[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vatnið hefur mikil áhrif á líf okkar. Það er allt í kringum okkur og hylur 75% af yfirborði jarðarinnar. Svo eru líka allar plöntur, dýr og menn að miklu leyti gerð úr vatni en tveir þriðju hlutar mannslíkamans eru gerðir úr vatni.

Vatnið hefur mikil áhrif á líf okkar. Það er allt í kringum okkur og hylur 75% af yfirborði jarðarinnar. Svo eru líka allar plöntur, dýr og menn að miklu leyti gerð úr vatni en tveir þriðju hlutar mannslíkamans eru gerðir úr vatni.

Vatnið er líka lífsnauðsynlegt fyrir okkur til þess að við getum lifað. Við verðum að drekka vatn eða annan vökva (sem er að mestu gerður úr vatni) á hverjum degi til að halda heilsu því fólk lifir yfirleitt ekki lengur en fjóra daga án vatns.

Plönturnar og dýrin, sem við nærumst á þurfa líka hæfilegt magn af vatni til þess að geta lifað og því ræður vatnið miklu um það hve góðu lífi fólk lifir.

Þannig veldur vatnsskortur til dæmis mikilli fátækt á stórum svæðum í Austur-Afríku á sama tíma og flóð valda miklum skaða á öðrum svæðum í heiminum, eins og til dæmis í Bangladesh.

Endalaus hringrás vatnsins

Það getur verið sorglegt að vita af því að menn og dýr séu að deyja úr þurrkum á einum stað í heiminum á sama tíma og allt er á floti annars staðar en þetta er bara eitt af þeim náttúrulögmálum sem mennirnir ráða ekkert við.

Mestallt vatnið á jörðinni er nefnilega hluti af risastórri hringrás vatnsins en þó að vatn sé gert úr tveimur algengum frumefnum (vetni og súrefni) myndast lítið af nýju vatni á jörðinni. Þannig hefur sama vatnið fallið ótal sinnum til jarðar sem rigning og runnið þaðan aftur og aftur eftir alls kyns krókaleiðum til sjávar. Þaðan gufar það svo fyrr eða síðar aftur upp til skýja og þannig byrjar sama hringrásin enn og aftur.

Salt vatn á göturnar

Við notum ólíka eiginleika vatnsins á margan hátt en vatnið hefur marga eiginleika sem við þekkjum vel þó að við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því. Þannig vitum við til dæmis flest að vatnið er yfirleitt í fljótandi formi þó að það geti líka verið fast efni (ís) og lofttegund (gufa).

Við vitum líka að saltvatn gufar upp við hærri hita og frýs við lægri hita en ósalt vatn en það er einmitt ástæðan fyrir því að sjórinn frýs seinna en annað vatn. Þetta er líka ástæðan fyrir því að við berum salt á göturnar í hálku en þannig erum við að gera ósalta vatnið á götunum salt til þess að það frjósi síður.

Flestir krakkar vita líka að það myndast gufa þegar vatn sýður en færri vita sennilega að þetta gerist vegna þess að vatnið gufar svo hratt upp að það myndast loftbólur í því.

Það vita sennilega heldur ekki allir að vatnsgufan sjálf er ósýnileg og að gufuskýin sem við sjáum þegar vatnið gufar upp eru gerð úr örsmáum vatnsdropum sem myndast þegar heit vatnsgufan mætir köldu lofti og þéttist.

Við rákum okkur einmitt á þetta þegar við fórum að taka myndirnar af krökkunum í sundfélaginu Ægi um daginn en ljósmyndarinn gat ekki tekið myndirnar af þeim fyrr en eftir dágóða stund þar sem það myndaðist svo mikil móða á linsunni. Þetta lagaðist svo þegar linsan hafði hitnað svolítið, því þá mætti heit gufan ekki lengur köldum ögnum á linsunni.