Leó Guðlaugsson, húsasmíðameistari í Kópavogi, fæddist á Kletti í Geiradal í Barðastrandarsýslu 27. mars 1909. Hann lést í Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 14. febrúar síðastliðinn. Foreldrar Leós voru Guðlaugur Guðmundsson og Sigurlína Guðmundsdóttir, bæði ættuð af Ströndum. Sigurlína lést ung frá barnahópnum og voru börnin þá tekin í fóstur hjá vinum og skyldmennum á Ströndum og í Barðastrandarsýslu. Systkini Leós, sem öll eru nú látin, voru: Pétur, skósmiður í Reykjavík, Guðmundur, sölumaður lengst af í Bandaríkjunum og síðar í Reykjavík, Magðalena, ljósmóðir og húsfreyja á Þambárvöllum í Bitrufirði, Guðrún, húsmóðir á Drangsnesi og Akranesi, Benedikt, garðyrkubóndi í Víðigerði í Borgarfirði, og Arnór Aðalsteinn, lengst af starfmaður hjá Sambandinu í Reykjavík, bjó í Kópavogi. Leó ólst upp hjá Skúla Guðmundssyni, föðurbróður sínum, og Ólöfu Jónsdóttur, eiginkonu hans, á Þambárvöllum í Bitrufirði. Þar var systir hans Magdalena einnig fóstruð.

Leó kvæntist 18. desember 1943 Soffíu Eygló Jónsdóttur frá Stóra-Skipholti á Bráðræðisholti í Reykjavík, f. 3. nóvember 1916, d. 3. janúar 1999. Synir Leós og Soffíu eru: 1) Trausti byggingafræðingur, f. 31.8. 1946, kvæntur Þyri K. Árnadóttur menntaskólakennara. Börn Trausta og Þyriar eru: Silja arkitekt, f. 27.2. 1974, gift dr. Florian Zink, þau eiga eina dóttur; Tumi, líffræðingur og doktorsnemi í skógarvistfræði í Alaska, f. 26.7. 1975, sambýliskona Jennifer Arsenau þjóðgarðsvörður; og Sindri líffræðinemi, f. 2.3. 1981. 2) Guðlaugur leiðbeinandi, f. 1.8. 1955. 3) Þórir Jón Axelsson f. 26.8. 1936, sonur Eyglóar, er fóstursonur Leós. Kona Þóris er Lilja Eyjólfsdóttir. Synir þeirra eru: Valgeir vélvirki, f. 14.4. 1961, kvæntur Sigurbjörgu J. Vilhjálmsdóttur, þau eiga eina dóttur; Jón Helgi, tæknifræðingur, f. 17.11. 1962; og Birgir f. 13.5. 1965, kvæntur Árnýju S. Eggertsdóttur. Þau eiga tvö börn.

Leó nam húsasmíði á Borðeyri, lauk sveinsprófi árið 1931 og fékk meistarabréf árið 1940. Hann vann við smíðar í Húnavatns- og Strandasýslu, m.a. við síldarverksmiðjurnar á Djúpavík og Hjalteyri, og sá um byggingu SR-46 á Siglufirði. Árið 1947 vann hann við byggingu Gönguskarðsárvirkjunar í Skagafirði og frá 1947 til 1952 var hann starfsmaður Kveldúlfs við síldarverksmiðjuna á Hjalteyri við Eyjafjörð. Eftir það starfaði Leó við byggingar á höfuðborgarsvæðinu, utan tvö sumur sem hann vann við byggingu Rjúkandavirkjunar í Ólafsvík. Leó tók mikinn þátt í félagsmálum og stjórnmálaumræðu. Hann var m.a. formaður Sósíalistafélags Kópavogs, í stjórn og samninganefndum Meistarafélags húsasmiða, sat í byggingarnefnd og fleiri nefndum í Kópavogi, var í stjórn Lionsklúbbs Kópavogs og um árabil var hann formaður Skógræktarfélags Kópavogs.

Útför Leós fer fram frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Mig langar að minnast afa míns Leós með fáeinum orðum. Honum á ég margt að þakka en ekki síst skógræktaráhugann. Afi var einn af frumherjurm skógræktarmanna í landinu og boðaði nauðsyn skógræktar af staðfestu og sannfæringu. Við áttum margar líflegar samræður um hvernig best væri að klæða landið og seinna þegar ég fór að vinna hjá skógræktinni á Mógilsá vorum við afi jafn stoltir hvor af öðrum. Hæst bar þó þegar við fórum saman í Gunnarsholt þar sem afa voru veitt landgræðsluverðlaunin fyrir afburða starf í þágu skógræktar í landinu, einkum fyrir birkifræsöfnun.

Ég sakna þess að hafa ekki náð að kveðja hann hinsta sinni þar sem ég er staddur erlendis við nám í skógarvistfræði, en hugsa hlýlega til hans og með þakklæti fyrir allar góðu stundirnar.

Tumi Traustason,

Fairbanks, Alaska.

Hann Leó, föðurbróðir okkar og nábúi, er látinn á nítugasta og fimmta aldursári. Hann var næstyngstur systkina sinna, en þau eru nú öll látin.

Leó og Eygló eiginkona hans, sem lést fyrir nokkrum árum, voru ein af frumbyggjum Kópavogs. Þau reistu sér hús á Víghólastíg 20 árið 1952, og á næstu lóð byggðu foreldrar okkar hús sitt. Bjuggu þau um hríð hjá Leó og Eygló, meðan á byggingu húss þeirra stóð. Leó og Eygló reyndust okkur mjög vel á þessum tíma. Leó, sem var húsasmíðameistari, aðstoðaði okkur eftir megni við bygginguna. Það varð talsverður samgangur á milli heimilanna enda lágu lóðirnar saman og fjölskyldurnar þar að auki tengdar bræðraböndum.

Leó var mikill framkvæmdamaður og starfaði sem húsasmíðameistari fyrir Almenna byggingafélagið um árabil. Á sínum yngri árum tók hann þátt í byggingu þekktra mannvirkja bæði hér í Reykjavík og úti á landsbyggðinni. Meðal þeirra bygginga eru verslunarmiðstöðin Suðurver í Reykjavík, hús Sölu varnarliðseigna við Grensásveg og Síldarverksmiðjan á Siglufirði, svo nokkrar byggingar séu nefndar, en auk þess átti hann þátt í byggingu nokkurra smærri mannvirkja bæði á Norðurlandi og á Vesturlandi. Hann sat um tíma í stjórn meistarafélags húsasmiða.

Leó var mikill hugsjónamaður og fékk snemma mikinn áhuga á skógrækt. Lóð hans við Víghólastíg ber skýr merki þessa áhugamáls hans. Hann safnaði birkifræi um árabil og fékk fyrir það viðurkenningu Landgræðslunnar fyrir nokkrum árum. Hann var um árabil í forystusveit Skógræktarfélags Kópavogs og fékk meðal annars viðurkenningu fyrir ræktunarmál frá Umhverfisráði Kópavogs fyrir störf sín í þágu skógræktar. Hann var einnig einn af frumkvöðlum skógræktar að Fossá í Hvalfirði.

Hann var virkur félagi í Lionsklúbbi Kópavogs um áratuga skeið og sótti þar reglulega fundi þrátt fyrir háan aldur og þann síðasta aðeins nokkrum dögum fyrir andlát sitt.

Leó hafði mjög ákveðnar skoðanir á stjórnmálum og var mjög vinstrisinnaður alla sína ævi. Hann tók á sínum tíma virkan þátt í starfi Sósíalistafélags Kópavogs. Hann sat í ýmsum pólitískum nefndum og ráðum í bænum, meðal annars í byggingarnefnd, í umferðarnefnd og auk þess í framtalsnefnd.

Þó ekki hafi verið mikill beinn samgangur milli okkar og Leós síðustu árin fylgdumst við með honum í gegnum móður okkar sem ennþá býr í sínu húsi við Digranesheiðina. Leó hélt heimili með Guðlaugi yngri syni sínum og var það heilsuhraustur að hann gat búið heima á Víghólastígnum allt þar til fyrir nokkrum vikum að hann var lagður inn í Sunnuhlíð sér til hressingar. Þar lést hann hinn 14. febrúar sl., réttu ári eftir að faðir okkar dó.

Við minnumst Leós með virðingu, hlýhug og þakklæti og vottum frændum okkar Trausta og fjölskyldu, og Guðlaugi dýpstu samúð okkar.

Hvíl þú í friði, Guð blessi minningu þína.

Arnór, Þuríður, Guðbjörn og Svanfríður I. Arnkelsdóttir.

Með örfáum orðum langar okkur að minnast föðurbróður okkar, Leós Guðlaugssonar, sem lést á 95. aldursári hinn 14. febrúar síðastliðinn.

Leó var næstyngstur sjö systkina. Hann var fæddur á Kletti í Geiradal 27. mars 1909. Frá fjögurra ára aldri ólst hann upp á Þambárvöllum í Bitru.

Strax á unga aldri hneigðist hann mjög til alls kyns smíða og stefndi hugur hans til náms í vélsmíði. Hann sótti um í Vélsmiðju Guðmundar Sigurðssonar á Þingeyri, en fékk ekki. Um sama leyti bauðst honum nám í húsasmíði hjá Ólafi Jónssyni á Borðeyri og lauk hann þar sveinsprófi árið 1931. Eftir það vann hann við byggingar víða um land, meðal annars við síldarverksmiðjur og orkuver.

Fyrstu minningar okkar um Leó eru frá því hann aðstoðaði foreldra okkar við uppbyggingu á garðyrkjubýlinu Víðigerði í Borgarfirði. Þar var hann viðloðandi meira og minna á árunum 1940-1945. Minntist hann þess oft síðar með mikilli ánægju að hafa tekið þátt í þessum framkvæmdum. Þegar við vorum börn í Víðigerði þótti okkur mikið til þess koma þegar Leó kom í heimsókn, því ætíð kom hann akandi á eigin bíl, sem var ekki algilt í þá daga. Hann var bíleigandi og ók sínum bíl þar til um nírætt.

Ekki verður hans minnst án þess að upp komi í huga manns hversu afburða handlaginn og útsjónarsamur hann var við allar smíðar, bæði á tré og járn. Á seinni árum stundaði hann nokkuð trérennismíðar og liggja eftir hann margir forkunnarfagrir gripir, sem meira að segja voru notaðir sem gjafir til erlendra þjóðhöfðingja. Eftir að hann komst á eftirlaunaaldur taldi hann ekki eftir sér að koma og byggja heimilisgróðurhús eða dytta að sumarbústöðum fyrir okkur. Allt þetta fórst honum jafn vel úr hendi. Leó var mikill áhugamaður um skógrækt. Þar áttu þeir sameiginlegt áhugamál, hann og faðir okkar. Hann var formaður Skógræktarfélags Kópavogs um árabil og það var gaman að fara með honum að Fossá í Hvalfirði en félagið á þá jörð. Um árabil safnaði hann ógrynni af birkifræi sem hann afhenti Landgræðslu ríkisins, og hlaut heiður fyrir.

Síðustu mánuðina dvaldi Leó á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Fram að þeim tíma bjó hann heima og naut umhyggju Guðlaugs sonar síns.

Við biðjum honum blessunar Guðs og vottum sonum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Systkinin frá Víðigerði,

Gunnar, Kristján, Guðrún

og Kirstin Benediktsbörn

og fjölskyldur.

Kveðja frá Skógræktarfélagi Kópavogs

Látinn er í hárri elli Leó Guðlaugsson fv. formaður Skógræktarfélag Kópavogs.

Leó var mikill hugjónamaður þegar skógrækt bar á góma og sinni því áhugamáli sínu af mikill elju meðan kraftar leyfðu. Við sem störfuðum með Leó í Skógrætarfélagi Kópavogs hrifumst af þeim áhuga, dugnaði og trúmensku sem hann sýndi félaginu alla tíð. Hann sat í stjórn félagsins í rúma tvo áratugi og gengdi þar af formennsku í nokkur ár.

Skógræktarfélag Kópavogs var stofnað fyrir liðlega 30 árum og fljótlega gekk Leó til liðs við félagið og vann alla tíð við plöntun og sinnti öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Árið 1972 réðist Skógræktarfélag Kópavogs í það verkefni að kaupa hálf jörðina Fossá í Hvalfirði. Leó átti stóran þátt í þeim kaupum og upp frá því átti Fossá hug hans allan. Þær voru ófáar ferðirnar sem Leó fór að Fossá í Hvalfirði til að ditta að húsum og búnaði féagsins. Þær voru ófáar ferðirnar sem hann fór að Fossá og stóð við plöntun og leiðbeindi ungu fólki og unglingum frá vinnuskóla Kópavogs. Í dag er kominn á Fossá hinn vöxtulegasti skógur sem er mikill fengur fyrir skógræktarfélagið að geta státað af. Eygló kona hans studdi mann sinn heilshugar í skógræktarstarfinu, fór hún oftar en ekki með í ferðir hans á Fossá á meðan heilsa og kraftar entust. Skógræktarfélagið Kópavogs vill þakka Leó, Egló og fjölskyuldu þeirra þetta mikla framlag til eflingar félagsins og skógræktarinnar í landinu. Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs vottar börnum hans, tendabörnum og barnabörnum samúð á þessari sorgarstundu.

F. h. Stjórnar Skógræktarfélags Kópavogs

Sigríður Jónasdóttir, Bragi Michaelsson.

Kveðja frá félögum í Lionsklúbbi Kópavogs

Leó Guðlaugsson gekk í Lionsklúbb Kópavogs árið 1976. Hann var góður félagi og tók jafnan þátt í verkefnum klúbbsins af áhuga og eljusemi. Það breyttist ekki þótt aldur færðist yfir, hann var alla tíð jafnötull. Dæmi um þetta er að Leó sat félagsfund í klúbbnum aðeins þremur dögum fyrir andlátið, næstum því hálftíræður að aldri.

Leó sinnti mörgum trúnaðarstörfum fyrir Lionsklúbbinn, bæði sem stjórnarmaður og þátttakandi í mörgum nefndum og starfshópum. Skógrækt og landgræðsla voru Leó ofarlega í huga og var hann á margan hátt brautryðjandi í þeim efnum. Hann var um árabil formaður Skógræktarfélags Kópavogs, en á þeim tíma gekkst félagið meðal annars fyrir mikilli skógrækt við Fossá í Kjós.

Árið 1991 var Leó sæmdur nafnbótinni Melvin Jones félagi, en það er æðsta viðurkenning sem Lionsklúbbur getur veitt fyrir gifturík störf að samfélagsmálum. (Melvin Jones stofnaði Lionshreyfinguna í Chicago árið 1917.)

Leó Guðlaugsson hélt andlegum styrk og góðu minni fram í háa elli. Til marks um það langar mig til þess að segja frá því að fyrir nokkrum árum var á vegum Lionsklúbbs Kópavogs farið norður á Strandir í svonefnda vorferð. Leiðin lá um Hrútafjörð, æskuslóðir Leós. Á norðurleið var hann fenginn til þess að segja fólkinu í rútunni frá mannlífi í sveitinni. Leó talaði lengi og greindi frá áhugaverðum persónum og atburðum í sínu ungdæmi. Þegar leiðin síðan lá suður daginn eftir, hélt hann frásögninni áfram, endurtók aldrei neitt, en sagði sem fyrr frá af þess konar list að ferðafélagarnir, allir sem einn, lögðu hlustir við með óskiptri athygli.

Við, sem höfum notið þeirrar gæfu að kynnast Leó Guðlaugssyni, kveðjum nú hugsjónamanninn og vorhugann. Aðstandendum er vottuð samúð. Það á vel við að ljúka þessum orðum með tilvitnun í kvæði eftir Guðmund Guðmundsson, sem kallaður var skólaskáld.

Vormenn Íslands yðar bíða

eyðiflákar, heiðarlönd.

Komið grænum skógi' að skrýða

skriður berar, sendna strönd.

Huldar landsins verndarvættir

vonarglaðar stíga dans,

eins og mjúkir hrynji hættir,

heilsa börnum vorhugans.

Jónas Frímannsson.

Okkur langar til að minnast með nokkrum orðum nágranna okkar og góðvinar til margra ára Leós Guðlaugssonar húsasmíðameistara. Leó lést í Sunnuhlíð í Kópavogi laugardaginn 14. febrúar tæplega 94 ára gamall.

Þegar við fluttum á Víghólastíginn vorið 1985 var okkur og hundunum okkar, þeim Bangsa og Tátu, tekið opnum örmum af Leó og konu hans, Soffíu Eygló, sem lést fyrir nokkrum árum, og syni þeirra, Guðlaugi. Soffía Eygló og Leó höfðu búið á Víghólastíg síðan um 1952 og voru fyrstu íbúar götunnar.

Betri nágranna getur enginn maður hugsað sér og Bangsi og Táta okkar eignuðust mikinn vin. Leó hafði þann sið að ganga alltaf með bita af harðfiskroði í jakkavasanum til að rétta þeim. Leó var mikill dýravinur og þegar hundarnir okkar fóru voru þau grafin, með viðhöfn, í garðinum okkar í fallegum fóðruðum kistum sem Leó hafði nostrað við að smíða og mála.

Íslenska tíkin okkar, hún Ragnheiður, hefur líka fengið ómælt magn af harðfiskroði úr jakkavasanum hans. Hún skilur ekki af hverju Leó opnar ekki lengur fyrir henni útidyrnar þegar hún er að gá að honum. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar Ragga kom í heimsókn til hans í Sunnuhlíð um daginn og það lýsir vel væntumþykju hans að á einum veggnum í herberginu hans var mynd af Leó með vinkonu sinni Röggu og önnur mynd af henni einni.

Alltaf var hægt að leita til Leós með ráðleggingar varðandi endurbætur á húsinu og garðinum, hjá honum var hjálpsemin í fyrirrúmi.

Leó var skógræktarmaður af hugsjón og var formaður Skógræktarfélags Kópavogs árum saman.

Hann átti áreiðanlega heimsmet í birkifræsöfnun. Þegar hann var kominn á efri ár og að mestu hættur að vinna á verkstæðinu sínu varði hann heilu dögunum, vikum saman, á haustin í fræsöfnun og var ótrúlega afkastamikill í þeim efnum. Fyrir þetta afrek hlaut hann Landgræðsluverðlaunin árið 1999.

Það var alltaf gaman að fá Leó í kaffi, hann hafði frá mörgu að segja, var víðsýnn maður og hafði áhuga á flestum málefnum. Það var um margt spjallað og spekúlerað.

Leó upplifði miklar breytingar í þjóðfélaginu og við fengum að heyra margar sögur um það hvernig lífið gekk fyrir sig þegar hann var ungur maður á fyrri hluta síðustu aldar. Pólitík bar oft á góma, Leó var gamall kommúnistahugsjónamaður og var ekki hrifinn af auðvaldsstefnu. Hann vildi að allir menn væru jafnir.

Hann hafði brennandi áhuga á Grænlandi og Grænlendingum og las allt sem hann komst yfir um land þeirra og þjóð. Einnig sendi hann margsinnis fatasendingar til bágstaddra Grænlendinga. Siggi var þeirrar ánægju aðnjótandi að geta boðið honum í nokkrar ferðir til Kulusuk og voru þær ferðir þeim báðum mjög eftirminnilegar.

Leó hefur dvalið síðastliðna mánuði í Sunnuhlíð. Alltaf kom hann þó heim öðru hvoru og leit þá gjarnan við hjá okkur. Heimsókna hans verður sárt saknað og lífið hér á Víghólastígnum tómlegra fyrir vikið.

En við erum þakklát fyrir að hafa átt góðan vin og nágranna í öll þessi ár. Blessuð sé minning hans.

Við sendum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Elli og Guðmunda.