Finnur'etta? Larry á fullu í búrinu.
Finnur'etta? Larry á fullu í búrinu.
MIKIÐ verður um að vera á Kapital í Hafnarstræti í kvöld þegar bandaríski tónlistarmaðurinn Larry Heard, öðru nafni Mr. Fingers, mun þar spila.

MIKIÐ verður um að vera á Kapital í Hafnarstræti í kvöld þegar bandaríski tónlistarmaðurinn Larry Heard, öðru nafni Mr. Fingers, mun þar spila. Kvöld þetta er haldið í samvinnu við New Icon Records en auk Heard munu DJ Brett Dancer frá plötuútgáfufyrirtækinu TrackMode koma fram, svo og Margeir og Tommi White. Aaron Carl frá Detroit mun svo syngja. Larry Heard er frá Chicago og segir í fréttatilkynningu að hann sé einn af "guðfeðrum house-tónlistarinnar" ásamt Frankie Knuckles. Hann njóti því mikillar virðingar í stétt sinni og það sé mikill fengur í komu hans hingað til lands.

Um miðjan níunda áratuginn var Heard í hljómsveitinni Fingers Inc með hinum kunna Robert Owens og saman gerðu plötuna Another Side sem þykir með því betra sem gert hefur verið í þeim geiranum. Á henni er lagið "Can You Feel It" sem sagður hefur verið eins konar þjóðsöngur danstónlistar enda hljómar það enn reglulega á betri dansklúbbum heimsins og verður vafalaust spilað í kvöld.

Heard þykir hafa haft meiri áhrif á danstónlist samtímans en flestir aðrir og taka menn eins og Carl Craig, Felix B úr Basement Jaxx og Diego úr 4 Hero heilshugar undir þá fullyrðingu.