F.v. Stefanía Ólafsdóttir og Jóhanna Jónasdóttir.
F.v. Stefanía Ólafsdóttir og Jóhanna Jónasdóttir. — Morgunblaðið/Ásdís
TVÆR ÚR kennarahópnum sem útbjó "fermingarveisluna góðu" eru þær Stefanía Ólafsdóttir, aðstoðarskólastjóri í námsleyfi, og Jóhanna Jónasdóttir framhaldsskólakennari.

TVÆR ÚR kennarahópnum sem útbjó "fermingarveisluna góðu" eru þær Stefanía Ólafsdóttir, aðstoðarskólastjóri í námsleyfi, og Jóhanna Jónasdóttir framhaldsskólakennari. Jóhanna er að afla sér réttinda til heimilisfræðikennslu í grunnskóla en Stefanía er í heimilisfræði "sér til ánægju", eins og hún orðar það.

"Ég hafði ánægju af að útbúa þetta fermingarborð, sem er samansett úr þægilegum uppskriftum. Ég hef sjálf látið ferma þrjú börn fyrir nokkuð löngu og var tvisvar með kaffiveislu heima en einu sinni var ég með matarveislu úti í bæ. Eftir þetta nám þá er ég betur í stakk búin til þess að halda stórar veislur, heima eða í sal. Námið hefur veitt mér bæði mikla ánægju og ýmislegt hef ég lært sem ég hafði ekki hugsað mikið út í áður. Það er mjög fjölbreytt og lögð mikil áhersla á hollustu og það að geta lagað góðan mat á stuttum tíma og einnig hve miklu skiptir að maturinn sé fallega fram borinn.

Heimilisfræði er mikilvæg námsgrein í hröðu samfélagi. Sjálf hef ég ekki kennt heimilisfræði enda hef ég litla kennsluskyldu en ég get vel hugsað mér að kenna þetta fag meðfram þegar ég tek til starfa aftur að loknu námsleyfi. Heimilisfræði verður stundum dálítið út undan í skólunum, víða vantar menntaða heimilisfræðikennara og nú er ég færari en áður til að halda heimilisfræðinni á lofti þegar verið er að skipuleggja skólastarfið.

Myndi nú treysta sér vel í slaginn

"Ég á fjögur börn og hef því auðvitað eytt miklum tíma í matseld í eldhúsi, en nú nálgast ég þetta efni á allt annan hátt," segir Jóhanna Jónasdóttir.

"Ég hef lært næringarfræði og veit nú vel hvað er hollt og óhollt og er nú miklu öruggari þegar kemur að veisluhöldum af öllu tagi. Ég er búin að standa fyrir þremur fermingarveislum og treysti mér þá ekki til að útbúa veisluföngin sjálf en nú myndi ég vel treysta mér í slaginn.

Veisluborðið sem við útbjuggum krefst ekki neinnar sérþekkingar og ætti að vera aðgengilegt öllum þeim sem vilja halda veislu heima hjá sér.

Ég hef réttindi sem framhaldsskólakennari á hársnyrtibraut en vildi víkka sjóndeildarhringinn og fór í heimilisfræðinám sem tekur tvo vetur en ég lýk á einum vetri með því að vera bæði í fjarnámi og staðnámi KFÍ.

Mér finnst heimilisfræðinámið mjög skemmtilegt og gefandi og það er að mínu mati mjög nauðsynlegt, sérstaklega í "heimi skyndibitans". Það er þýðingarmikið að börn og unglingar læri að búa til hollan og góðan heimilismat og það mætti vera meiri kennsla í þessum efnum í efri bekkjum grunnskólans að mínu mati. Ekki má gleyma að þetta er kannski eina kennslan í matreiðslu sem fólk fær áður en það fer út í lífið."