Guðmunda Elíasdóttir söngkona.
Guðmunda Elíasdóttir söngkona. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki algengt að fólk fermist tvisvar, en það hefur Guðmunda Elíasdóttir söngkona gert. "Ég fermdist í fyrra sinni í maímánuði 1934 í Dómkirkjunni í Reykjavík og það var séra Bjarni Jónsson sem fermdi," segir hún.

Það er ekki algengt að fólk fermist tvisvar, en það hefur Guðmunda Elíasdóttir söngkona gert.

"Ég fermdist í fyrra sinni í maímánuði 1934 í Dómkirkjunni í Reykjavík og það var séra Bjarni Jónsson sem fermdi," segir hún.

"Mig minnir að við höfum verið um tuttugu stelpur og strákar sem fermdumst saman, það var gengið til prests um veturinn eins og gerist enn í dag og maður var búinn undir þessa miklu lífsreynslu.

Ég átti heima í Skerjafirði þegar þetta var, mamma mín var ráðskona hjá manni sem hét Ólafur og var steinhöggvari og hafði okkur tvær systurnar hjá sér, mig og Nönnu, yngri systur mína. Mamma hafði misst föður okkar 1923 í sjóinn og þannig fór fyrri maður hennar einnig.

Þegar ég er að lesa um fermingartilboðin í blöðunum í dag verður mér hugsað til kassamyndavélarinnar sem mamma, Elísabet eldri systir mín og Ólafur slógu saman í og var eina fermingargjöfin mín fyrir utan Passíusálmana."

Fékk lánaðan fermingarkjól

"Ég var miklu meiri manneskja en áður að eiga þessa myndavél og fann mjög til mín. Fyrsta myndin var tekin á vélina á fermingardaginn eftir kaffiveislu sem mamma fékk að halda í stofunni hans Ólafs steinhöggvara, við systurnar og mamma bjuggum annars í kjallaranum. Ég man að stofan var puntuð með blómum.

Veitingarnar voru heimabakaðar kökur, súkkulaði með þeyttum rjóma og kaffi á eftir, viðstaddir voru mamma, ég, systur mínar Nanna og Beta og Ólafur.

Ég fékk lánaðan fermingarkjól hjá vinkonu minni sem bjó líka í Skerjafirði - þetta var fyrir tíma kyrtlanna. Ég var bara greidd eins og venjulega og var ekki með neitt stáss en fór í sparikjólinn minn eftir ferminguna.

Ég var bara búin að vera tvö ár í Reykjavík þegar þetta var, við fluttum frá Ísafirði hingað 1932, ég átti því ekki margar vinkonur."

Þú hefur alltaf verið kaþólsk, Guðmunda!

"Mér hafði verið innprentað að nú væri ég komin í kristinna manna tölu og tók það mjög alvarlega. Ég var mjög trúhneigð sem barn, enda alin upp við trúrækslu, mamma lét okkur Nönnu biðja bænir upphátt með sér á hverju einasta kvöldi og alltaf báðum við sérstaklega fyrir sjómönnunum. Svo sagði hún við okkur eftir bænalesturinn að nú mættum við ekki tala. Þetta var sniðugt hjá mömmu, þá fórum við að sofa - ég áttaði mig ekki á því þá.

Seinna skiptið sem ég fermdist var allt öðru vísi.

Ég tók kaþólska trú og það átti sér forsögu til æsku minnar. Þegar við komum til Reykjavíkur frá Ísafirði vorum við Nanna systir mjög einmana, vorum allt öðruvísi en stelpurnar í kring, töluðum meira að segja vestfirsku, þannig að við duttum niður á að fara í kaþólsku kirkjuna, þangað kostaði ekkert að fara og hún var nýbyggð og mjög falleg. Við vorum svo feimnar að þegar systurnar í Landakoti réttu okkur hendurnar þá hlupum við í burtu.

Þetta hefur sáð fræi í sál mína sem síðar náði að spíra og þroskast. Samverkakona mín og vinkona, Þuríður Pálsdóttir, við sungum mikið saman hér heima, hún sagði einu sinni við mig:

"Þú hefur alltaf verið kaþólsk, Guðmunda." Líklega er það rétt, ég var alltaf með krossa og þegar ég fór til Danmerkur 17 ára gömul fór ég með talnaband sem ég hafði átt lengi og haft mér til halds og trausts. Ég var þó ekki með það þegar ég var fermd í Dómkirkjunni. Ég fann að það var ekki viðeigandi og vildi ekki vera öðruvísi en aðrir.

Þegar ég kom heim til Íslands 1968 eftir langa dvöl í útlöndum þá hlustaði ég oft á messur í útvarpinu og söng með eins og mamma hafði gert.

Nokkrum árum síðar missti ég manninn minn, Sverri Kristjánsson sagnfræðing, og var mjög ein inni í mér, þótt ég væri að kenna og leika á sviði um þær mundir. Þá hugsaði ég til kaþólsku kirkjunnar og hvað við Nanna systir höfðum gert þegar við vorum einar. Ég fór að fara í kaþólsku kirkjuna, gekk frá Grjótagötunni upp að Landakoti, sat aftast í kirkjunni og lét lítið á mér bera og flýtti mér út eftir messurnar, því ég var ekki kaþólsk.

Svo hugsaði ég með mér þegar ég var nokkrum árum síðar farin að fara í kaþólsku kirkjuna á hverjum sunnudegi: "Þetta gengur ekki lengur, nú sit ég framar í kirkjunni - ég vil fara í trúfræðslu." Ég fór í trúfræðslu hjá séra Jakobi Rolland."

Aðalatriðið er trúin sjálf

"Maður ræður hvort maður lætur skíra sig eða ekki. Trúfræðslan er mjög menntandi en mér fannst furðu lítið stangast þar á við húslestrana sem amma í Arnadal og móðurbróðir minn höfðu lesið þegar ég var hjá þeim í sveit sem barn. Aðalatriðið er trúin sjálf - Guðstrúin.

En það tók mig að það var eins og heilagleikinn væri meiri og fólkið væri innilegra í kaþólsku kirkjunni heldur en þeirri lúthersku, sem ég vil þó ekkert segja nema gott um. Einkum fannst mér áhrifamikið þegar fólkið bað saman. Þetta bjargaði mér frá einsemdinni og ég er Guði þakklát fyrir það.

Eftir trúfræðsluna ákvað ég og víst einir fimmtán aðrir að láta fermast. Svaramaður minn var Gunnar Eyjólfsson leikari og gamall vinur minn. Ég fermdist í síðara skiptið 29. september 1995. Síðan hef ég stundað kirkju á hverjum sunnudegi.

Ég var fermd snemma dags og presturinn, nokkrar systur og safnaðarfélagar komu heim til mín og drukku hjá mér morgunkaffi. Um kvöldið hélt ég ættingjum og vinum matarveislu. Ég fékk góðar gjafir, þar á meðal Biblíu og fleiri bækur, mikið af blómum, stóra tertu frá syni mínum og tengdadóttur í Lúxemborg og ýmislegt annað.

Þótt þessar fermingar væru gjörólíkar er atburðurinn sá sami, það er bara mismunandi máti sem söfnuðirnir hafa. Síðar létu dóttir mín, tengdasonur og dótturdóttir skírast inn í kaþólska söfnuðinn."