[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vorið 1954 sendu prestar Akureyrarkirkju frá sér stutta tilkynningu þar sem þeir gerðu grein fyrir því að taka ætti upp sérstaka búninga fyrir fermingarbörnin það vorið. Séra Friðrik J.

Vorið 1954 sendu prestar Akureyrarkirkju frá sér stutta tilkynningu þar sem þeir gerðu grein fyrir því að taka ætti upp sérstaka búninga fyrir fermingarbörnin það vorið. Séra Friðrik J. Rafnar, þá sóknarprestur á Akureyri, sem sjálfur hafði þegar árið 1906 séð slíka búninga notaða í Edinborg sagði markmiðið með notkun á fermingarkyrtlum vera þríþætt, - að gera ferminguna hátíðlegri, að koma í veg fyrir mismunun fermingarbarnanna hvað fermingarklæði snerti og að draga úr kostnaði foreldra við fermingu barna sinna. Markmiðið var einnig að forðast að fermingarathöfnin yrði nokkurs konar tískusýning.

Séra Jón M. Guðjónsson bar fram hugmyndina um kyrtlana

Aðdragandi þessarar ákvörðunar var þó nokkur. Fyrstur til að bera þessa hugmynd upp hér á landi var séra Jón M. Guðjónsson, þá sóknarprestur á Akranesi. En hugmyndin kom líklega hingað frá Noregi. Í febrúarhefti Æskulýðsblaðsins sem gefið var út af Æskulýðsfélagi Akureyrarkirkju var vitnað í frásögu norska tímaritsins "Alle Kvinner blad", þess efnis að Dómkirkjan í Ósló hefði verið fyrst til þess að nota fermingarkyrtla og að Sandvíkurkirkja í Bergen hefði fylgt í kjölfarið. Nú færi þessi siður eins og eldur í sinu um allan Noreg og reikna mætti með að fljótlega myndu allar kirkjur í Noregi taka upp fermingarkyrtla.

Í janúarhefti Æskulýðsblaðsins þetta ár skrifaði séra Pétur Sigurgeirsson, einnig sóknarprestur í Akureyrarprestakalli: Líkur benda til að fermingarkyrtlarnir verði saumaðir fyrir næstu fermingu. Kvenfélag Akureyrarkirkju mun beita sér fyrir því, að það verði gert. Ætlar félagið að gefa kirkjunni kyrtlana ... Er hér um algjöra nýbreytni að ræða á Íslandi.

Þetta vor fermdust fyrstu íslensku börnin í fermingarkyrtlum í Akureyrarkirkju og í Lögmannshlíðarkirkju, en konur í kvenfélaginu Baldursbrá í Glerárþorpi höfðu þegar í nóvember 1953 tekið málið upp á félagsfundi og rætt nauðsyn þess að sauma kyrtlana. Efnið í kyrtlana var pantað "að utan", að frumkvæði Kvenfélags Akureyrarkirkju.

(Byggt á samantekt Péturs Björgvins Þorsteinssonar á vef Háteigskirkju.)