Ragnheiður Ragnarsdóttir sýningarstjóri á Jóni forseta. Verk eftir Erlu Þórarinsdóttur í baksýn.
Ragnheiður Ragnarsdóttir sýningarstjóri á Jóni forseta. Verk eftir Erlu Þórarinsdóttur í baksýn. — Morgunblaðið/Golli
NÝTT menningarkaffihús hefur litið dagsins ljós í Aðalstræti 10 og hefur fengið nafnið Jón forseti. Um er að ræða fjölmenningarhús með margs konar menningaruppákomum. Viðbót við góðan kaffisopa er neysla á menningarlegu góðgæti, s.s.

NÝTT menningarkaffihús hefur litið dagsins ljós í Aðalstræti 10 og hefur fengið nafnið Jón forseti. Um er að ræða fjölmenningarhús með margs konar menningaruppákomum. Viðbót við góðan kaffisopa er neysla á menningarlegu góðgæti, s.s. kvikmyndasýningar, bókmenntaupplestur, leikrit og lifandi tónlist, svo eitthvað sé nefnt. Á Jóni forseta er einnig listgallerí í 40 fm rými innaf kaffihúsinu sem ætlað er til sýningarhalds. Sýningarstjóri hefur verið ráðinn Ragnheiður Ragnarsdóttir myndlistarmaður og arkitekt. Hún var framkvæmdastjóri Nýlistasafnsins á árunum 1993-2000.

"Þarna verða metnaðarfullar sýningar," segir Ragnheiður. "Staðurinn er ennþá í mótun og hefur allar forsendur til að vaxa og dafna í okkar fjölbreyttu menningarflóru. Þegar Ragnar Halldórsson, eigandi menningarhússins, kom að máli við mig þess efnis að halda utan um sýningarhaldið sló ég strax til. Bæði vegna þess að mér finnst spennandi að taka þátt í þessari tilraun, að fá að hafa áhrif á mótun og þróun staðarins og eins hefur mér alltaf fundist vanta svona stað í menningarlífið okkar."

Hvernig listamenn munu sýna hjá ykkur?

"Ég geri ráð fyrir því að þarna sýni hæfir myndlistarmenn, víðsýnir og áræðnir með áhuga fyrir því að sýna myndlist á öðrum stöðum en í hefðbundnum sýningarsölum. Myndlistarmenn með einhvern bakgrunn eru náttúrlega ekki tilbúnir að hoppa útí hvað sem er og myndu ekki taka þátt í sýningu nema þeir væru sáttir við staðinn, það er alveg ljóst. Okkar listræna stefna er ekki lóðrétt lína, listamenn mega t.d. mála veggina í salnum, ef þeim sýnist svo, sem hluta af sýningunni, þannig að rýmið verður síbreytilegt."

Þegar Ragnheiður er spurð að því hvernig hún telji að kaffihús og myndlistasýningar fari saman segir hún að sýningasalir þurfi ekki endilega að vera í hvítum kassa. "Sýningasalir eru þar sem ákveðið er að þeir verði, þeir þurfa ekki endilega að vera í fyrirframgefnu sýningarrými. Við sjáum það t.d. á Mokka að vel hefur farið að blanda saman kaffihúsi og myndlist. Það hefur tíðkast til fjölda ára og verið eftirsóknarvert að sýna þar."

Á Jón forseta verða reglulegar sýningar árið um kring. Fyrsti listamaðurinn til að sýna er Erla Þórarinsdóttir. Sýningu hennar lýkur 18. mars. Næstur til leiks er Finnur Arnar Arnarsson og sýnir hann ljósmyndaseríu af Jóni forseta.