Fermingarmynd af Sigrúnu Kristjánsdóttur.
Fermingarmynd af Sigrúnu Kristjánsdóttur. — Stúdíó Guðmundar
Stundum segja menn svo sem að unglingar "fermist vegna gjafanna". Því fer víðs fjarri. Fyrir utan hina augljósu trúarlegu þýðingu er ferming auðvitað miklu meira en það að koma saman og gefa unglingi gjafir og borða svo og drekka saman.

Stundum segja menn svo sem að unglingar "fermist vegna gjafanna". Því fer víðs fjarri. Fyrir utan hina augljósu trúarlegu þýðingu er ferming auðvitað miklu meira en það að koma saman og gefa unglingi gjafir og borða svo og drekka saman. Ferming er í eðli sínu skilaboð til unglings um að nú sé hann kominn "til vits og ára". Og það er fallegur siður að fagna komu unglings í samfélaga hinna eldri með því að gefa honum gagnlegar gjafir í veganesti til þeirrar löngu göngu sem fullorðinsárin eru.

En auðvitað er ljóst að gjafirnar hjálpa mjög til þess að gera atburðinn og daginn eftirminnilegan í huga unglingsins.

Fermingargjafir hafa tíðkast lengi á Íslandi en þær hafa tekið miklum breytingum í áranna rás. Á hverjum tíma hafa verið gjafir sem einstaklega viðeigandi þóttu. Sigrún Kristjánsdóttir starfsmaður á Þjóðminjasafni hefur svolítið gluggað í þessi mál, auk þess sem hún hefur sérlegan áhuga á fermingum núna af því það á að ferma næstelsta barnið hennar.

"Fermingargjafir fóru ekki að tíðkast fyrr en eftir miðja 19. öld segir Árni Björnsson í bók sinni Merkisdagar á mannsæfinni. Það gat þá verið ýmislegt sem gefið var. T.d. peningar eða munir sem komu barninu að gagni," segir Sigrún.

"Einkum er getið um bækur og flíkur til að byrja með en síðan komu peningar og skartgripir. Í sveitum voru oft gefnar kindur í fermingargjöf og hestar, sem og reiðtygi. Það tíðkast reyndar enn að gefa hesta og reiðtygi.

Á þriðja áratug fara vasaúr að verða algeng fermingargjöf fyrir pilta og síðar komu armbandsúrin til sögunnar fyrir bæði kynin. Um það leyti komu svo reiðhjól inn í myndina. Það var ekki fyrr en eftir miðja öld sem farið að gefa húsgögn í fermingargjafir, skrifborð, rúm og skatthol, sem voru mjög vinsæl. Skatthol er orðin sjaldséð núna, eins og þau voru skemmtileg hönnun. Um svipað leyti og skattholin voru vinsæl komu svefnpokar, prísmusar og tjöld, skíði, myndavélar og veiðistangir á gjafalistann. Upp úr 1970 fara hljómflutningstæki mjög að ryðja sér til rúms og verða vinsælasta fermingargjöfin og þá fer fólk líka að gefa börnum utanlandsferðir í fermingargjöf. Hin svokölluðu bjútíbox urðu einnig mjög vinsæl gjöf þessum tíma.

Svo við snúum okkur að nútímanum þá eru hljómflutningstæki enn vinsæl gjöf, svo og skargripir sem einnig voru samkvæmt lauslegri athugun minni afar mikið gefnir stúlkum sem nú eru komnar á fimmtugsaldur. Orðabækur halda enn velli, einnig fá og fengu margir sagnfræðilegar bækur og ljóðbækur - sameiginlegt með þessum gjöfum er að þær eru "fullorðinsgjafir". Þess má geta að allar vinkonur mínar fengu kommóður. Utanlandsferðir eru enn mjög vinsæl gjöf, það nýjasta og mjög algenga er að margir ættingjar og vinir skjóta nú saman saman í tölvur handa fermingarbörnum."