passa langömmu og yrði hún þá alein. Eftir smáþögn sagði sú stutta: "Mamma mín, nú ætla ég að passa langömmu svo hún verði aldrei alein."

Það var svo gaman að heimsækja þig, afi minn. Þú varst alltaf að segja okkur skemmtilegar sögur um menn og málefni. Aldrei var komið að tómum kofunum hjá honum afa þegar kom að ættfræðinni. Hann gat rakið ættir okkar langt aftur í aldir og upplýsti okkur um að hið ólíklegasta fólk væri skylt okkur. Um leið og við Sigrún Ísgerður kveðjum elskulegan afa og langafa langar okkur að láta fylgja með lítið ljóð, Hughreysting, sem hann orti. Þar kemur fram óþrjótandi bjartsýni hans til handa börnum framtíðar og síðast en ekki síst umhyggjusemi, sem hann átti alltaf nóg af.

Hugsaðu ekki um náttmyrkur

og hræðstu ekki þögnina.

Þú ert ekki einn og yfirgefinn

á auðnarlegri strönd.

Horfðu upp til stjarnanna

Og hlustaðu eftir sjávarniði.

Vandaðu óskir þínar

Því þær verða uppfylltar

Þegar örlagastundin kemur

Með eilífð í faðmi sér.

Steinunn.

Í tæplega tvo áratugi hef ég átt samleið með Helga Sæmundssyni og fjölskyldu, þegar systir mín varð tengdadóttir hans. Þessari góðu fjölskyldu hefur verið ómetanlegt að kynnast. Heimili þeirra hefur verið okkur öllum opið á einstakan máta sem þeim einum var lagið, kunnu þau öðrum fremur að auðga og efla fjölskyldubönd svo úr varð stór fjölskylda, frændgarðs og vina, mannamunur ekki til og við sem komum úr ólíku umhverfi nutum virðingar og trausts, sem jafningjar.

Við nutum margra samverustunda, ferðalög farin sem Helgi var í forsæti fyrir, hvar sem staldrað var lukust upp dyr, staða sem heimsóttir voru, allir þekktu Helga og hann var óspar á að miðla af fróðleik sínum og viskubrunni jafnvel þar sem hann hafði aldrei farið.

Á hátíðarstundum í fjölskyldunni var hann hrókur alls fagnaðar og aðfangadagskvöld á liðnum árum höfum við átt saman, það eru forréttindi að hafa kynnst svo einstökum manni og konu hans Valnýju. Við erum fjölskylda, sagði hún eitt sinn við mig og eitt er víst að ég hef notið þeirrar góðu fjölskyldu sem er styrkur bæði í einkalífi og starfi. Afkomendur Helga og Valnýjar eru myndarlegur og velgerður hópur.

Ég kveð Helga Sæmundsson með virðingu og þökk og þakka fyrir "blíðskap og beinasemi" eins og hann sagði gjarnan eftir heimsóknir, hvort sem var á eigin heimili eða annarra og strauk hendi létt um vanga. Það er ótal margt sem hægt er að segja um Helga Sæmundsson, einn mætasta mann sem okkar þjóð hefur alið.

Megi minning hans sem hefur sett svip á menningu lands og þjóðar lifa sem lengst og djúp spor hans verða menningarheimur framtíðar. Samúðarkveðjur frá okkur hjónum til eiginkonu hans, sona og fjölskyldna þeirra. Það er gott að lesa ljóðin hans og kveð ég hann með ljóðinu "Vegurinn heim".

Senn er leiðin á enda,

sumarið horfin tíð.

Mun þó helkuldann lifa

minníngin skær og blíð.

Húmið skelfir mig eigi,

hljóðláta vetrarnótt.

Bráðum í mjúkri hvílu

blunda ég sælt og rótt.

Ljómandi stjörnuskari

leiftrar um dimman geim.

Ljósin í gluggum himins

lýsa mér - veginn heim.

Guðrún Jónsdóttir.

Fram til sigurs, menn og meyjar,

mótið frægð úr dagsins þraut...

Með þessum orðum úr ljóðinu Til lýðsins kvaddi sextán ára piltur sér hljóðs í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins 30. maí 1937, Helgi Sæmundsson. Næstu mánuði á eftir birtist fjöldi ljóða eftir þennan efnilega skáldmælta ungling. Þau sýna óvenjulegan þroska ungs manns. Engum leyndist heldur við lestur þeirra að í brjósti hans sló heitt hjarta jafnaðarmannsins. Samleið hans og Alþýðublaðsins varð líka langæ. Hann varð blaðamaður og síðar ritstjóri þess frá 1943 til 1959. Þegar ég varð sjálfur ritstjóri Alþýðublaðsins tæpum fjórum áratugum síðar fyrir orð Sighvats og Jóns Baldvins skimaði ég blaðið frá upphafi. Þá sá ég hversu afbragðsvel Alþýðublað Helga Sæmundssonar var skrifað. Hann var einstakur íslenskumaður og í Alþýðublaðinu bjó hann skáldum og rithöfundum gott skjól. Alla tíð var Helgi maður lista og menningar. Eftir að ritstjóraferli hans á Alþýðublaðinu lauk var hann starfsmaður á akri menningarinnar sem ritstjóri og forystumaður hjá Menningarsjóði.

Helgi Sæmundsson var ekki maður lítilla flokka. Hann átti sem jafnaðarmaður þá draumsýn að sameina jafnaðarmenn í stóra hreyfingu. Hann hafði um það þau orð í viðtali við fréttatímaritið Þjóðlíf í ársbyrjun 1990, áratug áður en Samfylkingin var gerð að stjórnmálaflokki, að klofningur vinstri manna hefði haft gífurleg áhrif til hins verra á íslenskt þjóðfélag, velferðarríkið væri mun veikara hér á landi en þar sem jafnaðarmannflokkar hefðu náð miklum árangri. ,,Öll skynsemi mælir með því að sameina Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið og það er óskynsamlegt að segja fólki að það sé ekki hægt," sagði Helgi og kvað jafnaðarmenn vera dreifða í mörgum flokkum sem ættu að heyra saman í stórri hreyfingu jafnaðarmanna. Sá tími rann upp og Samfylkingin varð að öflugum stjórnmálaflokki áður en Helgi varð allur. Sameinaðir jafnaðarmenn eiga honum skuld að gjalda.

Helgi bar öðru fremur listina í hjarta sínu, orðsins list. Hann var öllum eftirminnilegur fyrir persónutöfra sína í framsetningu á íslensku máli í útvarpi sem á prenti. Barnungur gerði hann ljóðið að vopni sínu og greip til þess æ síðan á lífsleiðinni. Hann sýndi ungur óvenjulegan þroska og úr lífi sínu gerði hann það sem hann hét sjálfur í æskuljóði sínu, - hann mótaði frægð úr dagsins þraut.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar.

Þegar ég hóf störf sem blaðamaður á Alþýðublaðinu 1953 var Helgi Sæmundsson ritstjóri á blaðinu. Hann bar þá blaðið uppi ásamt Sigvalda heitnum Hjálmarssyni, sem var fréttastjóri. Helgi var góður blaðamaður, mikill og góður penni, sem skrifaði sérstaklega gott íslenskt mál. Ritstjórnargreinar Helga vöktu ávallt athygli fyrir gott mál og ákveðnar skoðanir. Helgi var hafsjór af fróðleik. Hann vissi allt um bókmenntir, stjórnmál innan lands og utan og jafnvel um íþróttir. Hann fylgdist mjög vel með erlendum stjórnmálum, sérstaklega í Bretlandi og á Norðurlöndum. Hann talaði um leiðtoga jafnaðarmanna í löndum þessum eins og heimilisvini sína. Það var skemmtilegt að vinna með slíkum manni. Það var unnt að fletta upp í honum eins og orðabók. Helgi var mikill "húmoristi". Kom það vel fram í daglegu starfi hans og þegar hann flutti ræður.

Helgi var alla tíð róttækur jafnaðarmaður. Hann starfaði mikið í Alþýðuflokknum, var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn og valdist þar til trúnaðarstarfa. Hann var mikill hugsjónamaður og vildi breyta þjóðfélaginu í anda jafnaðarstefnunnar. Hann var óánægður með samstarf Alþýðuflokksins í ríkisstjórn við höfuðandstæðinga sína í stjórnmálum og lét það heyrast. Hann vildi engan afslátt á stefnumál jafnaðarmanna. Helgi var eftirsóttur ræðumaður á fundum og á skemmtunum innan Alþýðuflokksins og utan enda mjög góður og skemmtilegur ræðumaður.

Enda þótt Helgi hefði brennandi áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum almennt áttu bókmenntirnar þó hug hans allan. Það lá við, að Helgi læsi allar bækur, sem út komu. Hann skrifaði lengi bókmenntagagnrýni og var mjög fær á því sviði. Sjálfur var Helgi bæði skáld og rithöfundur. Hann orti ágæt ljóð og skrifaði mikið í óbundnu máli. Frægir urðu Palladómar hans um alþingismenn.

Ég kynntist Helga vel bæði á Alþýðublaðinu og í Alþýðuflokknum. Hann var góður drengur, heilsteyptur maður, góður baráttumaður fyrir málstað jafnaðarmanna og mikill bókmenntaunnandi. Hann átti oft við heilsuleysi að stríða en skilaði þó vel sínu dagsverki.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Valný Bárðardóttir. Ég votta henni og eftirlifandi sonum þeirra mína innilegustu samúð vegna fráfalls Helga. Drottinn blessi minningu hans.

Björgvin Guðmundsson.

Við Helgi Sæmundsson hittumst árlega síðustu áratugi. Ekki miklu oftar - en þá hittumst við líka svo um munaði. Við höfðum báðir hlutverki að gegna á menningarhátíð karlakórsins Fóstbræðra sem haldin er á þorra og á sér fjörutíu ára sögu og ríkar hefðir. Sá sem þetta ritar hefur stýrt hófi um nokkurt skeið en Helgi hefur lagt samkomunni lið á sviði bókmennta. Ekki síst vegna framlags Helga stóð samkoman undir nafni sem menningarhátíð - sú mesta sem haldin er hér á landi að vetrarlagi að mati Fóstbræðra. Þar fara Fóstbræður fremstir og gestir þeirra. Helgi stóð þessa vakt í áratugi og fór ávallt á kostum. Hann sagði okkur sögur af skáldum og skáldskap. Hann tók hlutverk sitt af þeirri alvöru sem hæfði og þess vegna varð úr dásamleg skemmtan. Strax upp úr áramótum ár hvert vorum við Helgi komnir í stuð og í góðan gír og vorum í stöðugu sambandi fram að hátíð. Oftar en ekki bað hann mig um að sækja sig heim til að ræða gamanið í fullri alvöru. Þá var notalegt að njóta gestrisni Valnýjar og þeirra hjóna beggja.

Við sem sækjum reglulega þessa menningarhátíð máttum vita að Helga nyti ekki við til eilífðar. Við Helgi ræddum það oft hve kátt hlyti að vera á menningarhátíðinni í sólheimum efra með nafngreindum Fóstbræðrum okkar þar og gestum þeirra. Á tímabili héldum við jafnvel að þeir hefðu vinninginn. Nú er enginn vafi um það lengur því mönnum okkar í dýrðarheimum bætist nú mikilsverður liðsauki. Það er ekkert nema tilhlökkunarefni að komast í þann glaða hóp. Þá verður sungið að hætti Fóstbræðra og sagðar sögur af listfengi vinar míns sem nú er genginn.

Ég sendi þeim öllum samúðarkveðjur sem nú syrgja Helga Sæmundsson.

Þorgeir J. Andrésson.

Helgi Sæmundsson skáld og ritstjóri hefur lokið göngu sinni og kvatt okkur sem vorum honum samferða um lengri eða skemmri tíma í andófi gegn auðvaldinu. Eitt sinn áttum við samleið upp Bankastrætið og sagðist Helgi ætla til bókakaupa hjá Máli og menningu. Ég benti honum á bókabúð Lárusar Blöndals þarna rétt hjá. Ég versla ekki við auðvaldið, svaraði hann. Helgi var jafnaðarmaður af þeim skóla sem þekkti þýðingu þess og inntak. Við ræddum þessi mál er við hittumst á kaffihúsi, á gangstétt eða í strætisvagni, m.a. þessa frægu skiptingu í kommúnisma og sósíalisma. Niðurstaðan í stuttu máli; markmið sósíalista er skipulagning eigin samfélags meðan kommúnistar stefndu að heimsbyltingu lengst af undir forræði Sovétríkjanna. Við vorum sammála um að sósíalisminn væri okkur gagnlegri og því skynsamlegri. Við vorum einnig sammála um að íslenskir sósíalistar, sem kölluðu sig krata, hefðu verið handónýtir lengst af og því hefðu flokkar sem nær stóðu kommúnistum fengið meira fylgi hér en í nágrannalöndunum. Um þetta sagði Helgi m.a.: Sumt fólk er svo víðsýnt að það sér ekki niðrá tærnar á sér. Hann var þó ekki fús að samþykkja það álit mitt að Héðinn Valdimarsson hefði verið eini íslenski sósíalistinn sem reis undir nafni, en mótmælti því ekki heldur. Kannski hefur hann í reynd verið mér sammála þótt málið væri of viðkvæmt til að viðurkenna það. Héðinn hefur lengi verið viðkvæmt umræðuefni. Hann lét m.a. reisa á kreppuárunum nær 900 íbúðir handa fátæku fólki í vesturbænum í Reykjavík og þakkirnar voru brottrekstur úr Alþýðuflokknum og síðar einnig úr Sósíalistaflokknum, sem hann tók þátt í að stofna, og loks úr formannsembætti Dagsbrúnar. Í nágrannalöndunum unnu verklýðshreyfing og samvinnuhreyfing saman að mótun samfélagsins undir forystu sósíalista, en ekki hér. Kaupfélögin hér voru nær eingöngu bændakaupfélög og flest horfin. Byggðastefnan drap samvinnuhreyfinguna.

Oft ræddum við hina frægu '68-kynslóð sem spratt upp er bandarísk stjórnvöld höfðu ráðist inn í Víetnam og heimtuðu unga fólkið í herinn. Margt ungt fólk neitaði, ekki síst stúdentar, og hóf mótmæli. Ráðamenn reyndu að brýna námsmenn með nauðsyn baráttunnar gegn kommúnismanum. Við erum sjálf kommúnistar söng unga fólkið og sótti alls kyns pönk í skúmaskot stórborganna og stillti upp á svið í rifnum fötum lét það öskra í hljóðnema; við erum alþýðan, við viljum frið. Og bissnessinn sá þarna nýtt tækifæri og dreifði þessu um allan heim. Þannig tókst það ótrúlega, að gera kommúnismann að amrískri tískustefnu. Stríðinu lauk og fólkið sneri sér aftur að námi og vinnu og samþykkti loks á fundi að kommúnisminn væri bull og nú kæmi í staðinn pólitík árangursins. Þá pólitík verðum við nú að þola. Ef árangursmenn eru spurðir um kommúnismann núna nefna þeir strax fataræflana og kalda stríðið. Lengra nær vitundin ekki.

Ég kynntist Helga fyrst persónulega er ég flutti Leigjendasamtökin í Alþýðuhús Reykjavíkur árið 1991, en þar var hann húsvanur. Nú hafa árangursmenn selt auðvaldinu húsið undir hótel, húsið sem alþýðan byggði sjálf handa samtökum sínum. Helgi Sæmundsson fór út í lífið þjáður af meðfæddum sjúkdómi og gat ekki unnið hvað sem var. Það setti örugglega mark sitt á störf hans og afstöðu. Það er dýrt að reka stórt heimili. Helgi kom víða við sögu, ekki síst í menningarmálum, og gaf sjálfur út margar ljóðabækur. Er ég tíndi saman einskonar úrval úr ljóðakverum mínum og Jóhann í Skákprenti gaf út sá Helgi um útgáfuna. Líf Helga Sæm. var áreiðanlega ekki létt, en hann lét ekki baslið smækka sig og hélt sinni reisn hvað sem yfir gekk. Það er sjónarsviptir að Helga Sæmundssyni, hann var einn skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst.

Ég sendi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Jón frá Pálmholti.

Dauðann óttast ég ekki

óðum þó birta dvíni

að þegar feigð mín fer.

Horfinna vina hendur

handanvið myrkur grafar

taka á móti mér.

(Helgi Sæmundsson.)

Um og eftir miðja öldina, sem leið, jafnvel fram á níunda áratuginn, var Helgi Sæmundsson þjóðkunnur sem snjall hagyrðingur, beinskeytur greinahöfundur og einn skemmtilegasti og skopvísasti maður þjóðarinnar. Þegar honum tókst best upp gat hann verið heillar spaugstofu virði. Hitt var ekki á margra vitorði að hann var skáld gott, átti jafnvel til að yrkja betur en páfinn þegar þannig lá á honum.

Gott var að eiga Helga Sæmundsson að vini. Hann var ekki einungis heimamaður í íslenskum skáldskap allra alda heldur einnig vel heima í erlendum bókmenntum. Einkum voru honum kærir norrænir höfundar enda málvinur ýmissa bestu skálda Skandinava á tuttugustu öld. Og hann var kunnugur mörgu öðru en rithöfundum og bókmenntum. Fátt mannlegt var honum óviðkomandi. Hann var hafsjór af fróðleik um menn og málefni, hann var gjörkunnugur sögu þjóðar okkar og minnið svo trútt að hann virtist ekki gleyma neinu sem hann hafði einhvers staðar og einhvern tímann heyrt eða lesið um menn og mannlíf annars staðar í heiminum. Hann var sem sé allra manna fjölfróðastur. Að því leyti var hann ef til vill líkari nítjándu aldar mönnum eins og Benedikt skáldi Gröndal en samtímamönnum sínum.

Hvar sem Helgi kom fyllti hann andrúmsloftið gleði og fróðleik. Oft fannst okkur að andríki hans sæti eftir í stofum okkar löngu eftir að hann var horfinn á braut. Það var einnig gaman að fara í bílferð með honum og konu hans. Hann var bílglaður maður, sparaði ekki spaugsyrðin, ræddi margt og fræddi um það sem fyrir augu bar. Síðustu ferð okkar með honum fórum við um Suðurnes í sumar sem leið. Þá kom hann meðal annars í kirkjugarðinn á Stað í Grindavík þar sem ýmsir forfeður hans hvíla. Þar þótti honum gott að vera þótt næðingur blési af hafi. Nú hefur hann haldið á vit þeirra vonum fyrr.

Í kvæðinu Að leiðarlokum segir Helgi Sæmundsson:

Trúarinnar traust og styrkur

tendrar von í döpru hjarta.

Eilífðin er ekki myrkur;

eilífðin er ljósið bjarta.

Nú er hann sjálfur horfinn inn í ljósið bjarta. Við Björg minnumst góðs vinar með virðingu og þökk og vottum Valnýju og öðrum ástvinum hans dýpstu samúð.

Ólafur Haukur Árnason.

Á lífsleiðinni kynnist maður fólki sem verður manni misminnisstætt og miskært.

Ég kynntist Helga Sæmundssyni fyrst fyrir rúmum tuttugu árum, er ég gerðist félagi í félaginu Akoges í Reykjavík, en þar hafði Helgi verið félagi lengi.

Í þessi tuttugu ár höfum við átt margar góðar stundir saman. Ég verð að viðurkenna að ég bar óttablandna virðingu fyrir þessum mikla menningarvita er ég hitti hann fyrst, en eftir því sem tíminn leið gleymdi ég því reyndar fljótt.

Helgi Sæm. er einhver skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Það var sama hvar borið var niður og um hvað var rætt, atvinnumál, stjórnmál, menningarmál eða hvað eina, alls staðar var hann heima. Hans ótrúlega skarpa hugsun kom fram í hans stuttu hnitmiðuðu og skemmtilegu tilsvörum.

Helgi var einn af aðal menningarvitum þjóðarinnar á seinni hluta síðustu aldar og var aðkoma hans að menningarmálum okkar mikil á þessu tímabili. Eitt af því sem mér fannst þó skemmtilegast var að heyra hann með sína sérkennilegu rödd fara með kvæði, þar var meistari á ferð og öllum ógleymanlegur sem á hlýddu.

Það eru forréttindi að hafa kynnst og umgengist mann eins og Helga. Ég kveð hann með virðingu og þökk.

Við Edda sendum Valnýju konu hans og fjölskyldu allri okkar innilegustu samúðarkveðju.

Blessuð sé minning Helga Sæmundssonar.

Magnús Ólafsson.

Einhvern veginn er eins og hans gæti hvergi sterkar en við suðurströndina, þessa eilífðar útsjávar, sem Stephan G. orti um forðum tíð. Og óvíða er hann máttugri, en þar sem hann öldum saman hefur sorfið skerin rétt utan við fjöruna við hinn forna Eyrarbakka, þ.e.a.s. á svæðinu milli ósa stórfljótanna, Ölfusár og Þjórsár. Og kúra þar þorpin Stokkseyri og Eyrarbakki, eins og til að minna mannskepnuna á smæð hennar og forgengileika gagnvart sköpunarverki almættisins, - móður náttúru.

Það var einmitt í fjörunni á Stokkseyri, að Helgi Sæm. skildi eftir spor í sandi og hélt með fjölskyldu sinni út til Eyja, hálf tvítugur maðurinn. En árin í Eyjum urðu ekki mörg. Nítján ára settist hann á skólabekk í Samvinnuskólanum í Reykjavík. Á samri stundu var hann orðinn eitt þessara fórsturbarna Reykjavíkur, sem henni hefur verið svo tamt að laða að sér, ýmist til ásta eða tómlætis.

Helgi Sæm. setti jafnan svip á mannlífið, ekki aðeins í Reykjavík, heldur um land allt. Maðurinn var nokkuð sérkennilegur í háttum og útliti og röddin án samjöfnunar við raddir annarra manna. Og hann hafði til að bera þá spaugsemi, sem aðeins fylgir alvörugefnum mönnum. En undir gamansömu yfirborðinu, ólgaði eldur heitra hugsjóna, sem víða gætir í ljóðum hans. Helgi Sæm. var nefnilega manngildissinni í anda jafnaðarstefnunnar.

Enda þótt Helgi væri einlægur jafnaðarmaður, var hann ekkert að sýta það, þótt aðrir hefðu frábrugðnar stjórnmálaskoðanir, svo fremi þeir sýndu af sér þann manndóm, að gaman væri að kljást við þá. "Pólitíkin á að vera skeiðvöllur gæðinga," sagði hann í Morgunblaðsviðtali, sem undirritaður tók við hann árið 1997. Því Helgi Sæm. var bardagamaður og hafði sem slíkur dálæti á hraustum andstæðingum. En það var með hann eins og aðra, sem líta stjórnmálin augum hins listræna bardagamanns; honum leiddust framsóknarmenn.

Og nú skal kvaddur Helgi Sæm. í Stokkseyrarfjörunni, þar sem eilífðar útsærinn minnist við sker og fjörusand. Það mun lengi móta fyrir sporum unglingsins í fjörunni þeirri arna.

Pjetur Hafstein Lárusson.

Ég átti því láni að fagna að kynnast Helga Sæmundssyni. Leiðir okkar lágu saman fyrir tilstuðlan Ingvars Ásmundssonar sem þá var formaður Sambands iðnmenntaskóla. Um nokkurra ára skeið las Helgi fyrir okkur prófarkir margvíslegra bóka og rita sem unnið var að til útgáfu. Það má kannski orða það svo að ég hafi verið í hlutverki vinnuveitandans og er skemmst frá því að segja að það hlutverk varð mér einstaklega ánægjulegt. Helgi var afburða prófarkalesari svo að aldrei skeikaði honum. Það er ekki ætlunin hér að fara mörgum orðum um færni hans á þessu sviði, því þegar við kynntumst var hann löngu þjóðkunnur fyrir margra hluta sakir, m.a. snilld sína í meðferð tungumálsins. Það vakti fljótt athygli mína hversu víðsýnn og frjálslyndur hann var, ekki aðeins í viðhorfi til máls og stíls, þar sem hann á hinn bóginn var mjög kröfuharður, heldur til allra mögulegra hluta annarra; - og svo var hann ekki aðeins einstaklega skemmtilegur þegar hann lét gamminn geisa heldur og ekki síður fyrir það hversu gífurlega fróður hann var og átti auðvelt með að koma fróðleiknum á framfæri. Við settumst oft á eintal og ræddum þá ýmislegt, langmest þó að ég hygg um tungumálið, bókmenntir og margan snillinginn á því sviði; sumum hverjum þeirra höfðum við reyndar báðir kynnst á lífsleiðinni.

Eftir að Helgi hætti að vinna fyrir okkur kom fyrir að hann heimsótti mig í vinnuna eða að ég hitti hann á förnum vegi. Það urðu mér a.m.k. ævinlega fagnaðarfundir og nokkurs virði. Þar kom oftast, að í samræðum okkar rak hann mig á gat á sinn ljúfa hátt og svo þegar við skildum og gengum til annarra verka þá strauk hann mér gjarnan um vangann um leið og hann horfði í augun á mér. Mér fannst vissulega auðvelt að skynja það sem hvorttveggja uppörvun og einlæga vináttu. Einu sinni ákváðum við að fara að Apavatni, þar sem ég á mér afdrep, og rifja upp liðna atburði sem vörðuðu á sínum tíma örlög Íslands. Tillaga Helga var m.a. sú að við mættum í þeirri ferð ekki láta undir höfuð leggjast að finna okkur einhvern góðan hól til þess að setjast upp á með viskípela í hendi og líta þaðan sögusviðið. Þessi Apavatnsför var því miður aldrei farin. Mikið óskaplega hefði það nú verið gaman. - Í mennta- og menningarlegu tilliti var Helgi Sæmundsson einn af stórhöfðingjum okkar á tuttugustu öld. - Aðstandendum hans votta ég innilega samúð mína.

Atli Rafn Kristinsson.