[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ hefur í sívaxandi mæli tíðkast að hafa kerti á fermingarborðum sem merkt eru sérstaklega fermingarbarninu. Margrét Ása Karlsdóttir, starfsmaður í Blómavali, hefur sérhæft sig í að merkja fermingarkerti.

ÞAÐ hefur í sívaxandi mæli tíðkast að hafa kerti á fermingarborðum sem merkt eru sérstaklega fermingarbarninu.

Margrét Ása Karlsdóttir, starfsmaður í Blómavali, hefur sérhæft sig í að merkja fermingarkerti.

"Ég nota kertaliti og gyllingu í túpum til merkinganna. Þetta eru hvor tveggju efni sem ekki kviknar í og það er þýðingarmikið," segir Margrét Ása.

"Það er hægt að skrifa á næstum allar gerðir kerta, ef þau eru ekki of gróf. Algengast er nú að fólk kaupi pýramídakerti og láti skrifa á þau tilefnið, dagsetningu fermingarinnar og nafn fermingarbarnsins.

Áletrun og kerti kosta saman um 3.000 krónur. Eftirspurn eftir þessari þjónustu hefur aukist mikið undanfarin þrjú ár. Kerti af öllu tagi eru mikið notuð á fermingarborð, hægt er að skreyta kerti á ýmsan máta, t.d. með krossum og áteiknuðu skrauti.

Margir láta líka árita servíettur og það er hægt að fá slíkt hér. Hægt er að árita flestar tegundir af servíettum en heppilegustu fermingarservíetturnar af þessu tagi eru þær sem eru með litlu skrauti svo gott pláss sé fyrir texta. Ef miðað er við 80 stykki þá kostar áletrunin 2.490 krónur.

Við erum auðvitað með mikið framboð af blómaskreytingum á borð og jafnvel í hár. Með kertunum er oft pöntuð skreyting í kringum það. Við bjóðum líka upp á alls kyns skreytingarefni fyrir veisluborð."