Magnús Geir Þórðarson: Fullur tilhlökkunar að takast á við krefjandi verkefni á spennandi tímum.
Magnús Geir Þórðarson: Fullur tilhlökkunar að takast á við krefjandi verkefni á spennandi tímum.
Magnús Geir Þórðarson hefur verið ráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar til næstu þriggja ára. Hann tekur við starfinu 1. apríl nk.

Magnús Geir Þórðarson hefur verið ráðinn leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar til næstu þriggja ára. Hann tekur við starfinu 1. apríl nk. af fráfarandi leikhússtjóra, Þorsteini Bachmann, sem sagði nýverið upp stöðu sinni eftir þriggja ára starf hjá félaginu. Magnús Geir er Reykvíkingur að uppruna, fæddur 1973 og lauk stúdentsprófi frá MR. Hann nam leikstjórn við The Bristol Old Vic Theatre School og er MA í leikhúsfræðum frá The University of Wales - Aberystwyth. Hann hefur verið afkastamikill leikstjóri og leikstýrt fjölda leiksýninga á síðustu árum. Magnús Geir hefur reynslu af störfum leikhússtjóra því um sex ára skeið var hann leikhússtjóri Leikfélags Íslands, en auk þess hefur hann sinnt ýmsum öðrum stjórnunarstörfum á sviði leiklistar. Hann stundar nú MBA-nám við Háskólann í Reykjavík samhliða starfi.

Að sögn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, formanns leikhúsráðs Leikfélags Akureyrar, var ákveðið að auglýsa ekki stöðuna að þessu sinni. "Okkur fannst mikilvægt að ganga hratt til verks og fá nýjan mann sem fyrst til starfa svo viðkomandi gæfist góður tími til að undirbúa nýtt leikár, auk þess sem okkur ber ekki skylda til að auglýsa stöðuna." Sigmundur segir fjölda efnilegra einstaklinga hafa sett sig í samband við leikfélagið þegar ljóst var að fráfarandi leikhússtjóri hefði ákveðið að segja starfi sínu lausu. "Við höfðum því úr mjög góðum hópi að velja, en okkur fannst Magnús Geir einfaldlega mest spennandi kandídatinn. Hann hefur mikla reynslu, bæði af rekstri og leikstjórn. Magnús hefur mótaðar hugmyndir um framtíð leikfélagsins og er líka mjög markaðslega þenkjandi og það er ljóst að við viljum á næstum árum gera leikfélagið markaðslegra," segir Sigmundur og leggur áherslu á að stefnan á næstu misserum sé að fjölga leikhúsgestum með því að tryggja bæði faglegan og markaðslegan metnað leikfélagsins á sama tíma og reksturinn verði tryggður.

Aðspurður segir Magnús Geir ráðninguna leggjast afskaplega vel í sig. "Ég er fullur tilhlökkunnar að takast á við þetta krefjandi verkefni á spennandi tímum. Nýverið var leikhúsið opnað á aftur eftir endurbætur og nú er komið að því að byggja starfsemi leikfélagsins upp til framtíðar." Inntur eftir því hverju leikhúsgestir megi eiga von á næstu misserum segir Magnús Geir að boðið muni verða upp á kraftmikið, metnaðarfullt og gott leikhús fyrir Akureyringa og gesti þeirra. "Við ætlum okkur að reka leikhús fyrir breiðan hóp áhorfenda og viljum hafa það ferskt og áhrifamikið."