Vilborg Áslaug Sigurðardóttir (Villa) fæddist í Hafnarfirði 11. júlí 1928. Hún andaðist á Landspítala Fossvogi 19. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Sigurður G.I. Guðmundsson, f. 1. júlí 1900, d. 3. nóvember 1985, og Kristjana Hannesdóttir, f. 19. maí 1900, d. 26. júní 1990, sem búsett voru á Steinum í Hafnarfirði. Vilborg var annað barn foreldra sinna, eldri systir hennar var Hulda Hansen, sem búsett var í Bandaríkjunum.

Barnsfaðir Vilborgar er Jóhann Sigmundsson, f. 5. apríl 1927. Sonur þeirra var Sigurður Hannes Jóhannsson, f. 4. október 1949, d. 28. júní 1997. Eftirlifandi eiginkona hans er Sigurbjörg Hilmarsdóttir, f. 27. febrúar 1952. Dætur þeirra eru Vilborg Áslaug, f. 13. júní 1970, Guðrún Karla, f. 9. ágúst 1972, Ingibjörg, f. 18. júní 1976, og Kristjana Ósk, f. 30. september 1983.

Útför Vilborgar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku amma, nú ert þú farin frá okkur. Þú varst ótrúlega dugleg og sterk kona, fórst í sund á hverjum degi, labbaðir mikið og lést þér ekkert fyrir brjósti brenna. Á mánudögum spilaðir þú á spil með eldri borgurum og þér fannst alveg ómögulegt að missa af þeim stundum. Þú varst mikið náttúrubarn, hafðir yndi af allri ræktun og settir niður kartöflur á hverju einasta ári. Þó að kartöflugarðurinn hafi minnkað með árunum fannst þér óhugsandi að sleppa því alveg.

Við áttum margar góðar stundir saman og það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki framar komið til þín á Hamarsbrautina eða talað við þig í síma á kvöldin, eins og við gerðum nánast daglega.

Elsku amma, ég sakna þín mikið. Hvíl þú í friði.

Vilborg Á. Sigurðardóttir.