Marta Traustadóttir fæddist í Reykjavík 28. október 2001. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss við Hringbraut laugardaginn 14. febrúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Digraneskirkju 25. febrúar.

Um leið og við viljum kveðja fallega ljósgeislann hana Mörtu; engilinn sem staldraði allt of stutt við hjá okkur, vottum við ykkur, elsku Vigdís, Trausti, Saga, Kristjana, Guðmundur, fjölskyldum ykkar og vinum okkar dýpstu samúð. Engin orð megna það að lýsa hugrenningum okkar við fráfall frænku okkar nema ef vera skyldi þessi stutta hugleiðing Charles Henry Brent: "Hvað er að deyja? Ég stend á bryggjunni. Skúta siglir út sundið. Það er fögur sjón. Ég stend og horfi á eftir henni uns hún hverfur sjónum mínum við sjóndeildarhring. Einhver nærstaddur segir með trega í röddinni: "Hún er farin." Farin, hvert? Farin mínum sjónum séð, það er allt og sumt, hún heldur áfram siglingu sinni, með seglin þanin í sunnanþeynum, og ber áhöfn sína til annarrar hafnar.

Þótt skútan hafi fjarlægst mig, mynd hennar dofnað og loks horfið, þá er það aðeins fyrir augum mínum. Og á sömu stundu og einhver við hlið mér segir: "Hún er farin!" þá eru aðrir sem horfa með óþreyju á hana nálgast og hrópa: "Þarna kemur hún!" - og svona er að deyja."

Megi minningin um Mörtu litlu ljúfu lifa með okkur um ókomin ár. Guð blessi ykkur öll.

Jóhanna og Guðrún.

Í sálmi Hallgríms Péturssonar Um dauðans óvissu tíma, segir:

Lífið manns hratt fram hleypur

hafandi enga bið

í dauðans grimmar greipur

gröfin þá tekur við.

Allrar veraldar vegur

víkur að sama punkt

fetar þann fús sem tregur

hvort fellur létt eða þungt.

Í sálmi þessum minnir sr. Hallgrímur okkur á að lífið hafi enda hjá okkur mannfólkinu eins og öllu öðru sem lifir. Þegar sálmurinn "Um dauðans óvissu tíma" er sunginn hættir okkur til að tengja hann við brotthvarf fullorðins og gamals fólks úr þessum heimi en ekki kornabarna.

Við sem áttum Mörtu litlu að skiljum samt ekki þau grimmu örlög sem henni voru búin, að hún skuli hrifin burt úr þessum heimi áður en hún öðlaðist þann aldur og þroska sem við öll viljum sjá í börnunum okkar, áður en pabbi og mamma gátu kennt henni bænirnar sínar. Við getum hreint ekki skilið hvers vegna, og hver tilgangurinn er.

Þótt söknuðurinn sé mikill og örlögin svo grimm eru minningarnar samt ótal margar um þessa litlu manneskju sem fór svona hratt á lífsgöngu sinni.

Litla manneskjan hafði mótaðan karakter, hún var söngelskur gleðigjafi, lítill ljósgeisli með stór, blá spurul augu. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan hún söng hástöfum í jólaboðinu í Ásholti með frændsystkinum sínum: "Skín í rauða skotthúfu skuggalangan daginn." Þannig viljum við muna hana í fína jólakjólnum sínum að leika og syngja í góðra vina hópi.

Við fjölskyldan, frændfólk og vinir í Ásholti 3 í Mosfellsbæ, sendum Trausta frænda, Vigdísi og Sögu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við viljum tileinka minningu um Mörtu litlu kvæðinu "Eftir barn", sem Friðrik Guðni Þórleifsson orti:

Þau ljós sem skærast lýsa,

Þau ljós sem skína glaðast

Þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

En skinið logaskæra

sem skamma stund oss gladdi

það kveikti ást og yndi

með öllum sem það kvaddi.

Þótt burt úr heimi hörðum

nú hverfi ljósið bjarta

þá situr eftir ylur

í okkar mædda hjarta.

Hilmar og Guðrún.

Elsku Vigdís og Trausti. Okkur langar að þakka ykkur fyrir að skapa þennan litla sólargeisla sem hún Marta ykkar var. Þessi engill, sem einungis var hjá okkur í tvö ár, náði að snerta svo mörg hjörtu og skilja svo mikið eftir sig. Hún lýsti allt upp hvar sem hún kom. Við munum aldrei skilja af hverju litli engillinn ykkar þurfti að fara. En við erum innilega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast henni. Það er ekkert sem við getum sagt sem getur huggað ykkur. Elsku Vigdís, Trausti og fjölskylda. Þið eruð í huga okkar og hjarta.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesú, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer,

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Fjölskyldan í Skála.

Að kveðja barn sitt hinstu kveðju er án efa sárara en orð fá lýst. Elsku Marta litla er nú fallin sviplega frá og þungar byrðar lagðar á vini okkar, Vigdísi, Trausta og Sögu. Ævi Mörtu var stutt en gæfurík því hún átti yndislega og samheldna fjölskyldu. Huggunarorð segja lítið á stund sem þessari, en megi Guð styrkja alla þá sem eiga um sárt að binda.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Prestshólum.)

Fjölskyldu og vinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Guð geymi elsku Mörtu litlu.

Berglind, Helga, Ragnhildur, Steinunn og fjölskyldur.

"Hún Marta er engill hjá Guði, alveg eins og mamma hennar Línu Langsokks." Þetta sagði Andri Már á leiðinni í leikskólann einn morguninn í síðustu viku. Lítil börn geta sjaldnast sagt nokkuð annað en sannleikann og svo er einnig nú. Við munum alltaf hugsa um Mörtu sem lítinn engil sem yljaði okkur með ljósu lokkunum sínum og stóru augunum.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Á svona stundum er ekkert hægt annað en að vera til staðar fyrir fjölskylduna hennar Mörtu og veita þeim þann stuðning sem hægt er. Elsku Saga, Vigdís og Trausti, þið megið vita að við verðum alltaf til staðar fyrir ykkur.

Andri Már, Margrét og Tómas.

Elsku litla vinkonan mín hún Marta er dáin, hún er núna fallegur engill hjá Guði. Ég og mamma sátum saman um daginn með mynd af henni og kertaljós og ég var að hugsa til hennar, ég fór bæði að gráta og brosa, það voru svo margar góðar og skemmtilegar minningar. Marta var alltaf kát og glöð þegar ég kom í heimsókn til Sögu, við sátum oft allar saman í sófanum og horfðum á barnatímann, Mörtu fannst Bubbi byggir skemmtilegur og líka Lína.

Ég man þegar ég og Saga vorum úti á róló og Vigdís kom með Mörtu og ég fékk að ýta henni í rólunni, hún fór að hlæja og fannst það æðislega gaman. Ég man líka þegar við vorum úti að leika okkur síðasta sumar fyrir utan húsið okkar, við vorum með vatn í fötu og vorum að hella því á stéttina, ég fór síðan að tromma á stéttina og Marta fór að dansa, hún var svo sæt.

Ég á margar svona góðar minningar um Mörtu og ég sakna hennar svo mikið að ég fæ verk í hjartað, mig langar svo að halda utan um hana. En þó að Marta sé dáin þá verður hún samt alltaf vinkona mín og verður alltaf í hjarta mínu.

Elsku Trausti, Vigdís og Saga, ég, mamma, pabbi og Erla María biðjum guð um að gefa ykkur og ættingjum styrk á þessum erfiðu tímum.

Rakel.

Elsku litla vinkona, hver hefði getað trúað því að þinn tími hér með okkur yrði svona stuttur. Þú nýttir tímann þinn vel, varst sannur gleðigjafi, síbrosandi lítill engill með ljósar krullur. Þannig munum við minnast þín, litla trítla.

Elsku bestu vinir okkar, Trausti, Vigdís og Saga. Megi sá styrkur og samheldni sem einkennt hefur ykkar fjölskyldu verða ykkur styrkur og stoð á þessum erfiðu tímum.

Fjölskyldum ykkar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Halldór, Hildur, Andri Páll og Lana Kristín.

Mamma kallaði þig alltaf ljóshærða engilinn með fallegu augun fyrir þrjá og þannig var þér best lýst.

Það er sárt að þurfa að kveðja svona ungur svona ungan vin og þetta er eitthvað sem ég á mjög erfitt með að skilja.

En ég bið á hverju kvöldi góðan guð og englana að passa þig og þurrka tárin hjá mömmu þinni, pabba og Sögu stóru systur.

Bless, elsku Marta, sakna þín sárt. Þinn vinur

Stefán Ingi.

Legg ég nú bæði líf og önd,

ljúfi Jesús, í þína hönd,

síðast þegar ég sofna fer

sitji Guðs englar yfir mér.

(Hallgr. Pét.)

Elsku litla Marta er dáin. Við erum öll harmi slegin. Ljúfsárar minningar um skemmtilegar samverustundir í Björtusölum og víðs vegar um landið koma upp í hugann. Minningin um glaðlyndu stelpuna með stóru augun og ljósu krullurnar mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Elsku Trausti, Vigdís og Saga, þið hafið misst engilinn ykkar. Engin orð fá lýst samúð okkar og harmi á þessari sorgarstundu. Megi minningin um yndislega stelpu sem aldrei hverfur, lina sárustu sorgina og hjálpa ykkur í gegnum þennan erfiða tíma.

Atli, Birna og Sara.

Það er mikil sorg hjá börnunum og starfsfólkinu á Fífusölum. Marta litla er dáin. Aldrei aftur fáum við að heyra hláturinn hennar, grátinn hennar eða horfa í stóru augun hennar. Marta byrjaði á Leikskólanum Fífusölum 1. nóv. 2002, þá rétt orðin eins árs. Hún var að byrja að taka sín fyrstu spor og tjá sig með orðum. Á þessu rúma ári fylgdumst við með henni þroskast og stækka. Marta lærði snemma að tala og það var ósjaldan sem hún heyrðist segja: "Ég sjálf." Sjálfstæði hennar og einbeitni smitaði okkur hin og ófá skiptin áttum við erfitt með að halda aftur af hlátrinum þegar hún "vildi sjálf". Hún varð strax hvers manns hugljúfi, hún fór beint inn í hjarta allra sem sáu hana. Marta hafði sterkan persónuleika og ákveðnar skoðanir á hlutunum. Hún valdi sér sjálf þá starfsmenn sem hún vildi að sinntu sér. Eldri börnin tóku að sér að vernda hana og oft var hún notuð sem litla barnið í leik, en undir það síðasta heyrðist hún segja: "Ég vil ekki vera litla barnið."

Það verður erfitt að eiga ekki eftir að sjá hana aftur. Sárastur er þó harmur fjölskyldunnar. Við biðjum algóðan Guð að styrkja Vigdísi og Trausta og stóru systur, hana Sögu.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Börn og starfsfólk

á leikskólanum Fífusölum.

Hún var ekki há í loftinu hún Marta mín, þegar hún hóf leikskólagöngu sína á deildinni hjá mér, Jónínu, Margréti, Nóa og öllum krökkunum á Lind. Rétt tæplega eins árs var hún, ekki farin að ganga og við starfsfólkið mynduðum strax eins konar varnarnet um hana. Eiginlega má segja að við höfum ofverndað hana fyrst um sinn en fljótlega sáum við að Marta var meira en fullfær um að bjarga sér sjálf þótt hún væri minnst af öllum. Marta hafði líka sterkan vilja og lét okkur hafa fyrir því að vinna sig á okkar band fyrstu vikurnar, en eftir það var líka allt upp á við. Hún var fljót að læra, fannst gaman að nánast öllu sem í boði var í leikskólanum, var hvers manns hugljúfi og alveg sérlega falleg. Í matartímunum fannst Mörtu gaman að fá Sögu systur til sín, en hún laumaðist stundum af deildinni sinni til að stela kossi hjá Mörtu sinni. Maður sá kærleikann á milli þeirra systra langar leiðir og mikið hlýtur að vera erfitt fyrir elsku Sögu litlu að skilja lífið núna. Aldur Mörtu varð ekki hár í árum talið en það sem hún skilur eftir sig í mínu lífi er margt og fallegt og mun fylgja mér í mínu lífi og starfi. Þegar ég fór í barneignarleyfi fannst mér gott að hitta Mörtu annað slagið á leikskólanum og fá smá knús. Gaman var að sjá hvað hún stækkaði í vetur, gullnu lokkarnir síkkuðu og hún spjallaði heil ósköp. Það er algjörlega óskiljanlegt að svona hafi farið fyrir elskunni litlu en í huga mér er Marta núna á góðum stað, heillandi alla í kringum sig eins og henni var svo lagið að gera hér hjá okkur.

Elsku Vigdís, Trausti og Saga; mína dýpstu og innilegustu samúð votta ég ykkur og bið Guð að senda ykkur styrk í sorginni. Ömmum, öfum og öllum ástvinum Mörtu votta ég einnig samúð mína. Minningin um fallega og góða stúlku mun lifa og milda sárustu sorgina.

Elsku Marta mín; takk fyrir þann dýrmæta tíma sem ég fékk að eiga með þér. Fallegu augun þín eiga eftir að ljóma í huga mínum um ókomin ár og minningarnar um þig verða í hjarta mér að eilífu. Hvíldu í Guðs friði, elsku vinan mín.

Sofi augu mín

vaki hjarta mitt,

horfi ég til Guðs míns.

Signdu mig sofandi,

varðveittu mig vakandi,

lát mig í þínum friði sofa

og í eilífu ljósi vaka.

(Gömul bæn.)

Þín vinkona,

Særún.

Það var fallegur dagur þegar Vigdís hringdi í mig og spurði hvort þau Trausti mættu fá nafnið mitt lánað. Hvílíkur heiður að þau skyldu vilja gefa nýfæddri dóttur nafnið mitt. Aldrei hefði ég getað trúað því að svo fáum árum síðar ætti ég eftir að þurfa að kveðja nöfnu mína. Það er erfitt að hugsa til þess að fá ekki að sjá Mörtu vaxa úr grasi. Hún var blíðlynd, hlý og kát því alltaf var stutt í brosið, eins og sambland af lítilli kvikmyndastjörnu og litlum engli. Ég var heppin að fá að kynnast henni, fara í sund með þeim mæðgunum og fíflast með systrunum, Sögu og Mörtu. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, þótt það sé sárt að hugsa til þess að þær verði ekki fleiri.

Elsku Vigdís, Trausti og Saga, ég samhryggist ykkur innilega og vona að þið getið hjálpað hvert öðru og styrkt hvert annað í sorginni. Þið eruð samhent og sterk fjölskylda.

Marta María Jónsdóttir.